21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (4297)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 8. landsk. þm. Hann hefir nú orðið tví- eða þrísaga um það, sem hann færði fram helzt til stuðnings sínu máli í fyrra skiptið, sem hann talaði hér. Mér er sagt, að fyrir rétti sé það nóg til þess að ógilda framburð, að vitni verða tvísaga, hvað þá þrísaga. — Hv. þm. vildi halda því fram, að ríkisverksmiðjurnar hafi svipt Siglufjörð stórum tekjumöguleikum, og endurtók það a. n. l., að síldarverksmiðjur hefðu verið þarna áður í eign einstakra manna og reknar af einstökum mönnum. Ég benti á, að tvær af síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði hefðu verið byggðar sem ríkisverksmiðjur og hefðu aldrei verið reknar af einstökum mönnum. Eina verksmiðjan á Siglufirði, sem var í einkaeign, en nú er í eign ríkisins, var búin að standa mörg ár ónotuð, þegar ríkið keypti hana, og stæði þannig líklega enn, ef ríkið hefði ekki hlaupið undir baggann og gert það fyrir Siglufjörð að kaupa verksmiðjuna og reka hana. Og þessi eina verksmiðja vinnur ekki úr nema 1100 málum á sólarhring. En verksmiðjurnar, sem frá byrjun hafa verið ríkisverksmiðjur, vinna úr allt að 4600 málum á sólarhring. Raufarhafnarverksmiðjan og Sólbakkaverksmiðjan voru í einstaklingseign áður en ríkið eignaðist þær. Sólbakkaverksmiðjan vinnur úr 1100 málum á sólarhring. verksmiðjan á Raufarhöfn vann úr 500 málum á sólarhring á meðan hún var í einkaeign. Þá hafa ríkisverksmiðjurnar, sem áður voru í eign einstaklinga, á meðan þær voru í einstaklingseign unnið úr 2700 málum á sólarhring, samhliða því sem ríkisverksmiðjurnar, sem reistar voru sem ríkisverksmiðjur, vinna úr 4600 málum á sólarhring. Þegar þess þar að auki er gætt, að þegar ríkið keypti þessar verksmiðjur, þá lágu fyrir kröfur um það frá hlutaðeigandi sveitarfélögum og öllum útgerðarmönnum á landinu, sem síldveiði stunduðu, að ríkið hlypi þannig undir bagga með þeim, til þess að tryggt yrði, að þessar verksmiðjur yrðu stöðugt starfræktar — en áður hafði það komið fyrir hvað eftir annað, að þær voru ekki starfræktar allar —, þegar þessa er gætt, þá er það augljóst, að það er svo fjarri því, sem nokkuð getur verið, að ríkið hafi að þessum sveitarfélögum nauðugum, með því að kaupa verksmiðjurnar, seilzt inn á hagsmunasvið einstakra manna og þannig svipt sveitarfélögin tekjustofnum. Það kann að vera, að það liggi í atvinnu hv. 8. landsk., að hann þurfi stundum að tala þvert um huga sinn og fyrir röngum málstað. A. m. k. gerir hann það nú, þótt óhönduglega takist, miðað við hans miklu æfingu.