14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

Kæra um kjörgengi

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki rétt til annars en að gera hér örstutta aths., enda hygg ég, að það muni nægja mér.

Ég sé ekki ástæðu til þess að skipta mér frekar af þeim ummælum, sem hv. þm. S.-Þ. hafði í sambandi við þetta mál, fyrst og fremst af því, að hans langa ræða í dag liggur að mestu leyti fyrir utan það, sem um er deilt; það var meir til gamans heldur en að hægt væri að taka það alvarlega. Ég get ekki heldur verið að skipta orðum við sakborninginn í þessu máli. Mér skilst, að hann hafi staðfest það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um hann fyrir kosningarnar, að hann gerðist nú mjög gamlaður. Það er ekki hægt að halda virðingu á þingi með því að segja aðra sekúnduna: „Ég er í Bændaflokknum“, en svo aftur hina: „Það er búið að reka mig úr flokknum“ eða „ég sagði mig úr honum.“ Slíkur rökstuðningur er ekki til þess laginn að festa menn í trúnni á því, að landinu sé vel borgið með því að slíkur maður hafi úrskurðarvaldið á þingi Íslendinga.

En að ég kvaddi mér hljóðs, var út af orðum hæstv. forseta, þeim er áðan féllu. Hann vildi leggja þann skilning í flutning brtt. minnar, að ég með flutningi hennar viðurkenndi, að skilningur hans á þessu máli væri réttur, og þar af leiðandi, að skilningur sá, sem hv. þm. V.-Sk. - studdur af hv. 1. þm. Skagf. - hefir mest barizt fyrir, væri rangur. Þetta er hinn mesti misskilningur. Hæstv. forseti er svo vel viti borinn maður, að honum ætti að vera það ljóst, að með till. minni meinti ég það eitt, að gefa þeim mönnum, sem eru á sömu skoðun í þessu efni og hann lýsti yfir að væri sín skoðun - og ég geri ráð fyrir, að hann meini yfirleitt það, sem hann segir, og ætlast ég til, að hann geri mér sama rétt og ég honum og geri mér ekki upp aðra skoðun en ég get tilefni til - að gefa þeim tilefni og tækifæri til að sýna trúnað sinn við anda stjskr. Mér er það ráðgáta, að jafnvitiborinn maður og hæstv. forseti er skuli halda því fram, að með því að greiða minni till. atkv. sé hann að meta persónulegar ástæður, sem komi til tilfinninganna, eins og hann tvisvar sinnum hefir sagt. Frá mínu sjónarmiði er þetta úr lausu lofti gripið. Ég tók það skýrt fram, að það snerti ekki kjarna málsins, af hvaða ástæðu M. T. hefir gengið úr Bændafl. Með minni till. er á engan hátt farið fram á, að þeir, sem henni greiða atkv., dómfelli M. T. fyrir að hafa farið úr Bændafl. Ég vil aðeins hitt, að hann taki rökrétta afleiðingu af þeirri staðreynd, að hann hefir farið úr Bændafl., af hvaða ástæðu sem það er.

Hæstv. forseti sagðist vilja sýna trúnað sinn við stjskr. með því að fylgja henni, og eins og ég sagði í dag, getur hann sýnt trúnað við þann bókstaf, sem stjskr. innibindur, með því að greiða hinni rökst. dagskrá meiri hl. n. - að minni till. viðbættri - atkvæði. Þetta er óhrekjanlegt og alveg tvímælalaust, að honum hér að greiða atkv. með því, að þessi umtalaði hv. þm. víki af þingi. Eða ætlar hæstv. forseti að halda því fram, að það hafi vakað fyrir honum og Jóni heitnum Þorlákssyni í öllum þeim umr., sem þeir áttu um þetta mál, að það mætti ske skömmu ettir að flokkur hefði fengið úthlutaðan uppbótarþm., að þá gæti þessi sami þm. svikið sinn flokk og samt setið á þingi? Hvert einasta orð, sem um þetta var talað, hné í þá átt að skapa sem varanlegast jafnvægi með uppbótarþm. Aldrei var borinn kvíðbogi fyrir öðru en því, hvort tala uppbótarþm. nægði til þess að skapa fullnægjandi jafnvægi. Ég fullyrði það alveg hiklaust, að bæði hæstv. forseti og hinn látni formaður Sjálfstfl. hafi alla stund gengið út frá því, að þetta jafnvægi skyldi haldast, og alla stund lagt áherzlu á, að það héldist. Ég fer ekki fram á annað við hæstv. forseta en að það, sem var skoðun hans undir þessum umr., sé ennþá skoðun hans og að hann lýsi nú yfir því, að jöfnuðurinn eigi að haldast - að þm., sem gengur úr flokki sínum, eigi jafnframt að víkja af þingi, úr því að hann náði þingsæti sem uppbótarþm. ákveðins flokks. Vilji þess vegna hæstv. forseti sýna trúnað sinn við stjskr. - og það sagðist hann vilja, enda hefi ég enga ástæðu til þess að vefengja það -, þá hefir hann tvöfalt tækifæri til þess, annarsvegar að sýna trúnað sinn við bókstafinn, sem hann sjálfur trúir, og hinsvegar þann anda, sem hann barðist fyrir.

Ég viðurkenni, að það er kannske fram á mikið farið við hæstv. forseta og flokk hans undir þeim kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi, að sýna þennan trúnað, því að öllum er það ljóst, að völdin velta á því, hvort meiri hl. Alþingis úrskurðar M. T. þingrækan eða úrskurðar honum þingsetu. Ég viðurkenni, að það þarf karlmennsku hjá hæstv. forseta og flokki hans til þess að halda trúnaði við hugsjónir sínar, en mig skyldi ekki undra hinsvegar, þótt svo gæti borið undir áður en langt liði, að flokkur hæstv. forseta geti átt einhverjum þeim atvikum að mæta, að hann óskaði að hafa ekki þurft að fella þennan dóm, sem flokkur hans fellir í þessu máli með því að bregðast stuðningi við mína till. - En hvað sem öllu líður, hefi ég talið það rétt, að það kæmi skýrt fram, hvað má sín meira í þessu efni, trúnaður okkar gömlu samherja við hugsjónir sínar í þessu máli eða tilhneigingin til þess að hanga við völd. Af þeim ástæðum hefi ég borið fram till. mína.

Ég vil mælast til þess af hæstv. forseta að taka til rólegrar athugunar - og róleg athugun er honum lagin -, hvort ekki sé rétt og tvímælalaust hjá mér, að í minni till. felist enginn dómur um það, hvort M. T. hafi haft lögformlega ástæðu til þess að fara úr flokknum eða ekki. En frá þeirri staðreynd verður ekki vikið, að hann er farinn úr flokknum, og öllum hlutaðeigandi er skylt að taka þeim afleiðingum, sem af því verða og fullnægja öllu réttlæti.