21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

99. mál, jarðakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég gerði það með vilja, hv. þm. Borgf., að biðja ekki strax um orðið á eftir hv. frsm. minni hl., því að ég vissi vel, að ég mundi geta svarað mörgu af því, sem þið báðir segðuð, í einu lagi, enda komu sömu mótbárurnar frá báðum gegn ýmsu af því, sem ég hafði sagt.

Hv. þm. Borgf. talaði mikið um það, að jafnaðarmenn hefðu svínbeygt okkur framsóknarmenn, og honum þykir það hart, þegar því gerræði er beitt gagnvart manni, sem telur sig forsvarsmann sveitanna, og hann er þrælbundinn bæði á höndum og fótum, eins og hv. þm. telur, að gert sé við mig. Ég heyri, að hv. þm. les yfirleitt heldur lítið, meira að segja búnaðarrit, því að síðan 1912 hefir hann á hverju ári getað séð greinar um þetta mál eftir mig, svo að böndin, sem jafnaðarmenn hafa lagt á mig, eru orðin æðigömul, og ég held, að hann ætti að skjóta geiri sínum að öðrum en mér og öðrum en Framsfl. yfirleitt, því að þetta hefir verið stefna hans um langt skeið, og í þessu sambandi vil ég biðja hv. þm. að taka eftir því, að ég benti á það í minni fyrstu ræðu, að jarðaverð þeirra jarða, sem eru í sjálfsábúð, er í kringum 15 millj. kr., og ég benti á það, að húsverðið mundi líklega vera hærra. Ég benti á það, að hver kynslóð þarf að kaupa þessar jarðir af annari. Ég skal ganga inn á það, að ef ekki eru oftar eigendaskipti en við arftöku eða kaup, þá skipta þessar jarðir um eigendur einu sinni á kynslóð, og ég sagði, að það yrði léttara fyrir hverja kynslóð, ef hún þyrfti ekki á hverjum 40 árum að borga jarðarverðið aftur og aftur. Segið þið mér þá, hvernig þið hugsið ykkur, að bóndanum sé auðveldara að kaupa jörðina í ár og borga hana svo næstu 40 ár, heldur en að taka jörðina á erfðafestu fyrir sig og sína ætt og borga 3%. Segið þið mér, hvor þarf meira að borga.

Ég skil það vel, að það eiga margir örðugt með að átta sig á því, sem er nýtt og hefir ekki verið reynt. Þessir hv. þm. hafa bitið það í sig, hvernig þetta hefir verið, og það er ekki undarlegt, þó að þeir menn, sem eiga margar jarðir og þykir vænt um þær, eigi bágt með að gera greinarmun á því, hvort maður hefir eignarhald á jörð eða hann hefir full yfirráð yfir henni að öllu leyti, eins og það er eftir ábúðarlögunum. Ég hélt þó, að sumir hv. þm. í þessari d. væru búnir að sjá, að munurinn er heldur lítill. Þessir hv. þm. leggja mikið upp úr því, að það sé illa gert að fara þannig með bændur, þegar kreppan þjakar þeim. Hv. þm. Borgf. taldi hana stafa af óáran í fénu, harðindum og slæmu tíðarfari, en hv. þm. A.-Húnv. áleit, að orsakanna væri að leita í misbeitingu á valdi hins opinbera. Þessir hv. þm. kvarta yfir því, að kreppan þrengi að bændum, en samt þykir þeim illa gert að reyna að hjálpa þeim.

Sannleikurinn er sá, að með þessu frv. er ekki verið að taka jarðirnar af neinum. Það er síður en svo. Mönnum er gefinn kostur á því að selja ríkinu þær, og í sambandi við það reyna báðir þessir hv. þm. að gera mikið úr því, að þó að það sé ákvæði í b-lið 4. gr. um það, að eiganda sé tryggt, að jörðin fari í erfðaábúð, þá sé ekki hætt við, að hún verði það lengi, en ef hún sé aftur á móti í sjálfsábúð áfram, þá muni hún verða það. Það er eins og hvorugur þessar, hv. þm. hafi lesið c-liðinn. sem ákveður, að það megi aldrei kaupa jörð fyrir meira en á henni hvílir.

