28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

92. mál, forgangsréttur til embætta

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það kann að vera nokkur ástæða til þessa misskilnings, sem kom fram í ræðu hv. 1. landsk., en þeir, sem frv. fluttu, leggja þann skilning í það, að hér sé aðeins átt við Íslands sögu, íslenzkar bókmenntir og íslenzka tungu.

Orðið „íslenzkum“, sem stendur í frv. á undan orðunum „íslenzkri tungu, sögu og bókmenntum“, á við allar þessar þrjár greinar, enda eru ekki aðrar greinar kenndar við Háskóla Íslands í þessu efni. Almenn mannkynssaga stendur þar utan við. Ef mönnum fyndist ástæða til, þá mætti hafa það skýrara, að orðið „íslenzkum“ næði til allra þessara greina. En ég hygg þess vart þörf, sérstaklega þegar það nú kemur fram í umr.

Þá vil ég geta þess, að þó að það sé talið í frv., að það þurfi að vera fullt kennarastarf til þess, að norrænukandídatar hafi forgangsrétt fram yfir aðra, á n. við það, að þó að kunni að vanta nokkra tíma upp á fulla kennslu, þá nær forgangsrétturinn engu að síður til þeirra, sérstaklega ef ekki er farið í kringum þetta ákvæði með því að draga úr íslenzkukennslunni. En n. hikaði þó við að setja nokkurt sérstakt lágmark, eins og það, að þessi námsgrein skyldi nema 70–90% af kennarastarfinu, og er þá fullvíst, að þessu er ekki misbeitt í framkvæmdinni.

Þetta tek ég sérstaklega fram í samráði við forstöðumann heimspekideildar háskólans.