27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er í sjálfu sér ekki mikið, sem ég þarf við að bæta það, sem hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. hafa sagt. Ég get í öllum höfuðefnum vísað til þeirra málflutninga. Það er sjálfsagt líka í höfuðatriðum rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði um sögu 6% gjaldsins, svo langt sem það náði, en ég veitti því athygli — og var ég dálítið hissa á því, úr því að hann fór að rekja gang málsins hér í hv. d. —, að hann lét nokkuð undan falla og sagði söguna ekki til enda. Hæstv. ráðh. sagði frá þeirri þörf, er lá til grundvallar því, að skatturinn var lagður á. Hann sagði frá því, að allir þingflokkar hefðu verið sammála um, að óhjákvæmilegt hefði verið að leggja þennan skatt á, en blærinn á hans málflutningi var þó sá, að þetta hefði í raun og veru verið komið að miklu leyti í framkvæmd áður en núv. ríkisstj. tók við völdum. Það er líka rétt, svo langt sem það nær. En hæstv. ráðh. átti jafnframt að láta hins getið, að að því leyti, sem þetta skattgjald stendur í sambandi við þá þrengingu markaðsins, sem kunn varð upp úr samningunum við Spánverja sumarið 1934, að þeir samningar voru með þeim hætti, að Íslendingar gátu, ef þeir vildu, sagt þeim upp á árinu 1934, þannig að öll ákvæði þeirra fellu úr gildi við áramót 1934 og 1935. Ríkisstj. leit hinsvegar svo á, að ekki væri rétt að gera þetta, og ég hygg, að hún hafi haft þar á réttu að standa. Ég hygg, að á bak við hana hafi staðið vilji þingsins óskiptur. Ríkisstj. lét sendiherrann, Svein Björnsson, fara til Spánar til þess að fá tryggingu fyrir því, að samningarnir yrðu framkvæmdir á árinu 1935 með sama hætti og þeir voru framkvæmdir á árinu 1934, með þeim kvöðum og takmörkunum, sem voru lagðar á íslenzka verzlun og viðskipti með ákvæðum samningsins eins og hann var í öndverðu gerður. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram, svo að það sjáist í þingtíðindunum, að þegar ríkisstj. og þingheimi var kunnugt um þetta mál, voru allir sammála um að taka eðlilegum afleiðingum af því, og eftir að ríkisstj. hafði athugað það í 4 til 3 mánuði, óskar hún ekki eftir, að samningunum sé sagt upp, heldur óskaði eftir, að þeir yrðu framkvæmdir á sama grundvelli og verið hafði.

Það er í sjálfu sér ekkert aðalatriði, hvað greinilegir samningar hafa staðið í milli mín og hæstv. ráðh. um afnám þessa gjalds á öndverðu þessu þingi. Hæstv. ráðh. telur, að það hafi ekki verið um neina samninga að ræða. Hann má orða það svo, ef hann vill. En hitt veit hæstv. ráðh., að við höfum átt tal um þetta oftar en einu sinni eftir að þing kom saman á ný, og hæstv. ráðh. veit það vel, að mitt erindi var að bera fram óskir um, að við, sem stóðum að því að leggja á þetta gjald, gætum sameiginlega staðið að því að létta því af. Ég gerði þetta samkv. ályktun þingflokks Sjálfstfl., og í fullu samráði við hann. Við vorum, eins og hv. þm. Vestm. gat um í fyrstu ræðu sinni, á einu máli um það, allir þm. Sjálfstfl., að hvort sem þessi þörf væri nú fyrir hendi eða ekki, þá væri þess ekki lengur kostur að leggja þetta gjald á sjávarútveginn. Hann gæti ekki undir því risið. Ef þörfin væri enn fyrir hendi vildum við, að kostnaðinum væri dreift á landslýðinn, vegna þess að það eru fleiri en útvegsmenn og sjómenn, sem eiga afkomu sína undir sjávarútveginum — það er allur landslýður. Til þess að forðast að blanda saman því tvennu, annarsvegar gjaldgetu sjávarútvegsins og hinsvegar deilunni um það, hver þörf er fyrir hendi þá var það, að hv. 6. þm. Reykv. lagði fram með mínu samþykki samningsgrundvöll í sjútvn., sem hné að því, að ef hæstv. stj. taldi, að þessi þörf væri óhjákvæmilega fyrir hendi þá var í þeirri samningsuppástungu bent á leið til þess að fullnægja þörfinni án þess að sérstakur skattur væri lagður á sjávarútveginn einan. Án þess að fara langt út í þá hlið málsins, þá virðist mér, að hæstv. stj. vilji í því frv., sem hér liggur fyrir, halda opnum þessum möguleika að fullnægja þessari þörf, ef hún yrði fyrir hendi að dómi ríkisstj., því að í þeirri grein, sem um þetta fjallar, hefir hæstv. ríkisstj. með orðalagi greinarinnar opnað fyrir sér nokkuð víðtæka möguleika til ráðstöfunar á þeirri lánsheimild, sem lögin endurnýja og staðfesta, og svo þeim nýju tekjum, sem hæstv. stj. ætlar að fá með ákvæðum frv.

