19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (4845)

202. mál, Menningarsjóður

Magnús Guðmundsson:

Ég á erfitt með að taka undir þennan harmagrát út af minnkandi áfengissektum. Mér finnst mjög gott, að þær minnki með sama eftirliti með lögum og verið hefir. Það er ekki nýtt, að áfengisbrotin séu valtur grundvöllur fyrir listir og vísindi. Þetta hefir verið svo frá því að lögin um menningarsjóð voru sett, og þetta hefir jafnan verið svo og verður jafnan svo. Hér hefir því ekkert óvænt komið í ljós, ekkert nema það, sem allir vissu fyrirfram. Flutningur þessarar till. er því ekki annað en yfirlýsing hv. flm. um, að lögin um menningarsjóð séu vanhugsuð frá byrjun, og hefði maður varla getað vænzt þeirrar yfirlýsingar frá hv. þm. S.-Þ., sem einmitt var flm. laganna um menningarsjóð á sínum tíma.

Tillaga þessi er óþörf, því að það er sama og ekkert verk að búa til frv. um þetta. Vil ég því leggja til, að þessari till. verði vísað til hæstv. stj. hún ræður því svo að sjálfsögðu, hvort hún undirbýr löggjöf um þetta efni, en ef hæstv. stj. skyldi gefast upp við það, þá býst ég við, að þessir hv. flm. geti samið frv. sjálfir.