12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Kæra um kjörgengi

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Eins og kunnugt er, hefir Alþingi borizt kæra frá miðstjórn Bændafl., þar sem þess er krafizt, að hv. 2. landsk. þm. verði sviptur þingmennskuumboði sínu, en Stefán Stefánsson, sem er 1. varauppbótarþm. flokksins, hljóti þingsætið.

Kjörbréfanefnd tók málið til athugunar í fyrradag, en varð ekki öll á eitt sátt um það. Meiri hl. n., hv. 6. landsk., hv. 2. þm. Eyf. og ég, við teljum, að ekki sé hægt að finna neinn lagalegan grundvöll undir þessari kröfu, sem í kærunni felst, og leggjum við því til, að hún verði ekki tekin til greina. Hinsvegar býst ég við, að minni hl. n. vilji taka kröfuna til greina, að einhverju leyti eða öllu.

Mál þetta virðist mér liggja mjög ljóst fyrir. Samkv. 45. gr. stjórnarskrárinnar er því aðeins hægt að svipta þingmann þeim réttindum, sem þingkosningin hefir veitt honum, að hann hafi misst eitthvað af kjörgengisskilyrðum. Í 28. gr. stjskr. eru talin upp öll þau skilyrði, sem menn verði að fullnægja til þess að hafa kosningarrétt, og samkv. 29. gr. stjskr. er hver sá ríkisborgari kjörgengur, sem kosningarrétt á. Þessi upptalning í 28. gr. stjskr. á kosningarréttarskilyrðum og skilyrðum fyrir kjörgengi er áreiðanlega algerlega tæmandi. Og þessi ákvæði hljóta að gilda jafnt fyrir alla þingmenn, eins um landskjörna sem kjördæmakjörna. Væri ekki svo, heldur að einn flokkur þingmanna væri háður öðrum reglum en annar í þessu efni, þá hlyti það að vera tekið sérstaklega fram í stjórnarskránni.

Nú er ekki í kærunni bent á, að hv. 2. landsk. þm. hafi misst neitt af þeim kjörgengisskilyrðum, sem í 28. gr. stjskr. getur, og þar sem hv. 2. landsk. þm. hefir ekkert af þeim misst, er ekki hægt að svipta hann umboði sínu samkv. 45. gr. stjskr. Þess vegna berum við í meiri hl. kjörbréfanefndar fram svofellda rökst. dagskrá:

„Með því að stjórnarskráin heimilar eigi Alþingi að taka umboð af þingmanni, sem gilt kjörbréf hefir fengið, nema hann hafi glatað kjörgengi sínu, og þar sem fram komin kæra Bændaflokksins út af kjörgengi 2. landskjörins þingm. snertir í engan hátt kjörgengisskilyrði stjórnarskrárinnar, sem að fullu eru greind í 28. gr. hennar, ályktar sameinað Alþingi að taka kæruna eigi til greina og tekur fyrir næsta mál í dagskrá.“

Vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa rökst. dagskrá.

Þetta er aðalatriði málsins, að það er alls ekki hægt, hvorki á stjórnskipulegan né lagalegan hátt, að svipta þennan hv. þm. nauðugan þeim réttindum, sem þingkosningin hefir veitt honum, úr því að hann hefir ekki misst nein kjörgengisskilyrði samkv. 28. gr. stjskr.

Í kæru miðstjórnar Bændafl. er rætt um nýtt kjörgengisskilyrði, sem 28. gr. stjskr. getur ekki um. Þetta skilyrði skilst mér vera það, að frambjóðandi eða þingmaður þurfi að vera viðurkenndur flokksmaður einhvers stjórnmálaflokks. Og það, sem einkennilegast er við þetta, er það, að eftir kæru Bændafl. á þetta skilyrði aðeins að gilds fyrir landskjörna þingmenn. Eftir því ætti að skipta þingmönnum í tvo flokka eða hópa, mismunandi réttháa og vera mismunandi auðvelt að svipta þingmenn kjörgengi. Allir hljóta að sjá, hvílíka firru hér er um að ræða. Ef slíkt er ekki tekið fram í stjskr. — sem vissulega er ekki heldur gert —, þá er ómögulegt að mismuna svo þingmönnum um réttindi þeirra.

