17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (4576)

125. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Pálmason):

Við fyrri hl. þessarar umr. urðu þó nokkrar deilur um þetta mál í heild sinni og þær brtt., sem fram hafa komið við það, og höfðu þeir hv. 2. landsk. og hv. 11. landsk. farið nokkrum orðum um það. Hv. 2. landsk. virtist algerlega mótfallinn þessu frv., en hinn, hv. 11. landsk., virtist mjög hörundssár út af því, að ég f. h. landbn. talaði gegn brtt. hans og mælti með því, að þær væru felldar. — Ég sé nú ekki ástæðu til, úr því svo langt er um liðið, að fara út í ræður þessara hv. þm., en ég skal þó með örfáum orðum víkja að því, sem mér virtist aðallega vaka fyrir hv. 11. landsk. í sambandi við hans till. En úr því hv. 2. landsk. er ekki viðstaddur, sé ég ekki ástæðu til að fara neitt út í hans ræðu, þó að þar væru ýms atriði mjög athugunarverð. — Þessar till. hv. 11. landsk. gera í fyrsta lagi ráð fyrir því, að skaðabætur fyrir missi laxveiði séu ekki aðeins greiddar til þeirra, sem misst hafa hana að fullu, heldur og til þeirra, sem hún hefir rýrnað hjá vegna setningar þessara l., sem hér er farið fram á að gera breyt. á. Ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér grein fyrir því, út á hvað hálan ís væri farið, ef slík till. sem þessi væri samþ., því það má án efa lengi um það deila, þegar veiði hefir rýrnað á einhverri jörð, hvort það sé þessari lagasetningu að kenna eða ekki. Um það mundi verða endalaus þræta sitt á hvað, og við í landbn. höfum ekki viljað mæla með því, að út í það væri farið, heldur höfum við viljað láta það nægja að hafa skaðabótakröfu einungis fyrir þá, sem hafa tapað allri veiði sinni vegna þess að þeim er bönnuð sú veiðiaðferð, sem þeir áður máttu einni við koma.

Snertandi hitt atriðið hjá hv. 11. landsk., að skaðabætur greiðist að 3/4 úr ríkissjóði og að 1/4 úr sýslusjóði, í staðinn fyrir að þær greiðist að 1/2 úr ríkissjóði og 1/2 úr sýslusjóði, er það að segja, að þessi lagasetning var vitanlega sett með það fyrir augum að tryggja veiðina, og þá kemur það eðlilega viðkomandi héraði og einstaklingum þess til góða, ef veiðin batnar fyrir það, að þessi l. hafa verið sett. Þess vegna lít ég svo á, þrátt fyrir það, að ég hafi sterka tilhneigingu til þess að gæta hagsmuna sýslusjóðanna, að það mætti vel við það una, að ríkissjóður greiddi í þessu tilfelli helming þeirra skaðabóta, sem hér er um að ræða. Út í þetta skal ég ekki fara frekar, nema sérstakt tilefni gefist til. — En snertandi þær brtt., sem hér eru fram lagðar upp á nýtt við þetta frv., þá skal ég lítið út í þær fara, enda hefir ekkert verið fyrir þeim mælt, en í fljótu bragði virðist mér þær vera þannig vaxnar, að það muni ekki verða mikill ágreiningur út af þeim.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, einkum vegna þess, að sá maður, sem hefði verið frekast ástæða til að minnast á í þessu sambandi. er ekki viðstaddur, og því ekki eins ríkt tilefni til þess að fara út í hans ræðu.