26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil ekki lengja umr. En út af fyrirspurninni, sem hv. 1. þm. Skagf. sló fram til að sýna, að Korpúlfsstaðabúinu hafi verið sýnd ósanngirni. Þá hefi ég margsýnt fram á, að þetta hefir ekki átt sér stað. Því hefir ekki verið mótmælt, að þetta bú hefir sömu aðstöðu og aðrir bændur í Mosfellssveit.

Þá er það viðvíkjandi bréfunum, sem sérstaklega er spurt um. Og nú vil ég biðja hv. 1. þm. Skagf. að taka vel ettir. Um leið og brtt. voru samþ., var það ákveðið að láta búin, sem haft höfðu rétt til að gerilsneyða mjólk, m. a. Korpúlfsstaðabúið, halda sama rétti áfram, sem fyrrv. landbrh. hafði veitt þeim.

Eins og ég gat um áðan, þá veitti hv. 10. landsk. Korpúlfsstaðabúinu sérrétt um að kaldhreinsa mjólk. Þótti ekki eðlilegt, meðan samsalan tók ekki verulega til starfa, að breyta þessu. En þegar samsalan tók til starfa, þá var Mjólkurfélagi Reykjavíkur veittur réttur til að gerilsneyða mjólk. Korpúlfsstaðabúinu var þá líka veittur þessi réttur og eins báðum mjólkurbúunum fyrir austan.

Mér er þessi fyrirspurn kærkomin, svo að ég geti skýrt frá því, að mjólkursölun. kom á fund minn til að óska eftir því, að réttur um gerilsneyðing mjólkur væri gefinn út til þessara búa. Ég sat á 2 tíma fundi við þá, og ég hélt fram, að það væri rangt að gefa nokkur slík réttindi til þessara búa. En það var vilji meiri hl. mjólkursölun. Þeir óskuðu, að leyfið yrði gefið út og fóru fram á það við mig, að ég gæfi það út til næstu 6 mánaða. Ég gaf síðan út bréf, sem veitti Ölfusbúinu, Mjólkurbúi Flóamanna og Korpúlfsstaðabúinu leyfi til að gerilsneyða mjólk, fyrst um sinn. Ég vissi fyrirfram, að það myndi koma árekstur af því að senda út mjólkina frá svona mörgum búum, og það myndi hafa stóran kostnað í för með sér. Og þetta sýndi sig. Eftir 4 daga komu þeir úr mjólkursölun. og sögðu: Það er rétt, þetta er of dýrt, að fá mjólkina frá fleiri stöðum og senda út frá tveim stöðum. — Og þar sem mjólkin var ekki eins vel hreinsuð á Korpúlfsstaðabúinu eða búunum fyrir austan, þá var ekki ástæða til að halda leyfinu. Ég tók því þennan rétt af Korpúlfsstaðabúinu og Mjólkurbúi Flóamanna og Ölfusárbúinu. Og það sem hægt er að gera vegna þessa, er ótrúlegt frá byrjun. (MJ: Kom það ekki niður á Korpúlfsstöðum einum?). Það kom ekki niður á Korpúlfsstaðabúinu einu, heldur á fleiri búum. (MG: Hvað selja þau mikla mjólk?). Þau selja talsvert mikið og koma til með að selja meira í sumar. (MJ: Það er tekið af sumum, sem ekki er ætlað mikið).