10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (4327)

191. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. leggja til, að málinu verði vísað frá með rökst. dagskrá, og vísa til þess, að væntanlegri breyt. á þingsköpum hafi verið vísað til n. úr öllum flokkum á síðastl. hausti. Að vísu voru valdir nokkrir menn af flokkunum á síðastl. hausti til þess að ræða saman um hugsanlegt samkomulag um meðferð mála á Alþingi; var það sérstaklega í sambandi við takmörkun ræðutíma og hvort rétt væri, eins og sumir höfðu komið fram með, að breyta til með forsetavalið, þannig, að t. d. stærsti flokkurinn hefði 1. forseta, næststærsti flokkurinn 2. forseta o. s. frv., eins og sumstaðar tíðkast. En þessar umr. féllu fljótt niður. Ég var í þessari n., og við komum saman eitthvað tvisvar, þrisvar, minnir mig, og spjölluðum góðlátlega saman um þetta, en án árangurs, og mér skilst starf þessarar n. þar með niður fallið. Svo mér finnst ástæðulaust að vísa málinu til þessarar umræðunefndar, sem spjallaði saman nokkra tíma án þess að gera alvöru úr. Hinsvegar hefði ég kosið, að hv. þm. gætu orðið sammála um þær breyt. á þingsköpum, sem hér eru bornar fram; og ég hefi ekki heyrt hv. þm. Snæf. lýsa andstöðu sinni við þær, svo ég tel ekki útilokað, að hann og sjálfstæðismenn yfirleitt gætu fylgt a. m. k. sumum þeirra. Að vísu geta þeir vitanlega ekki fallizt á þessar breyt., sem álíta, að þær brjóti í bága við stjskr., en það eru einungis þau ákvæði frv., er snerta þátttöku í atkvgr. Ég sé því ekki ástæðu til að afgr. málið á þann hátt, sem hv. minni hl. allshn. leggur til.

Um ræðu hv. 3. þm. Reykv. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Hann er enn sömu skoðunar og við 1. umr., að hér sé um stjskr.brot að ræða, og byggir það á orðalagi stjskr. Hann vill ekkert leggja upp úr þeim skilningi, sem komið hefir í ljós í framkvæmdinni bæði í Danmörku og hér á Íslandi. Þó það sé engin ástæða til að apa neina ósiði eftir Dönum eða öðrum, þá hefir það nú verið svo, t. d. í lögfræðinni, að við höfum mikið af okkar fræðum sótt til Dana. Flestar fræðibækur, sem lesnar hafa verið í lagadeild háskólans, eru eftir danska fræðimenn. Og yfirleitt hefir dönsk lögfræði verið undirstaðan undir allri lögfræðikennslu hér á landi. Og ég er ekki í vafa um, að það ákvæði þingskapanna, sem hér er um að ræða, á rót sína að rekja til þess, að fræðimenn í Danmörku, sem margir hafa verið ágætir á sviði lagavísindanna, hafa verið þeirrar skoðunar, að það byggðist á fullkomlega leyfilegum skilningi á stjskr. Ég er ekki heldur í vafa um, að hinir mörgu ágætu lagamenn, sem sátu á Alþingi frá 1876—1915, hafi fullkomlega gert sér grein fyrir því, að ekki væri með ákvæðum þingskapanna verið að brjóta hin pósitívu ákvæði stjskr. Ég get nefnt menn, sem beinlínis stóðu að endurskoðun þingskapanna eftir stjskr.breyt. 1903, eins og t. d. Hannes Hafstein og Skúli Thoroddsen og fleiri ágætir lagamenn. Og þegar fellt var úr þingsköpunum 1915, að þeir, sem ekki greiddu atkv., teldust með meiri hl., þá hefi ég ekki fundið neina grg. fyrir því á þann veg, að með því væri verið að leiðrétta villu, sem slæðzt hefði inn í þingsköpin gegn anda eða ákvæðum stjskr. Ég held, að ástæðan hafi fremur verið sú, að þótt hafi frá almennu sjónarmiði nokkuð langt gengið að telja þá, sem ekki greiða atkv., beinlínis með meiri hl.

Alveg eins og hv. 3. þm. Reykv. sannfærðist ekki af minni ræðu, get ég ekki síður sagt um hans ræðu, að hún sannfærði mig ekki um það, að hér væri verið að fara fram á stjskr.brot. Mér fyrir mitt leyti virðist hiklaust, að sá skilningur á stjskr., sem kemur fram í frv., sé fullkomlega á rökum byggður, því raunverulega má segja, að sá, sem neitar að greiða atkv. án þess að hafa gildar ástæður, taki sinn þátt í atkvgr.

Um önnur ummæli hv. 3. þm. Reykv. þykir mér ekki ástæða til að ræða. við erum á öndverðum meiði hvað það snertir, að hann álítur þessa þingskapabreyt. ganga í öfuga átt, en ég álít, að hún gangi í þá átt að gera störf Alþingis léttari í vöfunum, og sé líkleg til að ná þeim tilgangi, sem þessari löggjöf er fyrst og fremst ætlað að ná, en það er að gera þingið sem starfhæfast, svo það geti afkastað sem mestu og beztu verki á tiltölulega stuttum tíma. Og það er vissulega full nauðsyn á því að setja ákvæði til tryggingar því, að málþóf sé ekki uppi haft á Alþingi, og að koma í veg fyrir, að þingmenn neiti að greiða atkvæði án lögmætra ástæðna, einungis til þess, að minni hl. þdm. geti hindrað framgang mála. En slíkt verður aðeins til þess að varpa rýrð á Alþingi og störf þess. Tel ég því til hagshóta þingræðinu í landinu, að þetta frv. nái fram að ganga.