04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (4781)

120. mál, skaði af ofviðri

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Það er vegna þess, að ég vantreysti því, að Hólshreppur geti fengið lán að svo miklum hluta, sem fjvn. ætlast til, til endurbóta á öldubrjótnum í Bolungavík, að ég hefi borið fram mína till. Ég veit það, og allir, sem til þekkja, að hreppurinn stendur undir ákaflega þungum böggum vegna þessa mannvirkis, sem hafa orðið fyrir óhöpp, bæði sjálfráð og ósjálfráð, sem hafa kostað hreppsfélagið og ríkissjóð marga tugi þúsunda, ef ekki á annað hundrað þúsund króna. Hreppurinn á í mestu vök að verjast með þær miklu byrðar, sem hann stendur undir vegna þessa. Ég er því hræddur um, að erfiðlega gangi fyrir hann að fá svo stórt lán sem sett er sem skilyrði fyrir þeirri fjárveitingu, sem fjvn. leggur til, að veitt verði.

Það var eitt sinn sem oftar, að stórfellt tjón varð á brimbrjótnum vegna þess að illa var gengið frá verkinn af þeim mönnum, sem stj. hafði falið að sjá um framkvæmd verksins. Það var árið 1925. Sá skaði, sem af því hlauzt, var um 48000 kr. Þá hljóp ríkið svo myndarlega undir bagga, að það borgaði 3/4 af viðgerðarkostnaðinum. Það er því til fordæmi fyrir því, að ríkið hlaupi vel undir bagga, þegar svona stendur á, langt umfram það, sem n. leggur nú til, og jafnvel umfram það, sem ég legg til með mínum brtt.

Ég hefi fyrir hreppsn. hönd átt tal við bankana, bæði á Ísafirði og hér, sérstaklega þó Landsbankann, sem hefir fyrri lánin. Mér hefir virzt vera þungt fyrir að fá ádrátt, hvað þá loforð —um 1/2, hluta kostnaðarins eins og hann er áætlaður nú, eða um 40000 kr., og hefi ég engan veginn getað fengið fast loforð um svo mikið fé, og ég er mjög hræddur um, og tel enda líklegt, að ekki væri unnt, nema þá kannske með ríkisábyrgð, að fá það lán, sem þyrfti eftir till. fjvn. — Það er eingöngu af þessum ástæðum, að ég ber fram mína brtt. Ég mundi alls ekki fara lengra en meiri hl. fjvn. hefir lagt til, ef ég teldi ekki fyrirsjáanlega hættu á því, að ekkert yrði úr framkvæmdum, ef svo skammt væri farið í tillagi ríkissjóðs.

Ég vil á engan hátt vanþakka þá till., sem meiri hl. fjvn. hefir gert. Ég verð að segja, að þar væri sómasamlega vikizt við, ef ástæður hreppsins væru þær, að hann gæti staðið undir helmingnum. En ég verð að láta þessa skoðun í ljós og lýsa því eins og ég lít á það, að ég er hræddur um, að það verði til þess, að ekki verði hægt að framkvæma þetta verk, ef ekki er lengra farið í tillagi ríkisjóðs, og það er enganveginn meining meiri hl. né neinna hv. þm., því að það er öllum ljóst, hvað liggur við, sem sé að þessi verstöð eyðileggst, ef ekki er bráðlega undið að endurbótum á þessu mannvirki. Það er einnig till. n. og því hefir verið lýst yfir, bæði af hv. 2. þm. Eyf. og hv. frsm., að mest tillit eigi að taka til þeirra einstaklinga, sem verst séu staddir, og þeir geti fengið bættan sinn skaða, sem er hliðstæður við þann, sem hér er um að ræða, með 3/4 af tapinu. Og þá fæ ég ekki séð, þegar ég hefi bent á, að það er einnig fordæmi til, sem gefið var 1926 í ákaflega hliðstæðu tilfelli, að hér sé um skaðlegt eða varhugavert fordæmi að ræða. Það voru reyndar fleiri vestur þar, sem urðu fyrir skaða af þessu ofviðri, og það tilfinnanlegum skaða. En ég legg svo, mikla áherzlu á, að þetta mikla nauðsynjaverk verði unnið, að ég hefi heldur færzt undan að bera fram till. um fjárframlög til þess að bæta einstökum mönnum þann skaða, sem þeir urðu fyrir, til þess að dreifa ekki of mjög fjármagninu frá því, sem er langnauðsynlegast, en það eru endurbætur á öldubrjótnum. Ég hefði getað komið með virðingar og umsóknir vegna tjóns, sem nemur á annan tug þúsunda, en ég hefi alveg látið það undir höfuð leggjast. Sem sagt, ég hefi dregið úr, að slíkar umsóknir yrðu sendar til þingsins vegna þess máls, sem er svo mikils virði fyrir íbúana þar í Bolungavík, sem eru um 800, að ef ekki er að gert, þá eru þeirra afkomumöguleikar algerlega glataðir um margra ára skeið, og þeir verða að flytja burt úr héraðinu.