13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

2. mál, gjöld 1936 með viðauka

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar með einni lítilsháttar breytingu frá því, sem það var upphaflega. Það lítur ekki út fyrir, að ríkissjóður geti komizt af með minni tekjur 1936 en hann hafði 1935. Þess vegna er farið fram á að framlengja ýmsa viðauka við tekjuöflunarlög. Það þarf ekki að rekja efni þessa frv. hér. Öllum hv. þm. er það kunnugt frá fyrri þingum. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til fjhn. að aflokinni þessari 1. umr. Ég skal taka það fram, að viðaukar þessir hafa áður verið hver fyrir sig í sérstökum lögum, en eru hér dregnir saman í eitt og framlengdir til eins árs. eins og verið hefir. Ætla ég, að það sé fullt eins glöggt til yfirlits að hafa þá alla í einu frv.