02.04.1935
Sameinað þing: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (4734)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Forseti (JBald) [óyfirl.]:

Það hefir verið vakið máls á því, að fyrri hluti brtt. á þskj. 338 mundi koma í bága við gildandi lög. Þykir mér því rétt að taka þessa till. upp til úrskurðar.

Á Alþingi 1921 var borin fram brtt.þskj. 261, II. 4 í skjalapartinum það ár) við frv. til fjárlaga fyrir árið 1925, sem fól í sér heimild handa alþingisforsetum til „að ákveða til sparnaðar, að niður skuli falla prentun á umræðuparti Alþingistíðinda.“ En með úrskurði forseta var tillögu þessari vísað frá með þeim rökstuðningi, að eigi væri unnt með fjárlagaákvæðum að breyta lögum. Eru í forsetaúrskurði þessum færð mjög gild rök fyrir frávísuninni, og er hægt um þetta að lesa í umræðuparti Alþt. 1924, bls. 1116—1119.

Á þskj. 333 er borin fram brtt. við till. til þál. um framlag úr ríkissjóði til verðuppbótar á útflutt kjöt 1934, og hljóðar fyrri hluti till. svo: „Jafnframt er ríkisstjórninni heimilað, til þess að vega á móti þessum gjöldum, að fella niður prentun Alþingistíðindanna 1934 og 1935 —. Nú er svo ákveðið í 52. gr. þingskapa: „Umræður þingdeildanna og sameinaðs Alþingis, ásamt þingskjölum og atkvæðagreiðslum um þau, skulu prentaðar í Alþingistíðindum“ — og ennfremur segir í sömu grein þingskapa: „Í Alþingistíðindum má ekkert undan fella, það er þar á að standa og fram hefir komið í þinginu.“ — Hér eru skýlaus lagaákvæði um það, að umræður þingdeildanna og sameinaðs Alþingis skuli prentaðar í Alþingistíðindum, og verður því ekki breytt nema lagabreyting komi til. Og það er ekki einu sinni nægilegt, að þessu sé breytt með fjárlagaákvæðum, svo sem segir í úrskurði forseta frá 1924. En miklu fráleitara verður þó það, að ætla sér að breyta lagaákvæðum með þáltill., jafnvel þótt hún sé borin upp í sameinuðu Alþingi. Í till. er ætlazt til þess, að ríkisstj. fái heimild til að fella niður prentun Alþingistíðinda. Það eru forsetar Alþingis fyrir hönd þess, sem hafa yfirumsjón með prentun og útgáfu Alþingistíðinda, en eigi ríkisstjórnin. verður eigi með einfaldri samþykkt tekið vald af forsetum, er þeir hafa lögum samkvæmt, og afhent ríkisstjórn, enda eigi æskilegt að rýra vald Alþingis gagnvart ríkisstjórn, jafnvel þótt það væri gert á löglegan hátt.

Með því að fyrri hluti brtt. á þskj. 338, um að fella niður prentun umræðuparts Alþingistíðindanna 1934 og 1935, er eigi löglega fram borinn, er það úrskurður minn, að þessum hluta till. beri að vísa frá.

Ég verð að líta svo á, að í þessu felist heimild fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að draga þessar 50000 kr. af framlagi til Búnaðarbanka Íslands samkv. fjárlögum fyrir 1935, sem heimilt er að verja til samvinnubyggða á því ári.