13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. hefir með þessum fáu og ómerkilegu orðum sínum sýnt það, að hann vill ekkert um efni frv. ræða, og þar með viðurkennt þann tilgang með frv. að leyna kostnaðinum við nefndirnar með því að færa hann af ríkissjóði, af því að verið er að launa óhæfum mönnum. Þessi piltur, sem annars er bezt til þess fallinn að rífast og munnhöggvast, viðurkennir þetta með þögninni.

Það er almennt álit þingmanna, að þær nefndir, sem hér er um að ræða, séu of fjölmennar. Framsóknarmenn segja, að sósíalistar séu svo kröfuharðir fyrir sína karla. Þetta má vel vera, en það er nú einmitt þetta sem framsóknarmenn hafa verið síðustu 8 árin, og eru því nú búnir að koma sér vel fyrir, og sósíalistar að vísu líka. Í þeim efnum þarf því hvorugur að brigzla öðrum, en báðir rista þeir breiða þvengi af annars skinni, þjóðinni til skaða og bölvunar.

Ég veit ekki, hvort ég á að vera að færa rök fyrir ummælum mínum um séra Sveinbjörn Högnason, formann mjólkursölunefndar. (Fjmrh.: Er ekki bezt að hv. þm. ráði því sjálfur?). Þá skal ég gera það. Maður, sem á að verzla fyrir bændur, en meiri hluti neytenda vill hvorki heyra né sjá, hann er skaðlegur þeim, sem hann á að verzla fyrir, og einnig þeim, sem hann á að verzla við. Hinsvegar hefir hann gagnað vissum pólitískum flokki með því að ljá fylgi sitt til þess að hann fái marga tugi þúsunda á ári hverju í flokkssjóð sinn af brauðasölu. Það ætti ekki að vera ofraun fyrir meðalgreindan mann að sjá, að slíkum manni er tilvinnandi að borga margfalt meira fyrir að vinna ekki slíkt starf heldur en vinna það.