01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (4693)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég ætla, að hv. 6. landsk. hafi nú einmitt hitt naglann á höfuðið, þ. e. a. s. orsökina til þess, að nú er verið að bjóða ríkinu þessa Grýtu til kaups, eða sem öðrum þræði er kölluð Grýla, og má því segja í því sambandi, að

„afturgengin Grýla gægist yfir mar,

og ekki er hún börnunum betri en hún var“.

Það mun vera komið babb í bátinn með þetta fyrirtæki, sem lagt hefir verið í töluverðan kostnað við að endurbæta. Skálin er brotin og strompurinn settur til þess að gera gosið tignarlegra. En svo hafa náttúruvöldin komið til og sagt stopp og ekki viljað sýna sín fögru tilþrif í þessum umbúðum, gerðum af mannahöndum. Bezt gæti ég nú trúað því, að allur væri varinn góður í þessum efnum, og sá beztur að samþ. ekki að fela ríkisstj. að kaupa þennan sannkallaða gallagrip.

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl., þm. S.-Þ., sagði um Skálholt, þá er það vitanlega rétt, að þessi staður hefir á sér forna, sögulega frægð, og bæði af þeirri ástæðu og svo hinni, að þetta er víst bezta bújörð, væri ekki nema gott eitt um það að segja, að þarna væri umbúnaður allur góður og nokkuð við hæfi frægðar staðarins, en það er bara á það að líta, hvort sennilegra er, að jörðin verði reist úr niðurlægingu í eign ríkis eða einstaklinga. Ef maður sér húsabyggingar, sem prýða íslenzkar jarðeignir, þá kemur venjulega í ljós, að þær eru eign einstakra manna, sem skara fram úr að dugnaði. Held ég því, að ef litið er á þetta mál út frá þeim tilfinningum, sem leiða menn til að leggja rækt við forna frægð staða hér á landi, þá verði þeir ekki síður í góðum höndum, þótt einstaklingar eigi þá en þótt þeir væru í eign ríkisins.