Mig langar í því sambandi að beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. um það, hvort hann telji þessa einnar millj. kr. lánsheimild, sem þetta frv. fjallar um, nýja lánsheimild eða eingöngu endurnýjun á þeirri lánsheimild, sem fólst í lögunum um fiskimálanefnd frá því í fyrra.

Eftir skýrslu hæstv. ráðh. er búið að ráðstafa nokkru af þessu fé, eða um 200 þús. kr. Eða er það ekki rétt? Það er búið að taka lán, sem nemur 500 eða 600 þús. kr., og ráðstafa nokkrum hluta af því eins og ég sagði áðan. Nú langar mig til að vita, hvort hæstv. ráðh. ætlast til, að þetta verði ný heimild eða aðeins áframhald af þeirri eldri. Það skiptir að því leyti ekki miklu máli, eftir þeim skýringum, sem hæstv. ráðh. hefir gefið, að nokkrum hluta þessarar millj. er ennþá óráðstafað og hæstv. stjórn hefir óbundnar hendur um þá ráðstöfun samkv. orðalagi greinarinnar eins og hún er á þskj. 560.

Það var margt í ræðu hæstv. ráðh. bæði fyrr og síðar, sem fjallaði um þessa hlið málsins, sem gæti gefið tilefni til nánari athugunar, en ég ætla þó að láta það undir höfuð leggjast, sumpart með tilvísun til þess, sem hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. hafa sagt, og sumpart af því, að ég hefi áður gert þetta mál að umræðuefni og get vísað til þess.

Hæstv. ráðh. talaði með allmiklum hita og þunga um þörf sjávarútvegsins fyrir nýjar markaðsleitir og þá miklu gagnsemi, sem sjávarútveginum mætti verða að því, að undir ötulli forustu væri hafizt handa um leit á auknum saltfiskmarkaði og um framkvæmd nýrra úrræða um meðferð og sölu sjávarafurða. Ég er sammála honum um þetta. En þessu til sönnunar vildi svo hæstv. ráðh., eða öllu heldur þessa staðreynd notaði svo hæstv. ráðh. til sönnunar því, að það væri ekki rétt af þeim mönnum, sem teldu sig bera hagsmuni sjávarútvegsins fyrir brjósti, að rísa öndverðir gegn nýjum álögum á sjávarútveginn. Um þetta get ég hinsvegar ekki verið hæstv. ráðh. sammála. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að sjávarútvegurinn er nú í hinum mestu þrengingum, og út frá því verða þeir menn að hugsa og hegða sér, sem þá staðreynd skilja. Það má náttúrlega segja, eins og hæstv. ráðh. sagði, að sjávarútvegurinn kikni ekki undir þessu gjaldi einu út af fyrir sig, en ef haldið verður áfram að álykta þannig, að 50 au. á skpd., króna á skpd. eða 2 kr. í skpd. geri hvorki til né frá, þá verður það þessi hugsunarháttur, sem drepur sjávarútveginn, og hann er raunar búinn að því. Það er á allra vitorði, að það er búið að hegða sér svo lengi eftir þessum hugsunarhætti, að sjávarútvegurinn er kiknaður undan kvöðum, sem alltaf er verið að auka. Og ef aðþrengdan sjávarútveg munar ekki um þetta gjald, þá má með sama rétti segja, að aðþrengdan ríkissjóð muni ekki heldur um það. Við vitum það, sem kunnugir erum sjávarútveginum, högum hans og háttum, af eigin reynd, að hann getur ekki lengur borið þau gjöld, sem á hann hafa verið lögð, og því síður ný gjöld. Ég fyrir mitt leyti held því þess vegna fast fram með flokksbræðrum mínum hér, sem um þetta mál hafa talað, að þó að ég viðurkenni fullkomlega þá þörf, sem er fyrir nýjar markaðsleitir og annan þann tilgang, sem lýst er í 5 gr. þessa frv., þá neita ég, að sjávarútvegurinn sé fær um að standa undir því, og treysti mér að benda á ýmislegt í fjárl., sem frekar mætti undan víkja eða létta af ríkissjóði heldur en það að leita að nýjum mörkuðum og stuðla á annan hátt að áframhaldandi þróun útvegsins.

