21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í C-deild Alþingistíðinda. (4624)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki getað fundið, að hæstv. forsrh. hafi gert grein fyrir nauðsyn þessa frv. Að það sé sniðið eftir erlendri löggjöf, er alveg fjarri sanni, því að allir, sem til þekkja í útlöndum, vita, að margir hafa þar skotvopn í vörzlum sínum án þess að það sé nauðsynlegt vegna atvinnu þeirra.

Ég er ekki á móti því, að bannaður sé innflutningur á hernaðartækjum, enda væri slíkt bann rétt afleiðing af hlutleysi voru. En ég held, að bann á skotvopnum yfirleitt sé hvorki gagnlegt, nauðsynlegt né ráðlegt. Lögfest bann myndi hér sem annarsstaðar hafa öfug áhrif við það, sem til var ætlazt. Allir, sem landbúnað stunda, eru í rauninni skyldaðir til að eiga skotvopn til þess að aflífa með skepnur sínar. Í bæjum mun það mjög fátítt, að menn eigi skotvopn, nema þá til að skjóta fugla, seli, refi o. s. frv., sem oft getur verið arðvænlegur atvinnuvegur.

Ég álít, að þetta bann yrði aðeins til þess að hvetja menn til að hafa skotvopn í vörzlum sínum. Ef það felst í banninu, að koma eigi í veg fyrir mannvíg með því, er það óbein hvöt til manna til að vera viðbúnir slíkum atburðum, sem allir góðir menn vona þó, að aldrei komi fyrir. Auk þess fylgir framkvæmd slíkra laga kostnaður, ef til vill ekki svo lítill. Samkv. till. nefndarinnar á að skrá öll skotvopn og eigendur þeirra. Þarna gæfist því kærkomið tilefni til að stofna nýjan bitling handa skrásetjara skotvopna. Slík lög yrðu ekki annað en „húmbúg“, sem enginn fylgdi, allra sízt í sveitum landsins. Hver gæti t. d. komið í veg fyrir, að 5—6 skotvopn væru keypt á sama sveitabæ með einhverskonar leppmennsku?