25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

19. mál, hafnsaga í Ísafjarðarkaupstað

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. með mörgum orðum. Það er flutt samkv. einróma samþykkt hafnarnefndar og bæjarstj. á Ísafirði, og miðar aðeins að því að samræma hafnarlög og hafnsögu Ísafjarðarkaupstaðar á sama hátt og gert hefir verið í Reykjavík.

Ég hefi að vísu séð þess getið í einu af andstöðublöðum Alþfl. hér í bænum, að frv. þetta mundi einungis vera flutt til þess að koma núv. hafnsögumanni á Ísafirði frá starfi sínu. En sú getgáta er á engum rökum byggð. Sá maður, sem starfinu gegnir nú, er heilsulítill og hefir ekki stundað það sjálfur um tíma. Auk þess er hann fallinn frá vegna laganna um aldurshámark embætti manna. Þess vegna er sérstaklega heppilegt að breyta nú um tilhögun á þessu starfi. Núverandi hafnsögumaður er skipaður af ríkisstj., en í frv. er gert ráð fyrir, að hafnarnefnd og bæjarstj. Ísafjarðarkaupstaðar skipi hafnsögumenn, en ekki ríkisstj.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.