Þá þótti mér hæstv. ráðh. mæla helzt til of mikið fyrir minni fiskimálan. Það er auðvitað mál, að ver sjálfstæðismenn viðurkennum fullkomlega nauðsyn þá og þann tilgang, sem lá til stofnunar fiskimálan. Við áttum þá líka frumkvæðið að því hér á Alþ., að hafizt var handa í þessu máli. Okkur er ljóst, að þegar svo er komið, að haftastefnan náði yfirtökunum hjá þeim þjóðum, sem við aðallega seljum okkar vörur, og braut niður ávöxt af starfi einkafyrirtækjanna um sölu afurðanna á undanförnum árum, þá skapaði það nýtt viðhorf og þörf fyrir ný úrræði. Fram til þessa tíma hafa Íslendingar getað aukið saltfiskframleiðslu sína og margfaldað án þess að af því sköpuðust veruleg vandkvæði um sölu þeirrar aukningar. Þeir menn, sem rekið höfðu saltfiskverzlun, höfðu borið gæfu til þess að afla nýrra markaða fyrir framleiðsluaukninguna, og æfinlega á þann hátt, að sækja á beztu markaðina. Baráttan hafði verið hafin af Íslendingum til árásar á áratuga gömul viðskipti annara framleiðsluþjóða í Suðurlöndum. Barátta Íslendinga var fyrst og fremst háð um þann markaðinn, sem beztur var, með þeim árangri, að aðalkeppinautunum var rutt út af þeim markaði að mjög miklu leyti. Þegar svo, eins og ég áðan gat um, ákvarðanir í sambandi við aukið fylgi innflutningshaftastefnunnar í nágrannalöndunum brutu niður árangur þeirrar baráttu, var Íslendingum ljóst, að leggja varð inn á nýjar brautir, sem nú þóttu þess verðar, að gerðar væru þessar tilraunir, þó að áður þætti ekki vert að líta við þeim. Og í því skyni var hafizt handa um þetta og Sjálfstfl. bar fram till. á haustþ. um það. — Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að fiskimálan. hafi hafizt handa um nýjar tilraunir með harðfisk. En um þær tilraunir er það að segja, að enda þótt árferði hafi verið hagstætt að því er snertir þá vörutegund, vegna þess hve Norðmenn öfluðu miklu minna heldur en undanfarin ár og létu það ganga út yfir harðfiskframleiðslu sína, svo að framboð á harðfiski af þeirra hendi var með allra minnsta móti, þá hafa framkvæmdir hér á landi á þessu sviði verið ákaflega lítilvirkar og mjög lítið af fiski verið hert. Og þó að e. t. v. megi gera sér vonir um frekari árangur þeirrar starfsemi, þá stendur hitt eftir annarsvegar, að við höfum illa notað þá aðstöðu, sem fyrir hendi var í þessum efnum, og hinsvegar mun áframhald þeirrar starfsemi fyrst og fremst fara eftir því, hvort enn meiri þrengingar verða á saltfisksmarkaðinum. Annað atriði; sem ráðh. tilgreindi fiskimálan. til framdráttar, var það, að n. hefði átt frumkvæðið að því, að hér var byrjað á nýjum atvinnurekstri, nefnil. vinnslu á karfa í síldarmelsverksmiðjunum. Ég veit ekki, hvað mikinn heiður má ætla fiskimálan. af þessum tilraunum. Það voru hér fyrir nokkru síðan gerðar tilraunir í þessa átt, en strönduðu þá á því, að það reyndist ekki arðvænlegt. Síðan hefir ungur maður, sem unnið hefir að rannsóknum á hagnýtingu karfa