21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

42. mál, póstlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hv. 1. þm. N.-M., að þetta mál fór fram hjá mér í Nd. þangað til við 3. umr., en þá var það í samráði við mig, að hv. 4. landsk. flutti brtt. um þetta sama efni og ég flyt nú í þessari d. Sömuleiðis get og viðurkennt það sem vanrækslusynd hjá mér, að ég athugaði ekki að tala um þetta mál við þá n., sem fékk það til meðferðar. Ég skal ekki um það segja, hvort það hefði haft áhrif, en það hefði mér þó kannske borið að gera, fyrst ég vildi, að frv. væri breytt.

Ég hefi enga trú á því, að flutningarnir aukist, þó að burðargjöldin lækki; ég hygg, að menn hafi hingað til komið blöðunum áleiðis þrátt fyrir þetta hátt gjald og enginn hörgull sé á blaðasendingum út um land, Ég sé því í raun og veru ekki ástæðu til að lækka þetta gjald, og um það ættu menn þó a. m. k. að geta orðið sammála, að láta þetta ekki koma til framkvæmda á þessu ári, því að það er engin knýjandi nauðsyn til, að menn fari að lækka gjaldið á yfirstandandi ári.

Það má benda á fjölda margt fleira, sem mönnum kynni að þykja ástæða til að breyta, þó að þeir vilji ekki fyrir það rjúka í að breyta lagafyrirmælum, sem hafa áhrif á gildandi fjárl., en láta sér nægja að bíða þangað til hægt er að taka slíkt til greina í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Hv. 4. þm. Reykv. segir, að kreppan komi niður á blöðunum eins og öðrum. Það kann að vera rétt, en ekkert hefir samt orðið vart við, að minni sé eða verri úthlutun á blöðum nú en áður. Mér hefir sýnzt, að þar sé enginn munur á því, sem áður var.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en mun sætta mig við úrslit atkvgr.