Í 43. gr. stjskr. er tekið fram, að þingmenn séu einungis bundnir við sannfæringu sína. Ef taka ætti afleiðingum af þeirri kenningu, sem í kærunni felst, þá þyrftum við að breyta þessari gr. stjskr. þannig, að hún yrði eitthvað á þá leið, að kjördæmakjörnir þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en landskjörnir við flokkssannfæringu. Hér yrði þá að búa til nýja stjórnarskrárgrein um það, að landskjörnir þingmenn skuli bundnir flokksböndum við þingstörf sín, en að við kjördæmakjörnu þingmennirnir, megum dansa eftir okkar eigin sannfæringu og fara flokk úr flokki eftir vild. Þetta yrði rökrétt afleiðing af kenningu miðstj. Bændafl. og þeirra, er halda hinu sama fram.

Að mínu áliti er sú ein ástæða fyrir því hugsanleg, að svipta þm. umboði sínu, fyrir að hafa breytt um flokksafstöðu, að það orsaki röskun á réttum hlutföllum á milli kjósendafjölda og þingmannatöluflokka, eða svo að ég hafi orðalag stjskr., að hver þingflokkur hafi ekki þingsæti í eins fullu ,samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar“ eins og hefði verið án áðurnefndrar breytingar á flokksafstöðu þingm. En til þess að hægt væri að svipta þm. kjörgengi vegna þessarar nefndu ástæðu, yrði ákvæði að vera til um það í stjskr., sem þá auðvitað gilti um alla þingmenn.

Ég ætla að benda á örfá dæmi af mörgum, sem hægt væri að nefna um afleiðingar, sem gætu komið fram af þeim kenningum, sem komið hafa fram í kæru þessari frá miðstj. Bændafl. og frá þeim mönnum, sem haldið hafa fram því sama.

Hér á Alþingi eru tveir þm., hv. 1. þm. Skagf. og hv. 7. landsk., sem báðir buðu sig fram við alþingiskosningarnar 1934 í Skagafjarfrsýslu. Báðir gáfu þeir upplýsingar um það, að þeir byðu sig fram fyrir Sjálfstfl. Sennilega hafa þeir haft sömu meðmælendur, og að sjálfsögðu að mestu leyti sömu kjósendur á bak við sig. Annar hlýtur kosningu sem kjördæmakjörinn þm., en hinn fellur sem slíkur, en verður svo i. landsk. þm. Hinn síðarnefndi er því ekki skoðaður sem þm. Skagf. Eftir kenningum kærunnar ætti afstaða þessara tveggja hv. þm. að vera gagnólík. Ef hv. 7. landsk. þm. gengi í annan flokk en þann, sem hann bauð sig fram fyrir, matti eftir þessari kenningu svipta hann þingmennskuumboði. Hinsvegar, eftir þessari sömu kenningu, mætti hv. 1. þm. Skagf. láta eins og hann vildi í þessu sambandi að ósekju. Hann mætti fara svo á milli flokka sem hann vildi, án þess að það haggaði þingmennskuumboði hans. Allir sjá, hvílík firra það væri að mismuna þm. svo um réttindi.

Eða svo við tökum annað dæmi og gerum ráð fyrir, að einhver þingflokkur, t. d. Sjálfstfl., klofni í tvennt, og báðir flokkshlutar teldu sig hafa hina réttu flokksstefnu. Þá ætti Alþingi að geta rekið þá þm. úr minni hlutanum, sem eru landskjörnir, en ekki hina.

Það mætti telja ótal dæmi þessu lík, sem öll sýna það og sanna, að það er hvorki lögfræðilegt vit, skynsemi eða réttlæti í þeirri kenningu, að Alþingi geti rekið landskjörinn þm. af þeirri ástæðu einni, að hann breytti um flokksafstöðu á kjörtímabilinu.