30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (4355)

194. mál, áveita á Flóann

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég skal reyna að spara það að fjölyrða um þetta frv., enda skýrir það sig að ýmsu leyti sjálft með grg. þeirri, sem fylgir því. Þó skal nokkru bætt við, grg. til áréttingar.

Ég held, að það sé engum vafa bundið, að nauðsyn til aðgerða þeirra, sem hér er farið fram á, er mjög knýjandi. Flóaáveitan er dýrt fyrirtæki og tekur til hagsmuna fjölda bænda á hinu stóra heyskaparsvæði út- og mið-Flóans, og er áætlað, að áveitulandið taki yfir ca. 11000 hektara. Áveitan hefir kostað mikið fé, og það hafa verið byggðar svo miklar vonir á henni, að það skiptir ekki litlu máli, að hægt sé að ljúka þeim störfum, sem nauðsynlegt er að framkvæma til þess að full not séu að þessu mannvirki. Ég býst við, að menn muni segja, að þegar búið sé að mestu að gera flóðgarðana, þá sé höfuðaðgerðunum lokið. En eitt er ógert enn, og getur það orðið til mikils tjóns, ef nokkuð ber út af með tíðarfar. Það er vöntun nægilegrar fráræslu, sem þarna er um að ræða.

Í óþurrkasumrum nemur rigningarvatnið staðar á engjunum og sígur ekki burt. Um höfuðdagsleytið síðastl. sumar voru menn í miklum ótta um að missa engjarnar í vatn, og ef rigningarnar hefðu haldið áfram lengur eða fram í september, þá voru margir búnir að missa af engjunum það sumarið, og er það mikið hagsmunamál bænda, hvernig fer, þegar svo árar. En engin vissa er fyrir því, að alltaf dragi til hins betra með tíðarfarið, og verða því varúðarráðstafanirnar að vera fólgnar í auknum skurðgrefti til fráræslu á stórum svæðum Flóans. Ég veit, að þeir, sem kunnugir eru því, hvernig ástatt er í þessum efnum, treystast ekki til þess að neita því, að þörfin sé fyrir hendi. Ég vil ekki leiða getur að því, hvað mikið fé þurfi hér til umbótanna, enda hafa fæst orð minnsta ábyrgð. Í frv. segir, að ríkisstj. skuli fela Búnaðarfél. Ísl. að annast undirbúning og rannsókn þessa máls, enda sýnist það sjálfsagt. Að hinu kynni að vera spurt, hvort bændur gætu ekki síðan unnið umbótaverkið sjálfir, á eiginn kostnað. Ég held, að ef menn vilja líta á þetta með sanngirni, þá verði svarið neitandi, enda kostar þetta meira verk en svo, að þeim sé ætlandi að annast það sjálfir. Þeir hafa nú svo margt annað að annast, og þar á meðal óframkvæmd störf í sambandi við Flóaáveituna, sem eru fólgin í því m. a., að ekki er nærri búið að hlaða flóðgarðana. Bændurnir í Flóanum eru líka margir einyrkjar, og þá ekki mörgum til að dreifa til hinna stærri framkvæmda.

Eins og drepið er á í grg., sem fylgir frv., þá er í Flóaáveitulögunum gert ráð fyrir, að til stofnkostnaðar séu taldar meiri háttar framkvæmdir og umbætur eftir að aðalverkinu er lokið. Og þessi skurðgröftur og fráræsla verður að teljast til ófyrirsjáanlegra framkvæmda, sem aðkallandi er, að gerðar séu. Eins og kunnugt er, þá er greiðsla stofnkostnaðar nú ákveðin með sérstökum lögum, og hefir Alþ. gert það með sanngirni gagnvart bændunum og fært hann til hófs. En þó að áveitukostnaðurinn hafi verið færður niður, svo að hann er aðeins sanngjörn árleg greiðsla, eða 1 kr. á hektara, þá er því aðeins hægt að borga hann, að menn njóti engjanna og að þær séu arðbærar. Með Flóaáveitulögunum og allri landbúnaðarlöggjöf undanfarinna ára hefir löggjafinn sýnt, að hann vill styðja að framþróun sveitalífsins og hjálpa bændunum, svo að þeir geti búið sómasamlega á jörðum sínum. Og eitt atriðið í þá átt, að þeir komist ekki meira í skuldakútinn en orðið er og geti notið lífsviðurværis af býlum sínum, eru umbætur þær, sem hér er farið fram á.

Ég vil ekki láta máli mínu lokið án þess að taka það fram, að það er grundvallarskoðun mín, að þegar um stærri framlög hins opinbera til bænda er að ræða, þá verður að gæta þess vel að láta varðveizlu þeirra býla, sem til eru í landinu, ganga á undan nýbýlunum. Þó að það sé óneitanlega skemmtilegt, að sveitabýlum sé fjölgað með því að veita fé til nýbýlastofnunar, þá mega menn ekki sjá það í meiri hillingum en svo, að fornbýlin varðveitist og geti fylgzt með framþróuninni.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. Ég veit, að eftir eðli málsins er það sanngjarnt, að því sé vísað til landbn. En ég vil óska þess, að með velviljuðu samþykki þingsins þurfi það ekki að fara til þeirrar n. Ýmsir hv. þm. hafa brennt sig á því, að þau mál, sem vísað er til hv. landbn., fengju þar góða næturgistingu og kæmu þaðan ekki aftur. En hún er vissulega ekki skipuð til þess að leggjast á málin eins og hæna á egg, og láta þau verða að fúleggjum. Þetta mál er ekki fjölbreytilegt, og ég vona því, að það fái að ganga til næstu umr. án þess að fara í nefnd.