25.05.1935
Efri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (4408)

15. mál, bændaskóli

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Löggjöfin hefir séð allvel fyrir almennri menntun ungra manna í landinu, en hinsvegar skortir verulega á um hina hagnýtu menntun og möguleika þeirra, er vilja stunda sérgreinir og afla sér menntunar til þeirra hluta hér á landi.

Það hefir verið svo um þá, sem hafa viljað afla sér meiri menntunar í búfræði en fáanleg er, enn sem komið er, í bændaskólunum, að þeir hafa orðið að sigla til annara landa og stunda þar dýrt nám og eyða miklu af námstímanum til þess að nema um ýms efni, mjög fjarskyld íslenzkum landbúnaði, og koma að litlum notum við okkar búnaðarháttu. Hinsvegar er það svo, að búnaðarþekkingu hefir fleygt mjög fram á síðustu árum vegna rannsókna, sem Búnaðarfélag Íslands hefir ýmist haft með höndum eða haft yfirumsjón með. Á hinn bóginn fer stöðugt vaxandi þörfin fyrir búfræðinga, menn með sem staðbeztri þekkingu, til þess að veita leiðbeiningu búnaðarsamböndum og þeim bændum, er hafa með höndum stórfelldar framkvæmdir. — Til þess að bæta úr þessari sífellt vaxandi þörf er frv. þetta flutt. Meðal þeirra, sem forgöngu hafa haft í landbúnaðarmálum, hefir þetta mál verið lengi á döfinni, t. d. samþ. búnaðarþingið 1933 allrækilega ályktun um þetta efni, rökstudda, og sendi Alþingi. Var þar stefnt í sömu átt og gert er í þessu frv.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Er það nú flutt óbreytt hér, en í vændum þess, að hv. d. vilji nú taka það til rækilegrar athugunar og leysa úr þeirri þörf, sem er allmjög aðknýjandi fyrir landbúnaðinn, einmitt í þessu atriði.

Síðan þetta frv. var flutt á síðasta þingi, hefir það fengið góðar undirtektir meðal búfræðinga og m. a. mælir búnaðarþing það, er nú situr, eindregið með því, að frv. verði samþ.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vænti, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.