12.03.1935
Efri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (4668)

72. mál, heimilisfang

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil lýsa því yfir, að ég uni vel við þá afgreiðslu, sem hv. allshn. hefir haft á máli því, sem má teljast formáli að þessu, og vona ég, að svo verði haldið áfram þangað til sæmileg afgreiðsla fæst á því, sem vakti fyrir mér, þegar ég bar fram frv. til l. um breyt. á útsvarslögunum. En það, sem ég nú vil leggja áherzlu á, er, að nú verði hraðað svo afgreiðslu málsins hjá hæstv. stj., að hægt verði að leggja fram frv. um þetta efni, þegar þingið kemur saman eftir þingfrestunina, svo að hægt verði að afgr. það frá Alþ. á þessu ári, því þetta mál þolir enga bið.

Ég skal ekki um það deila, hvaða leið eigi að fora, hvort þetta eigi að gera með breyt. á útsvarslögunum eða með sérstakri lagasetningu um heimilisfang. En ég treysti því, að hæstv. stj. geri sitt til þess að hraða þessu máli, þó að hér sé ekki hægt að beina þessu til hæstv. stj., þar sem hvorki sést höfuð eða sporður á henni.