09.03.1935
Efri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í C-deild Alþingistíðinda. (4443)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi aðeins fljótlega farið yfir þetta frv., sem hér liggur fyrir, og ætla því nú aðeins að gera fáeinar aths. við það. Ég býst við, að við seinni umr. málsins verði ég búinn að athuga það nánar og geti þá gengið rækilega í gegnum frv.

Á síðasta Alþingi, þegar ég bar fram frv. um eftirlit með sjóðum, sem hlotið höfðu konunglega staðfestingu, gat ég þess, að þegar reynsla fengist fyrir því, hvernig færi um það eftirlit, sem þar var gert ráð fyrir í því frv., sem nú er orðið að lögum, væri rétt, ef sú reynsla gæfi ástæðu til þess, að færa út kvíarnar og láta fleiri sjóði komast undir það eftirlit, sem stofnað var með þeim lögum. Nú sé ég, að fjmrn. hefir með miklu írafári komið þessu frv. af stað. Lögin um þetta efni, sem samþ. voru á síðasta þingi, eru ekki ennþá gengin í gildi, en samt er farið af stað með þetta frv., sem ég býst við, að sé í anda sumra flokksmanna hv. flm., er alls ekki vildu, að hitt frv. næði fram að ganga, — ég undanskil þó hv. flm. þessa frv., sem ekki lagði nema gott eitt til hins frv. —, en fyrir einhverja handvömm hjá stjórnarflokkunum í hv. Nd. slysaðist þannig, þó að það væri flutt af andstæðingum þeirra, að það náði samþykki deildarinnar og staðfestingu konungs. En Adam var ekki lengi í Paradís, og þessi lög eiga ekki lengi að standa, því að eins og ég tók fram áðan, á að umskapa þau áður en þau ganga í gildi. Það er ekki nóg með það, að það síu bornar fram breyt. á þeim, heldur er grg. þessa nýja frv. fjandsamleg og að mörgu leyti bein árás á fyrra frv. Þar eru hártoganir og rangfærslur eins og t. d. það, að eftirlitsmennirnir eigi ekki að hafa afskipti af, að fé sjóðanna sé tryggilega ávaxtað, eða hafa eftirlit með reikningum og bókhaldi þeirra. Það er einmitt beint tekið fram í lögunum, að þeir eigi að athuga og safna skýrslum um hag sjóðanna og allan rekstur þeirra og hafa eftirlit með fyrirkomulagi þeirra. En þegar maður svo litur á, hvað hv. flm, meinar með þessu frv., þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upphafið á umsögninni um 9. gr. frv.:

„Aðalverk sjóðaeftirlits ríkisins á að vera að líta eftir rekstri og fjárgæzlu sjóða og sjálfseignarstofnana og gæta þess, að skipulagsskrár þeirra séu ekki brotnar“.

Þetta er í raun og veru nákvæmlega það sama og gert er ráð fyrir í l. frá síðasta þingi. Ég segi fyrir mig, að þar til annað reynist treysti ég eftirlitsmönnunum, sem kosnir voru á síðasta þingi, til þess að líta eftir þessum sjóðum. Ég sé enga ástæðu til, þó að það sé mótflokksmaður minn, hv. 4. þm. Reykv., að ætla það, að hann standi ekki sæmilega í þessari trúnaðarstöðu, sem honum er fengin með lögum þeim, er nú gilda um eftirlit sjóða. Einmitt þessir menn eiga að kynna sér allt fyrirkomulag sjóðanna, og þeir munu verða manna færastir um að breyta þessum lögum á sínum tíma, ef þess þykir þörf, þegar gögn öll eru fengin.