undanfarin ár, skilað árangri af þeirri vinnu, en hann gefur vonir um, að þessi atvinnurekstur geti í framtíðinni orðið arðvænlegur. Ég vil þó vara menn við að gera sér of miklar vonir um þennan árangur, því að gera má ráð fyrir, að þær hillingar, sem við lifum nú í, muni fljótt falla fyrir dómi reynslunnar. Ég hika því ekki við að segja, að reynslan muni færa sönnur á það, að það muni ekki verða til baga, heldur til bóta, að leggja niður störf fiskimálan. Það myndi spara þá tugi þúsunda, sem hún nú kostar framleiðendur. Mætti fela þau störf, sem hún hefir með höndum, þeirri tíu manna yfirstjórn, sem nú fer með fisksöluna. Það skiptir vitanlega ósköp litlu máli, hvort atvmrh. sé form. fiskmálan. Við höfum fengið þá umsögn, og útvegsmenn munu almennt vera þeirrar skoðunar, og ég er sannfærður um, að sú skoðun fæst staðfest með reynslunnar dómi, ef Alþ. ber gæfu til að samþ. frv., sem liggur fyrir frá sjálfstæðismönnum um sameiningu þessara tveggja verkefna. Ég hika ekkert við að fullyrða, að ég tel verk fiskimálan. eðlilegan ávöxt þess, að forstöðumaður þeirrar n. hefir ekki komið neitt nærri sjávarútveginum fyrr en hann tók að sér formennsku í þeirri n. Ég er ekki sérstaklega að deila á hann, þótt ég segi þetta, en það liggur bara í hlutarins eðli, að menn, sem aldrei hafa komið nærri slíkum störfum, hafa ekki tileinkað sér þá þekkingu og þann hugsunarhátt, sem nauðsynlegur er mönnum, sem veita eiga forstöðu málefnum sjávarútvegsins. Og hvað snertir þá afstöðu, sem færð var fram fyrir þeim útgjöldum, sem leiðir af fiskimálan., þá hygg ég, að væri sanni nær að sameina fiskimálan. og fisksölusamlagið. Það myndi ekki aðeins spara laun eins framkvæmdarstjóra, heldur framt að því laun þeirra allra. Eitt er víst, og því hefir ekki verið mótmælt, að kostnaðurinn, sem leiðir af störfum fiskimálan. með skrifstofuhaldi og öllu, er nærri 40 þús. kr. á ári. Það eru þannig 6 nm., sem hafa 3000 kr. laun hver, svo er form., sem hefir 5400 kr., og skrifstofustjóri með 7200 kr. Þetta verða samtals 30600 kr. við þetta bætist svo laun skrifstofumanns, 2400 kr., verða þetta samtals 33 þús. kr. og þar að auki húsnæði, ljós og hiti, og margvíslegur annar kostnaður, sem ég hygg, að gæti fallið niður, ef þetta yrði lagt undir fisksölusambandið, og auk þess störf þriggja manna með samtals 21 þús. kr. í laun, sem ég hygg, að mætti að miklu leyti spara. Það er því sannað og óvéfengjanlegt, að sparnaðurinn myndi nema milli 50 og 60 þús. kr. Væri réttara að verja því fé til þess að reyna að bæta eitthvað úr því neyðarástandi, sem ríkir meðal útvegsmanna, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. í gær. Hæstv. ráðh. myndi að minni hyggju taka afleiðingunum af því með því að falla frá að halda uppi slíkri stofnun. Þó að hún sé að sumu leyti þeirra eigin verk, þá er það eigi til hneisu, þó að menn falli frá fyrri villu, ef menn sjá að það er rétt, þó að síðar sé.