28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Þegar ég var að víkja af fundi, hafði hv. 2. þm. Reykv. vikið sér með miklu offorsi að stjórnarnefnd S. Í. F. og mér persónulega. Flokksmenn mínir skrifuðu niður nokkur ummæli hans, sem ég tel ekki rétt að láta vera alveg ómótmælt.

Hann hafði byrjað á því að halda því fram, að ég hefði farið niðrandi orðum um þá menn, sem sæti eiga í fiskimálanefnd. Þetta er hin mesta fjarstæða. Ég hefi, engar persónulegar árásir gert á þessu menn og aldrei komið það til hugar. Mitt álit er, að „að undanskildum amtmanninum“ séu þeir að ýmsu leyti hinir nýtustu menn. (GSv: Hver er amtmaðurinn). Hv. þm. V.-Sk. hlýtur að vera svo lögfróður, að hann skilji það. Ég hefi aðeins haldið því fram og rökstutt það, að n. væri óþörf, en það er ekki af neinni óvild til þeirra manna, sem í henni sitja. Ég tel það sjálfsagt tillit gagnvart útgerðinni, að spara henni óþarfan kostnað, og þessvegna vil ég leggja niður þessa óþörfu n. sem sjálf er dýr og hefir mikið starfslið.

Þá hafði hv. 2. þm. Reykv. farið í mannjöfnuð, þar sem hann og Guðmundur Ásbjörnsson væru annarsvegar, en ég og hv. þm. Vestm. hinsvegar. (HV: Skelfileg vitleysa). Ég ætla eigi að taka þátt í þeim mannjöfnuði, nema að því leyti sem hann snertir okkur hv. 2. þm. Reykv.

Það er rétt, að ég er enginn sérfræðingur í útvegs- eða fisksölumálum. En ég hefi þó dvalið langvistum í útvegsbæ, haft mína takmörkuðu afkomu af sjávarútvegi og setið alllengi í stjórn útgerðarfélags. Ég skal játa, að þetta eru ekki mikil skilyrði fyrir því að hafa vit á þessum málum, enda veit ég manna bezt sjálfur, að ég þyrfti að hafa meiri þekkingu á þeim. En þó er það nú svo, að ég er kosinn í stjórnarnefndina, en hv. 2. þm. Reykv. hefir látið þröngva sér þangað inn með valdboði. Nú mætti spyrja, hvers vegna ég, sem sjálfsagt stend ýmsum að baki um þekkingu á þessum málum, hefi verið kosinn í n. Ég held það sé af því, að fiskframleiðendur hafa treyst því, að ég bæri yfirleitt velvildarhug til útgerðarinnar og myndi vinna eins vel fyrir hana og ég gæti. En hinsvegar hafi orðið að troða hv. 2. þm. Reykv. inn í hana, af því að enginn, sem þarna í hagsmuna að gæta, hafi haft trú á því, að hv. þm. vilji verða sjávarútveginum að liði.

Ég vil nú gera hv. 2. þm. Reykv. tilboð, sem hlýtur að vera kostaboð frá hans sjónarmiði. Ef hann getur fengið 1/4 fiskframleiðenda til þess að óska þess, að ég víki úr n., þá mun ég gera það, en ef hann getur ekki fengið helming þeirra til þess að óska eftir, að hann verði þar kyrr, þá dragi hann sig í hlé frá þessum málum. Ég veit að vísu, að honum muni verða sárt að skiljast við þessar 5400 kr., sem hann fær í fiskimálanefnd, og von sína um svipaða upphæð í stjórnarnefnd S. Í. F. Ég veit, að það er jafnan sárt fyrir menn að skiljast við sína nánustu. En ég veit, að hv. þm. er svo þroskaður maður og hefir svo oft orðið að láta á móti sér, að hann muni taka þessu með þolinmæði og skilningi.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði orðið að neyða S. Í. F. til þess að senda mann til Suður-Ameríku, og frumkvæðið að því hafi komið frá fiskimálanefnd. Ég athugaði því gerðabók stjórnarnefndarinnar frá 15. ágúst síðasti. Þar er þetta bókað: Form. lagði fram svohljóðandi tillögu: „Stjórnin samþykkir að senda nú þegar sendimann til Suður-Ameríku og Cuba, til þess að athuga markaðshorfur og sölumöguleika í þessum löndum“. Tillagan var samþ. í einu hljóði.

Það var því ekki hv. 2. þm. Reykv., heldur form. n., sem bar þessa till. fram. En þó kemur hann við þessa sögu. Hann gerir tillögu í sömu n., sem einnig er bókfærð. Hún er á þessa leið: „Framkvæmdastjórninni er falið að semja við Runólf Sigurðsson starfsmann S. Í. F. um að fara f. h. S. Í. F. í markaðsleit til Cuba, Bandaríkjanna og annara ríkja þar um slóðir sem líklegt þykir, að selja megi til íslenzkan fisk“. Samþykkt var að fresta ákvörðun um tillöguna. Það, sem hér skilur þá á milli, er það, að það er form. stjórnarnefndar S. Í. F., sem fyrstur ber fram till. um að láta leita markaða í Ameríku, og sú till. er að formi alveg ólastanleg, eins og búast mátti við af svo viti bornum manni. En svo þegar hv. 2. þm. Reykv. fer að krafsa í þetta á eftir, þá er markaðsleitin ekki lengur aðalatriðið, heldur það, að ákveðinn maður sé sendur. Ég taldi það til minnkunar, að slík tillaga væri samþ. af stjórn S. Í. F. og lagði því til, að ferðin yrði falin framkvæmdastjóra Kristjáni Einarssyni. Sú tillaga var samþykkt, þrátt fyrir andmæli hv. 3. þm. Reykv.

