25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég bjóst við því, að hv. þm. mundu svara ræðu minni á þann hátt, sem þeir hafa nú gert, þ. e. a. s. á þann hátt að svara engu. — Það, að hlustað var í símann af þeim sjálfum 1927, og sennilega miklu oftar, án dómsúrskurðar, segja þeir, að komi málinu ekkert við. Þeim sömu mönnum, sem nú dæma lögreglustjóra fyrir það að hafa kveðið upp úrskurð um að hlusta í tiltekin númer, finnst það ekki koma neitt málinu við, þó að þeir sjálfir hafi látið hlusta á andstæðinga sína í Ólafs Friðrikssonar málinu 1921. Og svo reynir hv. þm. G.-K. að snúa þessu öllu saman upp í létt gaman og grín, og það er heldur ekki nýtt, að hann spili slíka grínfígúru, sem hann hefir alltaf spilað meira að segja frá því, að hann var í skóla. Ég get þess vegna tekið þetta gaman hans eins og yfirleitt þetta venjulega hjal, sem hann er vanur að grípa til, þegar hann er algerlega kominn í rökþrot. — Þegar ég t. d. skýri frá því, að það séu óteljandi vitni að því, að það hafi 1921 verið hlustað á tiltekin númer án úrskurðar, þá svarar hv. þm. G.-K. því, að það muni hafa verið hlustað eftir að búið var að loka símanum, af því að 3 símanúmerum var lokað, þar á meðal hjá Alþýðublaðinu. Hvað ætli nú væri sagt, ef tekið væri upp á því að loka símanum hjá Morgunblaðinu, ef það hvetti til óeirða, eins og í bílstjóraverkfallinu í vetur? Hvað mundi þá syngja í andstæðingunum? — Nei, það er þýðingarlaust að reyna að snúa þessu upp í nokkurt grín. Það var ekkert grín, þegar sett var á almenn skeytaskoðun 1921 og hlustað var á símtöl borgaranna.

Þessir menn geta því sannarlega ekkert sagt viðvíkjandi lögreglustjóranum í Reykjavík, og það er þýðingarlaust fyrir þá að reyna að dæma ríkisstj. fyrir úrskurði og dóma, sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefir kveðið upp. Nákvæmlega með sama rétti mætti dæma ríkisstj. fyrir úrskurði og dóma, sem sýslumaðurinn á Blönduósi, hv. þm. Ak., kann að hafa kveðið upp, eða hv. 1. þm. Skagf. Þetta er því algerlega út í hött.

Hv. þm. G.-K. sagði m. a., að við hefðum verið saman í „hvítaliðinu“ 1921. Ég get nú sagt þá sögu, eins og hún var, að þegar ég var boðaður, kom ég einu sinni eða tvisvar, en neitaði svo að koma aftur, af því að mér fannst þetta svo hlægileg samkoma. Mér fannst satt að segja nóg um vitleysuna, þegar farið var að halda ræður yfir manni í Goodtemplarahúsinu um það, hvað maður ætti að borða til þess að vera vel undir það búinn að lenda í bardaga. Og þegar settir voru verðir til þess að stöðva friðsama borgara á götum bæjarins, þá fannst mér brjálæðið gengið svo langt, að ég neitaði algerlega að taka þátt í þessari vitleysu. Brjálæðið var sem sé gengið svo langt, að þessum mönnum fannst ekkert við það að athuga, þó að hlustað væri á símtöl manna hér í bæ og almenn skeytaskoðun sett á. Og svo rísa þessir sömu menn hér upp, sem stóðu fyrir þessum ósóma 1921, með vandlætingu gagnvart lögreglustjóra fyrir að hafa kveðið upp þessa úrskurði. Þeir gætu alveg eins ráðizt á hann fyrir einhverja húsleitarúrskurði, sem hann hefir kveðið upp.

