26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Magnús Guðmundsson:

Mér þótti hæstv. forsrh. nota sér svo freklega sína aðstöðu til að tala hér, þegar hann vissi, að allir mínir flokksmenn, sem tekið hafa að sér að halda uppi svörum í þessu máli, er dauðir frá umr., að ég verð að hlaupa í skarðið.

Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að hann ætlaði að verða landsfaðir bænda og ekki að láta undan í þessu máli, því að bændur gætu aldrei komið sér saman, þeir myndu alltaf deila innbyrðis. (Forsrh.: Ekki hefi ég nú sagt þetta). Þess vegna myndi hann standa og falla með málinu. Ég skil vel, að hæstv. ráðh. geri þetta að kabinettspursmáli, því að hann getur ekki annað. Hann er í bandi hjá jafnaðarmönnum og getur ekki hreyft sig, þó að flokksmenn hans séu farnir að falla frá honum. Hv. þm. Mýr. hefir t. d. flutt brtt. við frv., sem borið var hér fram á Alþ., en hæstv. ráðh. vill þó ekki taka neitt tillit til þess. Ráðh. er líka kunnugt um ýmsa flokksmenn sína, að þeir greiddu á fundi um daginn atkv. á móti hæstv. ráðh. En þó að hann hafi í þessu máli allan Sjálfstfl. á móti sér og þar að auki margt af sínum eigin flokksmönnum. þá ætlar hann samt ekki að hreyfa sig, enda getur hann það ekki, því að hann er í bandi jafnaðarmanna. Hæstv. ráðh. getur því sagt, að hann geri þetta mál að kabinettspursmáli, því að ef hann ætlaði að falla frá málinu, myndu jafnaðarmenn ráðast á hann og segja við hann: Nú verður þú að fara.

Það er hlægilegt að heyra hæstv. ráðh. tala um frið, sem verði að vera í málinn. Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og hefi aldrei vitað annan eins ófrið rísa af svipuðu máli. Og þó er hæstv. ráðh. að tala um frið, sem hér eigi að ríkja.

Ég verð að segja það, að þó að orðið hafi handalögmál í Búnaðarfél., þá er það ekki mikið í samanburði við þau ósköp, sem gengið hafa á í mjólkurmálinu.

Um Korpúlfsstaðabúið eða deilurnar um það hefi ég ekki mikið að segja, því að ég hefi ekki mikið kynnt mér það mál. En ég veit ekki betur en að ráðh. hafi sjálfur látið búið fá sérstöðu um að hreinsa sína mjólk, í hátíðlegu bréfi rétt áður en hann sigldi til Kaupmhafnar í vetur. En þegar hann kemur aftur frá Khöfn, þá tekur hann aftur leyfið, étur það ofan í sig. Nú heldur hann því fram, að ekki sé ástæða til þess að láta Korpúlfsstaðabúið hafa sérstöðu, — en hví lét hann þá búið hafa sérstöðu áður?

Af því að mér þykja umr. um þetta mál vera orðnar nægilega langar, vil ég ekki tala hér lengur. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að þetta er mín fyrsta ræða, svo að ég get svarað honum aftur. Hann getur þá ekki skákað í því hróksvaldi, að ekki sé hægt að svara honum.