21.03.1935
Neðri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

10. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég vil ekki hafa mörg orð um þetta mál nú, af tveimur ástæðum. Af því í fyrsta lagi, að ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til n., sem ég á sæti í og hv. flm., og verður þá tækifæri til að ræða málið í n., og í öðru lagi vegna þess, að ég er á margan hátt sammála flm. málsins. Hann hefir flutt, með dálítið öðru orðalagi, ræðu, sem ég hefi flutt á flestum þeim Alþ., sem ég hefi átt sæti á, sem rök fyrir samskonar breyt., sem ég þá hefi flutt frv. um, en ekki hafa náð fram að ganga, bæði af því, að flokkarnir í Alþ. hafa verið nokkuð klofnir um málið, og a. n. l. af því, að búnaðþingið sjálft hefir ekki staðið saman um kröfurnar, og í það hefir verið vitnað af þeim, sem talað hafa á móti þessu máli.

Eins og hv. 7. landsk. tók fram, stendur nú yfir búnaðarþing, sem einróma styður kröfur frv. Og ég vona, að það bergmáli svipað hér á Alþ. og vil vænta þess, að nú blási byrlegar en áður fyrir þessu máli. Nú er verið að skipa n. til þess að koma með till. um samband á milli Búnaðarfél. Ísl. annarsvegar og ríkisvaldsins hinsvegar.

Ég er sömu skoðunar og alltaf áður, að hvaða atriði fleiri, sem kunna að verða dregin inn í breyt. á skipulagi Búnaðarfél. Ísl., þá sé þetta höfuðatriði, sem sjálfsagt sé að koma í lag eins fljótt og mögulegt er, vegna starfsemi félagsins.