10.10.1935
Sameinað þing: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Kæra um kjörgengi

Bergur Jónsson:

Af hálfu okkar, sem erum í meiri hl. í kjörbréfan., er ástæðan sú fyrir því að bíða með athugun og úrskurð á kæru þeirri, sem lögð hefir verið fram í þinginu, að málið er flestum hv. þm. með öllu ókunnugt, og því erfitt fyrir menn að taka afstöðu til þess. Vitanlega eru menn ekki skyldugir til að hafa lesið hin og þessi blöð um hvað eina og myndað sér skoðun á því. Yfirleitt er hér um sex ástæður að ræða fyrir kröfu Bændafl. og því full ástæða til þess, að n. athugaði þær betur en hægt var á þessum 5—6 mín., sem eftir voru af nefndartímanum, þegar hún fór að ræða málið. Hinsvegar lýsti ég yfir því, að ég myndi í dag, þegar minni hl. óskaði eftir því, halda nefndarfund og taka málið fyrir. Ég sé enga ástæðu til, og tel það óviðkunnanlegt, að ræða málið nú, fyrr en hv. þm. hafa haft tækifæri til að athuga það betur.