06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1937

Guðrún Lárusdóttir:

Það eru aðeins örfáar brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram við fjárlfrv. Ég get verið stuttorð um þær, því að þær eru mjög svo augljósar, og hafa enda sumar legið hér fyrir þinginu áður. Fyrsta till. er við 17. gr. 5., um að við 5. lið bætist nýr liður: Til annara dagheimila og til að ráðstafa vangæfum börnum, eftir till. barnaverndarnefnda, gegn að minnsta kosti jafnháu framlagi annarsstaðar að. Það er nú svo, að það hefir hingað til verið fremur hljótt um þá starfsemi hér á voru landi. En ég sé, að nú hafa verið bornar fram till., sem ganga í svipaða átt og mín till., þar sem eru till. næst á undan þessari, og svo önnur frá fjvn. Mér hefði fundizt það vera „praktiskt“, hefði verið hægt að sameina sig um þessar till. og bera fram eina heildarupphæð, og hækka hana þá dálítið, til þess að öll dagheimilin og þeir aðiljar, sem hér er átt við, geti allir notið góðs af. En nú er þetta borið fram í þrennu lagi, og þykir mér líklegt, að eins og málinu er nú komið, mundi ekki verða nema einn, sem yrði þessa styrks aðnjótandi, og býst ég helzt við, að Hafnarfjarðar-dagheimilið mundi verða fyrir valinu. Ég verð að segja, að mér þætti það ófullnægjandi lausn á málinu. Í þeirri von, að hægt verði nú á fundinum að ná samkomulagi við fjvn. og hv. þm. V.-Ísf. um að sameinast um þessar till., þannig að enginn verði útundan, þá ætla ég ekki að sinni að mæla fleiri orð fyrir þessum till., en snúa mér að næstu brtt. minni. Það er mjög eðlilegt spor, sem ég stíg þar, frá æsku til elli, því að næsta brtt. mín, sem er við 17. gr. 33, fer fram á lítilsháttar fjárveitingu til elzta elliheimilisins, sem hér á landi starfar. Það er nú einn sinni þannig, að við, sem hér sitjum, eigum ef til vill eftir að glíma við gömlu elli og líklegast bera lægra hlut. Mér þykir það því ekkert óeðlilegt, þó við beinum hugum okkar að þessari till. og gerum upp við okkur, hvort við sjáum okkur ekki fært að greiða henni atkv. Grund hefir um 13 ára bil hýst fjölda gamalla manna. Þar hefir verið tekið á móti gömlu örvasa fólki, sem ekki hefir átt í annað skjól að venda. Ég þyrði vel að bjóða öllum hv. þm. að koma og sjá, hvenær sem er, fráganginn og meðferðina á þessu gamla fólki. Ég þori að segja það, að það þolir vel samanburð við beztu gamalmennahæli í þeim löndum, sem slík starfsemi hefir verið rekin í öldum saman, Og ég verð að segja það, að ég skil ekki, hvernig á því getur staðið, að Alþingi eða fjvn. hefir ekki séð sér fært að leggja til, að þetta heimili fái lítilsháttar styrk til starfsemi sinnar. Það er vitað, að þetta gamalmennahæli naut styrks þingsins áður fyrr, en það var svipt honum fyrir 2 árum. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að það er ekki síður erfitt fyrir stofnanir að komast af en einstaklinga nú á þessum krepputímum, og elliheimilið Grund hefir ekki farið varhluta af fjárhagsörðugleikum. Ég held, að enginn hv. þm. þurfi að hafa samvizku af því, þó að hann rétti slíkri stofnun hjálparhönd. — Það hafa verið sett inn í fjárl. 2 önnur elliheimili, og skal ég sízt hafa á móti fjárveitingu til þeirra, en ég vil ekki láta ganga á snið við það þriðja, sem er þeirra elzt og stærst, og hefir þar af leiðandi unnið þjóðinni mest gagn. Ég hygg, að það sé óþarfi að lýsa starfsemi þessarar stofnunar; til þess er hún of kunn. Það er öllum velkomið að koma þangað og sjá það, sem þeir vilja, og þangað hafa líka margir lagt leið sína, bæði útlendir menn og innlendir, og ég held, að allir séu samdóma um, að það fari vel um fólkið og því líði vel.