Þá vil ég minnast fáeinum orðum á frv. sjálft. Það segir í 1. gr. frv., að þetta sjóðaeftirlit eigi að ná til allra sjóða, að undanteknum þeim, er þar eru taldir upp. Eftir orðanna hljóðan eiga allir sjóðir að heyra undir eftirlit þessa nýja embættismanns. T. d. fjallskilasjóðir, bústofnslánasjóðir, sjóðir hvers búnaðarfélags í hreppum landsins, kvenfélagasjóðir, ef þeir eru nokkrir til, sjóðir ungmennafélaga, sjóðir kirkna eða safnaða, og ef lestrarfélög í sveitum landsins eiga 10 eða 12 kr., á það að heyra undir þetta sjóðaeftirlit, enda er beint sagt í grg. frv., að bókasöfn eigi að heyra undir eftirlit þessa nýja embættismanns, og ég sé ekki neinn greinarmun á lestrarfélögum og bókasöfnum, a. m. k. ekki þann, að þau heyri ekki einnig undir þetta eftirlit. Ég er ekki fjarri því, að það sé rétt, að þessi nýi launamaður ásamt gæzlustjórum eigi að rannsaka og líta eftir sjóðum stjórnmálaflokka, hvaðan þeir fái sitt gull — ég býst við, að þeir eigi að hafa eftirlit jafnvel verkfallssjóða, þar sem þeir eru til. Ég sé ekki annað eftir þessu frv. en að allt bendi í þá átt. Finnst mér þetta vera helzt til víðtækt.

Þá er, eftir því sem af grg. frv. má skilja, gert ráð fyrir, að nú eigi að hætta að lána úr þessum sjóðum gegn tryggingu í fasteign, og í þess stað eigi að lána sýslu- og bæjarfél. og kaupa ríkisskuldabréf og bankavaxtabréf. Ég sé ekki, að það sé breyt. til batnaðar um öryggi fjár sjóðanna, þó hætt sé að lána út gegn mjög góðri tryggingu í öruggri fasteign, en horfið að því að lána sýslu- og bæjarfélögum, því að eftir þeim umr., sem hér fóru fram í hv. Nd. í gær, þá leit út fyrir, að fjárhagur allra sýslu- og bæjarfélaga væri ekki svo öflugur, að eftir því væri sækjandi að lána þeim fé, þar sem þar var upplýst m. a., að lögboðin gjöld í ríkissjóð hefðu ekki verið greidd frá sumum þessum sýslu- eða bæjarfélögum um fjögra ára skeið. Ég tel þess vegna skakkt að hverfa frá þeirri leið að lána gegn fasteignaveði, og mér finnst það of langt gengið að þröngva þessum sjóðum til þess að kaupa ríkisskuldabréf eða lána bæjarsjóðum á þennan hátt. Við vitum, að nú á tímum er allt gert til þess að afla fjár í ríkissjóð, og að ná sem mestu af einstaklingunum þangað, og nú virðist eiga að fara svo að, að koma sjóðunum einnig í þá miklu hít, þegar skattgeta einstaklinganna er að þrjóta.

Ég get ekki fallizt á, að kostnaðurinn við þetta eftirlit verði svo lítill eins og hv. flm. hélt fram. Hér bætist algerlega við nýtt embætti með 6 þús. kr. launum, og ekki verða lægri laun gæzlustjóranna, býst ég við, heldur en eftirlitsmannanna, sem nú eru. (JJ: Það má lækka þann kostnað). Það mun hæstv. fjmrh. eiga að segja til um, hvað mikið það verður. Ég geri ráð fyrir, að þetta hafi stóraukin útgjöld í för með sér fyrir sjóðina, þar sem gert er ráð fyrir því, að þessi kostnaður lendi allur á þeim, en ekki ríkissjóði, en það er náttúrlega vel til fallið að stofna embætti, sem algerlega hvíla á þessum, sjóðum, þegar ekki er hægt, eða a. m. k. erfitt, að fá fé úr ríkissjóði handa þeim mönnum, sem suma langar til að koma í feit embætti.

Ég tel sjálfsagt að athuga þetta mál vel, og helzt ætti að líða hjá þetta þing áður en hreyft er við því. Vona ég, að það fari hægt og bítandi, og að helzt verði ekki hreyft við því að svo stöddu.