21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það hefir náttúrlega komið í ljós undir þessum umr., svo sem vænta mátti, að starfsemi þessa skóla muni verða þrennskonar. Í fyrsta lagi verklegt nám, í öðru lagi bóklegt nám og í þriðja lagi, sem a. m. k. hv. frsm. meiri hl. minntist á, tilraunastarfsemi í sambandi við skólann.

Þegar á að gera það upp, hvort unnt sé að búnaðarskólarnir taki við þessu hlutverki, þá koma til athugunar þessi atriði öll, og þá í fyrsta lagi bóklega námið.

Ég fæ nú ekki séð, að það séu að neinu leyti meiri líkur til, að bóklega námið geti farið fram austur á Reykjum í Ölfusi en í sambandi við auka fræðslu í búnaðarskólunum.

Hvað tilraunirnar snertir, sem hv. frsm. var að tala um, þá álít ég, að á þessu sviði eigi að ræða um hlut, sem hefir almenna þýðingu, en svo er alls ekki um garðyrkju, sem rekin er á jarðhitasvæðinu. Slíkar tilraunir eiga að beinast að almennri starfsemi, og til þess eru skilyrði fyrir hendi á búnaðarskólunum. Hvað verklegu námið snertir, hefi ég bent á það, að full skilyrði eru fyrir hendi, að það fari fram á búnaðarskólunum, og hefir ekki verið hrakið, að það er hægt a. m. k. í samvinnu við þau garðyrkjubú, sem þegar eru fyrir hendi.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að kostnaðarhliðinni. Það virtist koma fram hjá hv. frsm., að aðeins þyrfti lítið lán til þess að koma þessu af stað. Nú er vitað mál, að þarna vantar hús bæði fyrir skólastjóra, kennara og nemendur, og þetta mundi aldrei verða byggt nema fyrir talsvert fé, auk þess sem reksturinn mundi verða dýr. En á búnaðarskólunum myndi ekki þurfa að bæta við, þó húsin séu gömul. Ég veit, að það er rétt, sem hv. frsm. vék að; það mundi að vísu hafa nokkurn aukinn kostnað í för með sér, ef garðyrkjukennslan yrði aukin við búnaðarskólana, en sá kostn. yrði alltaf minni. Ég þarf ekki fleira að segja, þar sem ekkert nýtt hefir komið fram.