25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (4684)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég get ekki neitað því, að mér kemur þessi till. á þskj. 149 harla undarlega fyrir sjónir, þar sem farið er fram á, að keypt verði fyrir fé úr ríkissjóði eign, sem mér skilst, að sé raunverulega einskis virði, fjárhagslega séð. Ég hefi komið þangað austur og séð þennan hver og landið umhverfis hann, og mér er hulið, hvernig hægt er að gera sér nokkurt verðmæti úr þeirri eign. Sé hinsvegar höfuðtilgangurinn sá, að verja þennan stað, þá kostar það áreiðanlega mikil útgjöld. Það fer því fjarri, að þarna sé um verðmæta eign að ræða, sem gefi eða geti gefið nokkurn arð. Þvert á móti hlýtur hún að baka eiganda sínum mikil útgjöld. Ég get því ekki betur séð en að verið sé að henda peningum í sjóinn með því að kaupa þessa eign. Hinsvegar get ég ekki látið mér skiljast annað en að það hljóti að vera hægt að ná samkomulagi við eiganda hversins — sé það megintilgangurinn að varðveita þetta fyrirbrigði frá skemmdum — um að gera ráðstafanir til þess að koma því í kring, án þess að honum væri greitt mikið fé fyrir að gera slíka aðgerð. Mér finnst, að till. gæti verið á þá leið, að stj. leiti samkomulags við eigendur hversins um að gera ráðstafanir honum til verndunar á kostnað ríkissjóðs. Hitt er óforsvaranlegt, að fara að kasta fé ríkissjóðs í það, sem er gersamlega einskis virði. Auk þess er ekki rétt, og á sér tæplega nokkurt fordæmi, að gefa stj. algerlega óbundnar hendur um það, fyrir hvaða verð hún kaupir hverinn og landið umhverfis. Í þáltill. er ekki einu sinni ætlazt til þess, að mat sé lítið far, fram. Alveg eins er óforsvaranlegt, að stj. séu gefnar alveg óbundnar hendur um kaup á Skálholti. Að öðru leyti hefi ég þó ekki á móti þeirri brtt. að svo stöddu, og vænti þess, að málinu verði vísað til nefndar.