04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (4897)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að vera eins langorður og ástæða væri til og ekki rekja öll þau atriði, sem fram hafa komið hjá síðasta ræðumanni, og er það aðallega af því, að um 3/4 hlutar af ræðu hans hafa ekki verið annað en upptugga á því, sem hv. 3. þm. Reykv. var búinn að halda fram, en fátt um nýjar getsakir. Hv. 3. þm. Reykv. spurði að því, hvort ég gæti gert grein fyrir því, hvers vegna Sigurður Jónasson hefði verið valinn forstjóri raftækjaeinkasölunnar. Ég var áðan að enda við að segja það, að hann hefði verið sá eini af forstjórum ríkisverzlananna, sem nokkurn kunnugleika hefði á þessum málum haft, og þess vegna verið falið þetta hlutverk. (JakM: Ég spurði alls ekki um þetta). Hv. þm. spurði alveg sérstaklega um þetta. Hv. 3. þm. Reykv. vildi telja það sönnun fyrir þekkingarleysi Sigurðar Jónassonar á þessum málunt, að hann hefði haft sér til aðstoðar við raftækjaverzlun Íslands erlendan sérfræðing. Þessi ályktun hv. þm. er alveg út í bláinn, því að hvað staðgóða verzlunarþekkingu sem menn hafa á þessum hlutum, þá þurfa menn samt sem áður sérfræðing til þess að ráða fram úr tekniskum vandamálum, sem alltaf koma fyrir. Þá var hv. 3. þm. Reykv. eitthvað að klifa á því, að tortryggni manna í garð Sigurðar Jónassonar stafaði aðallega af því, að hann gæti misnotað aðstöðu sína til þess að selja raftækjaeinkasölunni gamlar og lítt seljanlegar birgðir raftækjaverzlunar Íslands hf og halda þeim að mönnum úr hófi fram og fyrirbyggja þar með sölu á hæfum varningi. Eitthvað þessháttar var það, sem þessi sérstaklega „heiðarlegi“ maður, hv. 3. þm. Reykv., bar fyrir brjósti. Þetta er náttúrlega heilaspuni hjá hv. þm. Þó svo væri nú, að þessar vörur væru hálfeða alónýtar, þá væri lífsómögulegt að halda þeim svo að mönnum, að ekki fengjust góðar vörur jafnframt á markaðnum. Smásalarnir myndu ekki láta sér slíkt lynda eða þeir, sem ættu að nota þessar vörur. (JakM: Hvað ættu þeir að gera?). Þeir myndu biðja um annað, og þeir myndu fá það. (JakM: Nú, þeir myndu fá það, — það er það, sem deilt er um). Hitt er annað mál, að hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. myndu aldrei verða spurðir ráða í þessum efnum. Þeirra verzlunarvit mun ekki vera svo tiltakanlega mikið. (PHalld: Nei, það verða auðvitað einhverjir framsóknarmenn). Það mun hafa verið hv. 5. þm. Reykv., sem lagðist einna lægst hér af öllum þeim, sem talað hafa, og er þá mikið sagt, og hélt því fram, að tóbakseinkasala ríkisins myndi hafa verið stofnuð fyrir Sigurð Jónasson, til þess að hann gæti grætt á því að selja ríkinu vörubirgðirnar. Eins og allir vita, var tóbaksverzlun Íslands eitt af ágætustu „gróðafyrirtækjum landsins, — og dettur nokkrum óvitlausum manni í hug, að það sé ávinningur að missa af því að reka verzlun, sem gefur hundruð þúsunda í ágóða, til þess að geta í eitt skipti selt vörubirgðir verzlunarinnar? Það má vera, að hv. 5. þm. Reykv. sé svo grænn að telja slíkt gróðavænlegt, en ég hygg, að ekki muni verða margir til að taka mark á slíkri verzlunarvizku. En það er dálítið undarlegt hjá hv. sjálfstæðismönnum, sem alltaf eru að stagast á því, að einkasölur séu eignarrán gagnvart einstaklingunum, að þeir skuli nú halda því fram, að það sé einstökum mönnum greiði að taka af þeim verzlunarfyrirtækin. Þeir eru með þessu búnir að sigla með öll sín rök gegn einkasölum út í sjó. (PHalld: Þetta er regluleg hunda-„logik“). Hv. 5. þm. Reykv. var að bera kvíðboga fyrir því, að ég hefði ekki gert þetta með góðri samvizku, og tók svo spaklega til orða, að það væri ekkert við því að segja, sem menn hefðu gert með góðri samvizku. Hv. þm. getur verið viss um, að mín samvizka er fullkomlega róleg. Hann hefði ekki einu sinni þurft að ómaka sig til þess að taka til máls, hafi það verið af ótta við órólega samvizku hjá mér. (ÓTh: Það er ekki kvellisjúk samvizka). Það er ekki ástæða til að eltast við allar þær lúalegu getsakir, sem fram hafa komið í þessum umr., eins og t. d. það, að með þessu sé verið að gefa A. E. G. sérstöðu hér á landi. Ég held, að það sé nær fyrir þessa hv. þm., ef þeir hafa ekki ánægju af því að gera sér til skammar, að bíða og sjá, hvort A. E. G. fær sérstöðu í verzlun hér á landi, og koma þá fram með ásakanir sínar, þegar fótur er fyrir þeim, í stað þess að hrúga hér upp getsökum að ástæðu- og tilefnislausu. Þá tæpti hv. þm. á því, að sennilega myndi standa hér fyrir dyrum eitthvert stórkostlegt fjárdráttarmál, því að eftir sem áður myndi raftækjaverzlun Íslands reka smásöluverzlun og misnota aðstöðu Sigurðar Jónasonar í því sambandi. Þeir sögðu nú þessir hv. þm., að það gæti verið, að Sigurður Jónasson myndi reka smásöluverzlun. Þeir vissu ekki um það. En ég get upplýst þá um það, að þeta fyrirtæki, raftækjaverzlun Íslands hf. mun ekki reka smásölu eftirleiðis. Hv. 5. þm. Reykv. hefði því í þessu tilfelli getað sparað sér að verða sér til skammar, eins og raunar einnig með aðdróttanir sínar í sambandi við A. E. G. — Þá gegnir sama máli með hv. 6. þm. Reykv. Þetta fer nú að verða í senn broslegt og undarlegt, þegar hann kemur með fyrirspurn um það, hvort kaupa eigi hús af Sigurði Jónassyni undir þetta fyrirtæki. Auðvitað hefir það aldrei komið til orða, og engum manni dottið það í hug. Einnig þetta er heilaspuni hjá hv. 6. þm. Reykv. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem þeim finnst, þessum hv. þm., e. t. v. geta komið fyrir, en bara enginn fótur er fyrir, og slíkar getsakir því algerlega ótímabærar. Ættu þessir hv. þm. að gæta þess framvegis, að hlaupa ekki af stað með ásakanir, áður en þeir vita, hvort nokkur hæfa er í þeim eða ekki.