07.03.1935
Efri deild: 19. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í C-deild Alþingistíðinda. (4436)

41. mál, tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Það hefir verið eitt aðalviðfangsefni þings og stj. undanfarið og umhugsunarefni í landinu, hvað gera skuli til þess að landbúnaðurinn geti borið sig. Á síðasta þingi beindist viðleitnin fyrst og fremst í þá átt, að reyna að hækka nokkuð hið lága afurðaverð. En önnur hlið þessa máls er ekki síður þess verð, að henni sé gaumur gefinn. Og hún er sú, hversu fara skuli að til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarins og tryggja afurðir bænda, gæði þeirra og magn. Og þótt hækkun afurðaverðsins hafi verið sjálfsögð og nauðsynleg, má þó segja, að hin hlið málsins hafi það fram yfir, að endurbætur þar eru ekki frá neinum teknar. En um hækkun afurðaverðsins mætti ef til vill segja, að hún kæmi misjafnlega niður á öðrum stéttum. Einn liður í þessari viðleitni er sá, að tryggja sem allra bezt þekkingu á landbúnaðinum. En sú þekking verður fyrst og fremst að fást með innlendri reynslu og rannsóknum. Veðráttufar og margt annað er svo gerólíkt hér á landi og annarsstaðar, að ekki verður stuðzt við erlenda reynslu. Við getum ekki á þessu sviði beitt hinni erlendu reynslu og tækni á sama hátt og í sjávarútveginum. Í sjávarútveginum olli hin erlenda tækni þeirri byltingu, sem varð í þeirri atvinnugrein fyrir stríð. En í landbúnaðinum verðum við að afla okkur þekkingar sjálfir.

Forgöngumönnum landbúnaðarmálanna hér á landi hefir lengi verið þetta fullljóst. Eftir að Ræktunarfélag Norðurlands hafði verið stofnað árið 1900 og Búnaðarfél. Íslands 1903, tóku þessi félög þegar að afla sér innlendrar reynslu um landbúnaðarmál. Árangurinn hefir orðið mikill. Þannig er t. d. fengin full reynsla fyrir notagildi erlends áburðar, fyrir því, að hafrar geta gefið ágæta uppskeru sem grænfóður, að fóðurrófur geta gefið góðan árangur, að hægt er að rækta innlent fræ, og nú síðast, að kornrækt getur þrifizt hér á landi. En þótt þetta megi telja ágætan árangur eftir atvikum, og þótt Búnaðarfél. hafi varið 1/6 af framlagi ríkissjóðs í þessu skyni, má þó betur, ef duga skal. Má segja, að þetta sé ævarandi verk, því að þær niðurstöður, sem fást, varpa aðeins stundarskini á málið. — Svo hefir reynslan orðið með öðrum þjóðum.

Hér eru það einkum fjögur atriði, sem eru mikilsvarðandi og aðkallandi rannsóknarefni. Fyrst er þá að telja tilraunir við ræktun og jarðabætur. Milljónum króna hefir verið varið og verður varið til jarðræktar, og því skiptir miklu máli, að hinar hagfelldustu aðferðir séu jafnan notaðar.

Annað er tilraunir um fóðuröflun, varðveizlu heyja og hagnýtingu. Þetta mál er að miklu leyti óleyst, þótt töluverð þekking sé fyrir hendi.

Þriðja er tilraunir um búpeningsrækt. Því verður ekki neitað, að búpeningsstofn vor gefur ekki þann arð, sem vænta mætti, ef fóður og kynbætur væru í lagi. Þessu verður ekki kippt í lag nema tilraunastöðvar hafi hér forgöngu með vísindalegum rannsóknum.

Fjórða er aukin fjölbreytni í búskap. Á nauðsyn slíkrar fjölbreytni getur enginn vafi leikið, en til þess að fyrirbyggia mistök einstakra manna er augljóst, að gera verður tilraunir þeim til stuðnings.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að koma skipulagi á þessa tilraunastarfsemi. Hún er á engan hátt tryggð á meðan Búnaðarfél. á jafnan undir högg að sækja um fjárframlög, ef hún styðst ekki við löggjöf.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, en er nú nokkuð breytt. Þannig hefir 5. gr. verið bætt inn í það, eftir bendingu búnaðarþingsins, sem lýsti yfir eindregnu fylgi sínu við frv. Óska ég, að frv., að umr. lokinni, verði vísað til landbn.