04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (4785)

120. mál, skaði af ofviðri

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það hafa nú komið fram ýmsar brtt. við þessa till. til þál. um fjárframlög úr ríkissjóði vegna, skaða af ofviðri 26. og 27. okt. síðastl.— Þessi till., sem komin er frá meiri hl. fjvn., fer fram á að bæta mönnum í tilteknum héruðum skaða, sem þeir hafa orðið fyrir af ofviðrinu. Nú er þetta í sjálfu sér dálítið einkennilegt vegna þess, að slíkir skaðar verða svo víða hér á landi og hafa víðar orðið heldur en í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu á þessu hausti. Það urðu m. a. talsverðir skaðar í Snæfellsnessýslu síðastl. haust. Þar misstu margir menn báta sína. Í Ólafsvík t. d. fór einn bátur, sem var óvátryggður, alveg í spón. Eigendurnir eru fátækir menn, sem ekki hafa nokkur tök á því að kaupa sér annan bát í staðinn. Báturinn var óvátryggður vegna þess, að um skeið hefir verið erfitt að koma bátum í tryggingu. Og ef á annað borð bátar komast í tryggingu, þá verða eigendurnir a. m. k. að borga 8% af þeim í iðgjöld. Þegar þeir svo þar að auki þurfa að borga vexti af bátsverðinu, sem venjulega er í skuld, þá eru þarna komin iðgjöld og vextir í kringum 15%. — Þetta freistar — þeirra til þess að hafa bátana ekki vátryggða, m. a. af því, að þeir hafa ekki fé til þess að leggja út í þessi miklu útgjöld ársfjórðungslega.

En vegna þess að menn eru nú farnir að teygja þessar bætur fyrir skaða víðar um landið, þá leyfi ég mér að koma fram með skrifl. brtt., sem hljóðar svo: við 1. lið. Á undan „Skagafirði“ komi: Snæfellsnessýslu (Ólafsvík). — Úr því farið er að teygja þetta um allt, þá finnst mér, að tína eigi upp alla staði, þar sem menn hafa orðið fyrir skaða og geta ekki bætt sér hann sökum fátæktar, því það er einmitt aðaltilgangur þessarar þáltill., sem fyrir liggur, að bæta mönnum skaða, sem þeir hafa orðið fyrir af náttúruöflum og geta ekki af eigin rammleik bætt sér. Ég leyfi mér því að leggja þessa till. fram til hæstv. forseta.