En svo kom frá fiskimálan. eftirtektarvert svar, sem skoða má sem áframhald af taktleysi hv. 2. þm. Reykv., sem fram hafði komið hjá honum, er hann krafðist þess, að sendur yrði einn ákveðinn maður, áður en ákveðið var, hvort nokkur maður yrði sendur. Ég vona, að hæstv. forseti leyfi mér að lesa hér þetta bréf, þó það sé nokkuð langt, af því það upplýsir svo vel, með hvernig hug þessi hv. þm. tekur samstarfstilboði S. Í. F. Bréfið er svo hljóðandi:

„Út af heiðruðu bréfi fisksölusambandsins, dags. 10. október þ. á., leyfum vér oss að tilkynna yður, að vér munum, ef vér fáum samþykki atvinnumálaráðherra til þess, vera fúsir að leggja til hálfan ferðakostnað og hálft kaup manns, sem færi í markaðsleit til Cuba, Bandaríkjanna og annara ríkja í vesturheimi, sem líklegt þykir, að selja megi til íslenzkan fisk að þessu tilskyldu:

að ver samþykkjum fyrirfram sendimanninn og starfssamning við hann,

að umsamið sé fyrirfram um hóflegt kaup, og takmark sett við upphæð ferðakostnaðar sendimanns,

að sendimaðurinn sé ráðinn til þess að starfa að minnsta kosti 6—12 mánaða tíma og hafi ekki önnur störf með höndum,

að vér fáum mánaðarlega skýrslur um starfsemi sendimannsins,

að hann athugi markaðshorfur fyrir allskonar fiskiafurðir, þar með talinn harðfiskur og síld, og standi í beinu sambandi við oss hvað snertir annan fisk og fiskiafurðir en saltfisk.

Hinsvegar viljum vér taka fram, að ef svo skyldi fara, að framkvæmdastjóri eða starfsmaður S. Í. F. yrði sendur stutta ferð, t. d. 2—3 mánuði, í söluerindum til þessara eða annara landa, þá munum vér telja slíka ferð heyra beint undir S. Í. F. og ekki telja gerlegt að taka þátt í þeim kostnaði, sem þar af flyti“.

Það er m. ö. o., ef fiskimálanefnd tæki þátt í sendingu manns í markaðsleit, þá var það bara til þess, að ákveðinn maður fengi að ferðast þetta, og hann skyldi endilega vera 6—12 mánuði í ferðinni. S. Í. F. skyldi engu ráða um það, hvað sá maður ætti að gera, hvert hann færi eða hver hann væri, þá sem sagt ætlaði fiskimálanefnd að kosta för hans að hálfu leyti. En ef sendur yrði forstöðumaður eða starfsmaður S. Í. F., sem vit hefði á starfinu og færi í ákveðnum tilgangi, þá sér fiskimálanefnd sér alls ekki fært að taka þátt í sendiförinni. Er ekki tímabært að leggja niður n., sem þannig skilur sitt hlutverk? Forstjóri S. Í. F. svaraði því, að ómögulegt væri fyrirfram að gera grein fyrir því, hver ferðakostnaðurinn yrði né hve langan tíma ferðin myndi taka. Sendimaðurinn færi til þess að reka ákveðin erindi og yrði að fá greiddan ferðakostnað samkv. reikningi, sem samþykktur yrði eftir á. Fiskimálan. krafðist þess, að ákveðinn maður yrði sendur, en það mætti ekki vera framkvæmdastjóri, sem hefði vit á starfinu, og ennfremur krafðist hún að fá upplýst fyrirfram, hver ferðakostnaðurinn yrði, sem ómögulegt var þó að vita. Ég hefi fundið mér skylt að skýra frá því, hvernig þessi n. hefir komin fram í því máli, sem hún átti að fjalla um, og hefi svo raunar engu við þetta að bæta. Ég hefi sýnt fram n þetta til þess að hnekkja ranghermi og misskilningi hv. 2. þm. Reykv. Ég vil þó ekki ljúka máli mínu án þess að hnekkja einu í ræðu hans, sem snerti utanþingsmann, en það er form. stjórnar S. Í. F. Hv. þm. var með svigurmæli í garð þess manns. Sá maður er að vísu meir en fær um að svara, en hann á ekki sæti hér á Alþingi. Hv. þm. sagði á þá leið, að hann hefði þau kynni af form. S. Í. F., að hann teldi betur farið, að málum S. í. F. væri stjórnað á öðrum stað, þ. e. a. s. hjá fiskimálanefnd. Ég ætla að taka mér til fyrirmyndar orð eins hins vitrasta manns, er setið hefir hér á þingi, Jóns Magnússonar, er hann viðhafði við svipað tækifæri og hér er fyrir hendi, þegar einn þm. fór að bera brigzl á utanþingsmann. sómamanninn Björn Jónsson ritstjóra. Við bankastjóri þjóðbankans og ég höfum verið og erum það ég bezt veit andstæðingar í stjórnmálum. Þrátt fyrir það hefir mér aldrei eitt augnablik dottið í hug annað en telja hann einn hinn mikilhæfasta mann þessarar þjóðar. Og þegar hv. 2. þm. Reykv. fer í mannjöfnuð á sér og honum, þá tek ég mér í munn orð þess manns, er ég áður gat: að þessi maður gæfi yfir hv. 2. þm. Reykv. eins og himinhátt fjall yfir hundaþúfu.