Hv. þm. Borgf. talaði um það, að ég hefði sagt, að allur vandi landbúnaðarins væri leystur, ef þetta frv. yrði samþ. En það er svo langt frá því, að mér hafi nokkurn tíma dottið slíkt í hug. Það eru vissulega fjölmörg vandamál eftir, þó að þetta frv. verði samþ.

Sömuleiðis benti ég á það í minni ræðu, að með þessu frv. væru jarðir teknar úr braski, og þess vegna væri minni hætta á því, að fjármagnið flyttist úr sveitunum í kaupstaðina heldur en ef þær gengju kaupum og sölum milli manna. Hvorugur hv. þm. úr minni hl. reyndi að andmæla þessu. Hvorugur þeirra reyndi heldur að benda á neina aðra leið til þess að hjálpa þeim bændum, sem nú er svo ástatt fyrir, að það er helzt útlit fyrir, að þeir missi jarðir sínar. Hv. þm. Borgf. sagði að vísu, að það mætti hjálpa þeim með því að veita ný lán. Þvílíkt bjargráð! Ætli þeir vildu ekki hlaupa undir það margir, sem geta ekki borgað af þeim lánum, sem nú hvíla á þeim, svo að hengingarólin snérist enn fastara að hálsinum á þeim? Það þarf að létta af bændum lánunum í stað þess að veita þeim ný lán.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði líka um það, að ef þetta væri tekið sem kreppuráðstöfun bændum til hjálpar, þá mætti finna ýmsar aðrar leiðir en þessar, en hann hefir ekki enn bent á þessar „ýmsar aðrar leiðir“. Hann verður líka að gæta þess, að þó að hann gæti fundið einhverjar aðrar leiðir, t. d. þá að veita bændum styrk, eins og hv. þm. Borgf. vildi láta gera, þá er ekki með því búið að létta neinu af bændum; það er ekki þar með búið að koma þeim í betra ábúðarfyrirkomulag sem geri þeim mögulegt að lifa betra lífi á jörðunum, en það er gert fyrir þá, sem vilja nota sér þetta frv. og uppfylla þau skilyrði, sem 4. gr. getur um.

Með því, sem ég hefi nú sagt, hygg ég, að flestum mótbárum þessara tveggja hv. þm. sé svarað.

Það, sem hv. þm. Borgf. lagði mesta áherzluna á, var það, að þetta væri samningur milli flokkanna, og jafnaðarmenn væru búnir að svínbeygja okkur framsóknarmenn. Eins og ég hefi þegar sagt, þarf ekki að binda mig í þessu máli, en ég vil gjarna geta bundið hv. þm. og aðra góða menn til fylgis við þetta mál. Ég hefi talað við marga sjálfstæðismenn — þar á meðal kjósendur úr kjördæmum hv. þm. G.-K. og hv. 7. landsk. —, sem hafa litið svo á, að þetta mál þyrfti endilega að leysa, hvað sem öðru líður. Ég þekki bændur úr Framsfl., sem eru með því, og aðra, sem eru á móti því, og ég þekki bændur úr Sjálfstfl., sem eru með því, og aðra, sem eru móti því. Það sýnir, að þetta er ekki flokksmál. Það fer eftir því, hvort þeir hafa vaxið upp í það að skilja, að erfðafestuábúð er eins góð fyrir bóndann, sem á henni býr, að því er snertir frjálsræði, og betri að því leyti, að með því þarf ekki stöðugt að vera að leysa út jarðarverð, svo að bóndinn hefir rýmri hendur til þess að búa í haginn fyrir sig og sína.

Hv. þm. Borgf. skal ég að lokum segja það, að ég er ekki hræddur við að sjá framan í mína kjósendur fyrir þessar sakir. Það er síður en svo. Það getur verið, að það sé eitt eða annað, sem þeir eru óánægðir við mig fyrir, en það er ekki fyrir þetta.