12.12.1935
Neðri deild: 97. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (4505)

60. mál, klakstöðvar

Eiríkur Einarsson:

Ég hygg, að þetta frv., sem hér er til umr., veki athygli fjölda manna í laxveiðihéruðum landsins, og er það ekki að ástæðulausu, slík hlunnindi sem góð laxveiði er, og áhugi hefir á síðari áður farið mjög vaxandi, bæði fyrir laxveiði og laxræktun, og bergmálar því betur hjá þjóðinni allt það, sem gert er af hinu háa Alþ. og ríkisstj. til að hreyfa við slíku máli.

Eins og öllum er kunnugt, hefir allmikið verið gert að því nú á síðari árum víða í laxveiðihéruðum að stofna til klakstöðva. Um þetta hefir mikið verið rætt og ritað og kunnáttumenn og leiðbeinandi áhugamenn hafa sýnt lofsverða alúð við starfið.

Ég verð að segja það, að frv. þetta er að ýmsu leyti stórgallað og varhugavert, og vil ég benda þar á nokkur atriði. Hér kemur fram frv. til l. um það, hvernig klakstöðvar skuli starfræktar bundið og ákveðið af ríkisvaldinu, en allt tekið úr höndum einstaklinga. Þetta er sá megingalli, að óverjandi er að keyra slíkt frv. gegnum þing án þess að þeir hlutaðeigendur úti um landsbyggðina, sem stofnað hafa laxaklakstöðvar, hafi kynnt sér það víðtækt og almennt og skoðanir þeirra og leiðbeiningar hafi komið fram áður en þessu máli er ráðið til lykta á Alþ. En þetta er eitt af mörgum málum, sem eru í sama flokki og eins er ástatt um, mál, sem eru áhugamál fjöldans og hugsmunamál, sem almenningur hefir rétt til að láta sig miklu skipta og láta vilja sinn gilda og áhrif sín ná inn í sali hins háa Alþ. í krafti fulltrúa sinna. En ef þessi aðferð á að tíðkast, sem nú virðist efst á baugi, að bera fram frv. um mikilvæg almenn hagsmunamál og keyra þau í gegn og gera að lögum, án þess að kjósendur í landinu fái snefil af vitneskju um, hvað á seyði er, fyrr en lögin eru birt, þá er girt fyrir það, að lýðræðið geti notið sín.

Þegar athugað er frv. eins og það, sem hér er til umr. og leggur áherzlu á að halda uppi laxaklakstöðvum jafnvel með því að taka vissar eignir eignarnámi til þeirra, ef samkomulag fæst ekki á annan hátt, þá er strax sýnilegt, að allmikill kostnaður hlýtur að fylgja þessu, og er þá hægt að tala um, hvort ekki væri hyggilegra með tilstyrk ríkisvaldsins að örva þá sannfróðu og áhugasömu menn, sem þegar hafa reist klakstöðvar, til þess að bæta þær sem mest og auka, í stað þess að svipta þá möguleikunum til að halda áfram, með því að ríkið fari að keppa við þá með öðrum stöðvum, sem reknar eru með kraft ríkisvaldsins á bak við sig.

Það er nú þegar fengin allmikil reynsla á klakstöðvum hér á landi, og þessi reynsla er fengin fyrir elju og atorku einstakra manna, sem hafa brotizt í að reisa klakstöðvar, og mér virðist, að allar líkur bendi í þá átt, að heppilegra væri að styrkja þá til áframhaldandi starfs heldur en höggva nú á þennan þráð og taka svo starfið aftur upp af því opinbera. Það er mjög vafasamt, hvort þetta frv. er ekki bein stefnuvilla um meðferð klakmálsins hér á landi, og eitt er það, sem ég álít algerlega óhæft í þeirri aðferð, sem hér er viðhöfð, og það er þessi lögfesting um klakstöðvastaði, að binda þær við sérstaka landshluta með ákvörðun Alþ., og það að litt rannsökuðu máli; og þó margt kunni að vera gott um Mývatnssveit og Kjós, þá virðist ekki úr vegi, að athuguð hefðu verið í þessu sambandi önnur laxveiðihéruð, eins og t. d. Borgarfjörður og Suðurlandsundirlendi. Þeir, sem við þessi mál hafa fengizt ár eftir ár og hlotið mikla reynslu, hafa ekki einu sinni verið spurðir ráða. Álít ég, að það gangi gerræði næst að haga svo meðferð máls eins og hér er gert, ef ætlunin er að berja frv. í gegn á Alþ. án þess að leita álits og upplýsinga frá þeim mönnum, sem málið snertir og mesta þekkingu hafa á því. Þótt Laxá í Kjós sé ágæt veiðiá, þá eru líka til fleiri góðar veiðiár t. d. bæði í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendi og hafa það fram yfir, sem ég hefði haldið, að væri kostur, en ekki galli, að þær renna um stærri samfelld veiðibyggðarlög.

Ég ætla ekki að teygja umr., en taldi skyldu mína, úr því að þetta frv. kom fram og á að sæta hér meðferð á þingi, að benda á, að frv. kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, án þess að landsmenn almennt hafi hugmynd um það eða viti, hvert stefnir. En almenningur fær áreiðanlega að frétta héðan um ýms nýmæli, sem honum kemur spánskt fyrir, og mundi ekki svo fara, þegar um þetta frv. fréttist, að í sumum sveitum yrði kjósendum að orði: „Nú, það er svo, að klakið á að bindast við Laxá í Kjós og Mývatnssveit“, — og svo þegar þeir litu yfir glitrandi veiðiárnar heima í sínu frjósama og breiða héraði, þá fyndist þeim furðu sæta, að þar skyldi sneitt framhjá.

Ef ekki á að kynna sér álit og leiðbeiningar þeirra áhugamanna, sem eru í veiðihéruðum, þá álít ég, að slíkt frv. sem þetta eigi ekki að ganga í gegnum þingið. Ég sagði það áðan, og vil endurtaka það nú, að mér finnst það mikið álitamál, þegar litið er á kostnaðarhliðina og það metið, á hvern hátt sá kostnaður verði bezt hagnýttur, hvort það sé ekki stefnuvilla að stofna til ríkisrekstrar með allmiklum stofnkostnaði, og hvort ekki væri betra og hagkvæmara að þróa þau einstaklingsfyrirtæki, sem búið er að stofna til, heldur en að leggja hömlur á þær framkvæmdir.

Að lokum vil ég taka það fram, að þegar ríkisvaldið grípur á þann hátt inn í einkahagsmunamál einstaklinga, þá er allrar varúðarþörf. Það er mjög varhugavert af Alþ. að flytja sem flest frá einstaklingsfyrirtækjum og sópa því undir ríkisvaldið, og það gæti svo farið, að úr því yrði allsherjarheimild fyrir ríkisstj. til að þefa í hvern búrkima, svo að úr því yrði nýtt Bessastaðavald. Til þess þyrfti ekki annað en nýjan Lénharð fógeta, að hið sama gæti á dunið og þá var, og svo kynni að fara, að það yrði ekki betur þokkað hjá landslýð framtíðarinnar en áður var, og skeð gæti, að sú harðstjórn og kúgun yrði hinum nýja kúgara að aldurtila, eins og hún varð Lénharði. Sagan getur endurtekið sig með breyttum nöfnum og breyttri tilætlun, leiðandi til líkrar niðurstöðu.