07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Pétur Magnússon:

Ég skrifaði undir álit landbn. um þetta mál með fyrirvara. Það, sem vakti fyrir mér með þeim fyrirvara, var raunverulega hið sama og komið hefir fram hjá hv. 1. þm. Reykv., og sem raunar var búið að koma fram áður í hv. Nd. Það er ómögulegt að neita því, að það liggur nærri, að kennsla í garðyrkju sé einmitt selt í samband við bændaskólana, þar sem ýms önnur kennsla fer fram í framkvæmd og vinnubrögðum í ýmsum jarðræktarmálum. Það nær ekki nokkurri átt, sem hv. 4. landsk. var að tala um, að sú kennsla, sem hér er um að ræða, sé svo fjarskyld þeirri kennslu, sem fram fer í bændaskólunum, að það sé svipað eins og guðfræðideildin væri sett í samband við alþýðuskólana. Það, sem gerði það að verkum, að ég vildi ekki setja mig upp á móti þessu frv., var það, að ég er ekki fjarri því að halda, að skilyrði til þess að reka garðyrkjuskóla séu að öllu samanlögðu betri á þeim stað, sem hér er gert ráð fyrir, heldur en við bændaskólana. Það er beinlínis af því, að þar getur verið um ræktun bæði í heitri jörð og kaldri að ræða. Mér er það ljóst, að garðyrkjan þarf að fara í vöxt hér á landi, og það hefir margsinnis verið á það bent, hvílíkt hneyksli það væri, að árlega skuli vera fluttar inn kartöflur fyrir fleiri hundruð þúsund krónur, og það er vissulega fleira en kartöflur, sem við gætum ræktað hér til hagnaðar og ekki síður til búsþæginda til þess að bæta viðurværi fólks. T. d. hafa fram að þessu verið svo að segja óþekktar hér nema fáar káltegundir, þótt vitað sé nú, að fjöldi þrífst hér vel bæði í heitri og kaldri mold. Einnig er vitanlegt, að margar garðjurtir er hægt að rækta hér, sem ekki þrífast vel nema í hlýrri mold. Á þessum stað eru skilyrðin þannig, að þar er unnt að stunda garðyrkju bæði í hlýjum jarðvegi og köldum. Það er ekki ólíklegt, að menn myndu sækja þennan garðyrkjuskóla af tvennum ástæðum, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á. Annarsvegar menn, sem ætluðu sér að hafa það í hjáverkum að rækta ýmsar garðjurtir fyrir heimili sín, og hinsvegar menn, sem ætluðu að hafa atvinnu af því. Nú er það vitanlegt, að víða eru harla góð skilyrði til þess að rækta ýmsar garðjurtir í hlýrri mold, og það er sérstaklega með tilliti til þess og þeirra manna, sem kynnu að villa hefjast handa um slíka ræktun í stórum stíl, að ég hefi ekki viljað setja mig á móti þessu frv. Náttúrlega verður maður að játa, að það er ekki annað en reynslan, sem sker úr um það, að hve miklu gagni þetta kemur í framtíðinni. Hitt verða menn þó að vera aummála um, að það er naumast vansalaust fyrir okkur, að ekki skuli vera annars kostur en að sækja, menn til annara landa þar, sem á að rækta garðjurtir í stórum stíl. Maður verður að ætla, að ef slík kennsla kæmist á, yrði sú breyting á í þessu efni, að menn gætu fengið þá kunnáttu, að þeir yrðu hæfir til þess að stunda þessa atvinnu. Það hefir verið svo t. d. á stórbýlunum hér uppi í Mosfellssveit, þar sem garðrækt hefir verið rekin í stórum stíl, að þess hefir ekki verið kostur að fá innlenda menn, er hafi getað tekið þetta starf að sér. — Ég skal játa það með hv. 1. þm. Reykv., að það hefði verið mjög æskilegt, að fyllri áætlun hefði verið um þetta gerð. Ég býst þó við, að stofnkostnaðurinn við þetta geti ekki orðið mjög mikill, þar sem ríkið á þarna yfir landi að ráða, og þarna eru væntanlega nokkur mannvirki og áhöld, sem unnt yrði að nota einnig við þessa kennslu, og myndi þá verða til þess að lækka stofnkostnaðinn eitthvað. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að óttast, að kostnaðurinn af þessu verði svo risavaxinn, að ástæða sé þess vegna til, þar sem um nauðsynjamál er að ræða, að vera að setja sig á móti framgangi málsins.