11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (4848)

24. mál, talskeytastöðvar í fiskiskip

Flm. (Jón Auðunn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég flutti á síðasta þingi þáltill. sama efnis og þá, sem hér liggur fyrir. Ástæður færði ég þá þær, að það er yfirleitt álit allra sjómanna, sem nokkurn kost hafa átt á því að hafa talstöðvar á skipum sínum, að þær dragi mjög úr þeirri hættu, sem sjósókn er samfara, einkum á vetrarvertíðinni, þegar allra veðra er von. Það hefir sýnt sig þráfaldlega, að það hefir orðið til að bjarga bæði mannslífum og bátum, að það hefir verið tekið upp að hafa talstöðvar í bátum. Dæmi þess þekki ég einkum fyrir vestan. A. m. k. í eitt eða tvö skipti hafa slíkar stöðvar forðað frá slysum eða algerðum bátstöpum.

Allmargir hafa fyrir vestan tekið það upp að hafa talstöðvar í bátum sínum. En annarsstaðar mun einnig vera vöknuð nokkur hreyfing í þá átt að hafa talstöðvar í bátum. En talstöðvar þessar eru áhöld, sem sumir útgerðarmenn geta ekki eignazt sjálfir. Það væri hinsvegar heppilegt, að landssíminn annaðist kaup á þessum hlutum og leigði svo talstöðvarnar útgerðarmönnum. Enda þarf sérstakt eftirlit með talstöðvunum, þannig að notkun þeirra komi ekki í bága við alþjóðareglur né trufli heldur sambönd þau í lofti, sem eiga sér stað á milli ýmissa landshluta og milli skipa og lands.

Það er að vísu svo, að landssíminn hefir haft nokkuð af slíkum stöðvum undanfarin ár, sem hann hefir leigt. En landssímastjóri tjáði mér á síðasta hausti, að það fé, sem nauðsynlegt væri í þessu skyni, þyrfti að vera veitt af Alþingi. Þannig að hann hefði heimild til að auka kaup á talstöðvum og með því gera mönnum auðveldara um að hafa þessi tæki á bátum sínum, til öryggis fyrir sjómenn. Landssímastjóri skrifaði fjvn. síðasta þings út af þessari till. minni og lýsti því að til þess að vel væri. Þyrfti mikið fé til kaupanna á talstöðvum og bjóst ekki við, að hægt yrði að fullnægja eftirspurn á einu eða tveimur árum. Ég býst ekki heldur við, að það verði hægt. Hinsvegar tel ég alveg ótækt, að ekki sé einhverju fé varið árlega í þessu skyni. Þó að það sé kannske erfitt fyrir landssímann að leggja út fé í þessu skyni, þá fær hann samþ. samkv. síðustu skýrslu landssímastjóra, fulla leigu fyrir þessar stöðvar, eða kannske meira en það. Niðurstaðan verður því ekki tap fyrir landssímann. vitanlega getur landssíminn ekki lagt út fleiri hundr. þús. kr. árl. til að fullnægja þessari brýnu þörf. En með því að hann hafi nokkur þús. kr. til umráða árlega til þessa, smárætist úr. Þess vegna leyfi ég mér að leggja til, að ríkisstj. eða landssímstjóra sé heimilað að verja 25 þús. kr. af ríkisfé til kaupa á talstöðvum árlega. Leiga fyrir þessar stöðvar hefir verið um 120 kr. á ári, og telur landssímastjóri þá leigu sanngjarna. Stöðvarnar kosta sennilega 500—700 kr. hver, í mesta lagi. Eru því teknir góðir vextir af fénu, sem lagt er út fyrir þær. En vitanlega ganga þær úr sér eins og aðrar stöðvar, og verður því að gera ráð fyrir fyrningu.

Mér hefir nú dottið í hug, að landssíminn ætti að inna þetta af hendi án þess að hafa af því beinar tekjur, heldur ætti hann aðeins að fá vexti af útlögðu fé fyrir stöðvarnar og borgaða fyrningu á þeim.

Ég lýst við, að hv. þm., sem talað hafa um, að sjálfsagt sé að auka öryggi sjómanna, sjái, að hér er um eitt af þeim málum að ræða, sem miðar að því, án mikils kostnaðar þó, að draga úr lífsbættu og tryggja atvinnu a. m. k. okkar sjómannastéttar.

Legg ég svo til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til fjvn. til athugunar.