Það eina, sem ríkisstj. þarf að svara fyrir í sambandi við þetta mál, — og það hefi ég gert — er sú árás, sem hv. 5. þm. Reykv. beindi gegn mér fyrir að hafa látið skoða skeyti í togaranjósnamálinu. Hv. þm. sagði, að með því hefði ég gefið fordæmi, sem samsvaraði því að láta hlusta á samtöl manna hér í bænum. En ég hefi sýnt fram á það með gildum rökum, að ég hafði fulla ástæðu til að gera þetta.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. Snæf. minntist á. Hann reyndi nú að svara — þó það væri með óþarflega miklum þjósti — með dálitlum rökum því, sem ég hafði haldið fram viðvíkjandi heimild minni til þess að skoða skeytin. Hann vildi álíta, að samkv. þeim heimildum, sem fyrir liggja, hefði mátt gefa út reglugerð um það að láta skoða loftskeyti til og frá togurum. Það hefir nú verið talað mikið um þessa heimild, en ég hefi ekki talið mér heimilt að nota hana, nema með því að færð væru veruleg gögn til sönnunar því, að skeytin væru misnotuð. Og það er sá stóri munur að þurfa að afla þessara sönnunargagna fyrst og hefja frumrannsókn áður en skeytin eru skoðuð, í staðinn fyrir að hægt væri að fyrirbyggja þessi brot. Og ég vil spyrja: Ef nægjanleg heimild er til þess að skoða loftskeyti togaranna, — hvers vegna greiða þá hv. stjórnarandstæðingar atkv. með frv. því, sem nú er komið fram um þetta efni? Er það ekki vegna þess að gamla heimildin er svo veik, að þeir þora ekki lengur að standa á móti því, að þessi lög séu samþ.? Þannig hafa þeir með sinni eigin atkvgr. lýst því yfir, að þeir séu nú á annari skoðun í þessu máli heldur en þeir hafa verið, því ef heimildin væri nægileg, — hvers vegna væru þeir þá að samþykkja þessi nýju lög?

Það er deilt á fyrrv. dómsmrh. fyrir það að hafa ekki notað þessa heimild. En þá má spyrja: Hvers vegna gleymdi hv. þm. G.-K. því, þegar hann var dómsmrh., að hann hafði þessa heimild? Hvernig stóð á því, að hann gleymdi þessari heimild, sem hann hafði haldið svo fast fram hér á Alþingi, að hver dómsmrh. hefði? Og hvernig stóð á því. að hv. 1. þm. Skagf. gleymdi henni í þau tvö ár, sem hann var dómsmrh.? Þeir gleymdu sem sagt að nota aðra heimild heldur en þá, sem felst í þeirri reglugerð, sem ég las upp. Þeir gleymdu ekki að setja á almenna skeytaskoðun til útlanda, þegar Ólafs Friðrikssonar málið var á döfinni. Þeir gleymdu engu nema því að skoða einmitt þessi skeyti, sem þurfti að skoða, þ. e. a. s. togaraskeytin. Það er bezt að spyrja þessa herra að því, hvers vegna þessi gleymska hafi átt sér stað, sem sannarlega er ekki afsakanleg hjá þeim mönnum, sem hafa haldið því fram, að þessi heimild væri fullnægjandi. Og svo koma þessir herrar og þykjast vera að deila á mig fyrir það að afla sönnunargagna til að upplýsa lögbrot.

Það er einmitt rétt að ræða þetta mál í sambandi við lögin, sem nú eru til umr., um heimild til þess að skoða loftskeyti togaranna, en það er einmitt það, sem hv. stjórnarandstæðingum er verst við. Öll þessi ólæti eru meðal annars sprottin af því, að nú er síðasta umr. um þetta mál, og þeir sjá fram á, að það verður samþ., og einnig af þeirri tortryggni, sem ríkir hjá þessum mönnum vegna misnotkunarinnar á símanum 1921.

Úrskurðir lögreglustjórans í Reykjavík ganga vitanlega til hæstaréttar, og þar verður dæmt um þá, en það er ekki Alþingis að dæma um það, hvort þeir eru réttir. Og þess vegna eru allar þessar ádeilur, eins og ég hefi margtekið fram, gersamlega út í hött.