02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

30. mál, útrýming fjárkláða

Þorbergur Þorleifsson:

Frummælandi þessa máls. hv. þm. A.-Húnv., sagði í framsöguræðu sinni, að fjárkláðinn væri hin mesta landplága. En væri þetta frv. samþ. óbreytt, hygg ég að, að það yrði hin mesta landplága fyrir þau héruð. Þar sem kláðinn er ekki, eða fé svo lítið sýkt, að auðvelt væri að ráða bót á því með þrifaböðum. Samkv. upplýsingum þeim, sem komið hafa í vetur um útbreiðslu kláðans þá hefir það sýnt sig, að sum héruð eru alveg laus við þennan vágest, og í ýmsum öðrum héruðum þannig ástatt, að auðvelt virðist að halda honum í skefjum með þrifaböðum.

Ég legg til, fyrir mitt leyti, að frv. þetta verði fellt. Sé ég ekki annað en hægt ætti að vera að taka fyrir útbreiðslu kláðans með þrifaböðum, og verð að álíta, að það sé fyrir trassaskap, þar sem þannig gengur til, að fjárkláðinn magnast.

Við þessar umr. hefir nokkuð verið talað um kostnaðinn, en það hefir verið gert allt of lítið úr honum. Hann er a. m. k. ferfaldur. Fyrsta, aukinn kostnaður við kaup á baðlyfi. Annað, kostnaður við vinnu. Þriðja, aukin fóðureyðsla, og í fjórða og síðasta lagi er kostnaður, sem enginn getur séð fyrir, hve mikill verður, eða talið með tölum, og það er hve mikið heilsa fénaðarins spillist við svona böðun hvað eftir annað. Það vita allir, sem við fjármennsku hafa fengizt, að gæta verður hinnar mestu varúðar við böðun að vetrarlagi og alla meðferð fjár í sambandi við hana, og að tíð böð gera féð óhraustara. Þetta síðasta atriði er kannske hættulegast í þessu máli. — Mér finnst ekki geta komið til mála að samþ. frv. eins og það liggur hér fyrir. Það gæti kannske komið til mála að samþ. það, ef það ætti aðeins að koma til framkvæmdar þar, sem kláðinn er á hæsta stigi, en þau héruð skýrt undanþegin, þar sem hann er ekki, eða þá á því stigi, að þrifaböð ættu að vera nægileg.

Ég þarf ekki að svara neinu af þeim rökum, sem hv. þm. A.-Húnv. kom með. Þau voru hvorki svo mörg né veigamikil, að þörf sé að fara um þau fleiri orðum.