20.02.1935
Efri deild: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í frv. að lögum um tekju- og eignarskatt, sem stj. lagði fyrir síðasta þing, var ekki á það minnzt, hvort núv. skattanefndir ættu að halda áfram að starfa eftir að hin nýju lög gengju í gildi, en gert ráð fyrir, að svo mætti verða. En undir meðferð málsins var af einum hv. þdm. flutt brtt. um, að núv. yfirskattanefndir skyldu halda áfram þar til kjörtími þeirra væri útrunninn. En það ákvæði hefði líka átt að ná til undirskattanefnda. Það féll niður við lokaafgreiðslu frv. En til þess að taka af allan vafa um þetta atriði gaf stj. út bráðabirgðalög 6. febr. síðastl., shlj. því frv., sem hér liggur fyrir. Og ástæðan til þess var sú, að ef sú ákvörðun, sem í frv. felst, hefði verið látin bíða Alþingis, þá gat það leitt til þess að tefja störf skattanefnda um skör fram.

Ég held, að það þurfi ekki lengri framsöguræðu fyrir þessu frv., bráðabirgðal. eru prentuð sem fskj. með þessu frv. — Ég óska, að þessu frv. verði vísað til fjhn. að lokinni umr.