Ég ætla þá að víkja frá þessu og tala um annað málefni, sem er mér einnig hjartfólgið. Ég á hér brtt. við 22. gr., um 10 þús. kr. framlag til stofnunar drykkjumannahælis. Ég bar fram till. við 2. umr. um að leggja fram 20 þús. kr. til þess að undirbúa stofnun slíks hælis. Ég hefi bæði heyrt og séð átakanleg dæmi um þessa þörf, og ég veit, að það er líklega fátt í þessu þjóðfélagi, sem raunverulega er meira aðkallandi heldur en að eiga gott skjól og hæli fyrir drykkjumenn. Ég hafði gert mér von um, að þessari till. yrði tekið vel hér á þingi, enda þótt fjárhæðin væri svona há. Það kom mér því öldungis á óvart, þegar ég sá þá menn, sem ég bezt treysti og veit, að eru sannir bindindismenn og hafa árum saman talið sig það, greiða atkv. á móti þessari till. Ég ætla ekki að fara að vekja neinar deilur, en ég get ekki stillt mig um að segja: Hvar er bindindisáhugi þessara manna, ef hann kemur ekki í ljós, þegar um slíkt mál er að ræða? Ég ætla nú að reyna að bera till. fram í þessu formi, og til þess að skýra, af hverju ég geri það, ætla ég að segja hv. þm. dálitla smásögu, sem er sönn. Ef til vill hafa einhverjir heyrt hana, en sannleikurinn þolist oftar en einusinni. Það var listamaður, sem ætlaði sér að verða frægur, og til þess hugsaði hann sér að mála mynd, sem átti að gera nafn hans ódauðlegt meðal mannanna. Myndin átti að vera mannsmynd, sem táknaði allt hið fegursta og fullkomnasta í manninum. Hann einsetti sér að mála Kristmynd. Lengi leitaði hann að nógu fallegu andliti, og loks fann hann þetta andlit. Það var æskumaður í blóma lífsins, saklaus og hreinn. Þennan mann fékk hann til þess að sitja fyrir, og allir, sem sáu mynd hans, dáðust að henni. En málarinn hugsaði sem svo, að til þess að mynd unga mannsins nyti sín til fulls, yrði hann að mála aðra mynd, sem átti að tákna allt það ljótasta og andstyggilegasta, sem til er. Hann varð nú aftur að fara og leita og leita; loks fann hann í djúpum fangaklefa fjötraðan mann í synd og spillingu, og hann fékk leyfi til að mála hann. Þegar hann var að mála hann, varð hann ekki lítið forviða, er hann varð þess vísari, að þetta var einmitt sami maðurinn, sem hann hafði málað áður, þegar hann málaði Kristsmyndina. Þegar málarinn spurði fangann, hvað hefði valdið breytingunni, svaraði hann engu öðru en því, að það hefðu verið áfengir drykkir, sem hefðu komið þessu til leiðar. — Til þess að koma í veg fyrir, að slíkar myndir verði til í hinu íslenzka þjóðfélagi, ber ég fram till. mína um stofnun drykkjumannahælis. Ég hefi hugsað mér þetta drykkjumannahæli þannig, að það verði fyrst og fremst lækningastofnun fyrir þá menn, sem falla í hendur ræningjans Bakkusar. Það vakir fyrir mér, að ríkið kaupi til þess á sínum tíma jörð á hentugum stað til þess að byggja þar hús, sem notað yrði til hælis og lækningar fyrir þá menn, sem þjást undir oki áfengisins. Ég leyfi mér að stinga upp á því, að nokkur hluti þess fjár, sem gert er ráð fyrir í till. minni að verði veitt í þessu efni, mætti nota til þess að senda mann til útlanda til þess að kynna sér rekstur drykkjumannahæla þar. Ég held, að það fyrsta og bezta, sem við getum gert hér til þess að hrinda þessu máli af stað, sé að senda áhugasaman bindindismann, sem veit, hvað gera ber í þessu efni, og láta hann kynna sér hvað gert er í nágrannalöndunum. Þegar hann svo væri kominn heim, mundi hann leggja á ráðin um, hvað við ættum að taka til bragðs. Ég ætla ekki að vantreysta neinum af þeim hv. þm., sem hér eiga sæti. Ég vona, að þeir séu svo víðsýnir að sjá, hvar sem þeir standa í pólitík, að áfengisbölið er alþjóðarböl, sem við verðum að verja okkur fyrir.

Ég á þá aðeins eftir að minnast á smábrtt., sem ég á á þskj. 547, um fjárveitingu til landsfundar kvenna. Það hafa verið haldnir hér landsfundir kvenna tvisvar sinnum, og er í ráði að halda landsfund að ári. Til þessara fundarhalda þarf talsvert fé. Það getur enginn mælt því gegn, að konur, ekki síður en karlar, hafa þörf á því að lyfta sér upp, koma saman og ræða áhugamál sín. Konur úr ýmsum félagsskap víðsvegar að af landinu koma saman á einn stað og ræða þau áhugamálin, sem þær bera fyrir brjósti. Mér virðist þetta vera þörf starfsemi og ég hygg, að hv. þm. sjái ekki ástæðu til að sporna við þessari smáu fjárveitingu, eða 1500 kr., í þessu skyni.

Ég get svo látið máli mínu lokið að svo komnu, en vildi mikillega mælast til við fjvn. og flm. brtt., sem er á undan minni, um barnaverndarstyrk, hvort við gætum ekki talað um þetta og komið því saman í eina till. dálítið myndarlega.