05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. þm. S.-Þ. spurði um það, hvaða úrræði ég vildi benda á í þessum vandræðum, ef ekki væri tekinn sá kostur, að ríkið keypti jarðirnar. Ég segi fyrir mig, að ég tel mig ekki undir það búinn að svara þeirri spurningu, enda getur það verið erfitt mál. Ég vil þó benda á, að það má vel orða þá till., sem kom fram frá minni hl. landbn. í Nd., að breyta 1. gr. frv. og láta hana hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að greiða kreppulánasjóði árgjöld ársins 1935 fyrir þá bændur, sem eigi hafa greitt það gjald fyrir 1. júní 1936, svo framarlega sem athugun á efnahag þeirra sýnir, að þeim sé ókleift að inna það af hendi, en hafa að öðru leyti aðstöðu til að halda áfram búrekstri.“

Ég vil benda á, að það má vel orða það, hvort þessi aðferð gæti ekki verið til mikils gagns, og ég efast ekki um, að hún er betri en sú, sem hér liggur fyrir.

Hann minnti á það, hvernig gæti farið, ef útlitið væri eins og það er nú á harðindasvæðunum. Eftir því, sem ég hefi hugsað mér, þá yrði það svo, ef allir væru landsetar, að þá mundu þeir þjóta upp til handa og fóta, segja jörðunum lausum og flýta sér í kaupstaðina. Þannig mundi þetta koma miklum fólksflutningum af stað, en þeir, sem hefðu eignarrétt ájörðum sínum, mundu sitja kyrrir, og nú blasir við þeim prýðilegasta framtíð, snjór er leystur og jörð komin upp, græn og ófrosin, svo að ástæður þeirra eru engu lakari nú heldur en annarsstaðar á landinu, þar sem betra hefir verið í vetur. Þetta getur bent á, að það er ekki alltaf gróði fyrir landbúnaðinn að þjóta í eitthvað flaumósa. Það er með seiglunni og fastheldninni við sinn bústað, sem bændur hafa barizt áfram gegnum margskonar örðugleika. Það er seiglan og átthagaböndin, sem þar hafa átt sinn drjúga þátt en með þessu sýnast þau verða miklu færri og veikari, og alltaf er verið að losa meira og meira um þá hnúta.

Ég verð að taka undir það, sem sennilega fyrrverandi kjósandi hv. 2. þm. S.-M. sagði og hann hafði eftir honum í sinni ræðu, að það væri sérstakt ólán, ef jarðirnar væru ekki í háu verði. Ég tel það mikið lán fyrir landbúnaðinn, að jarðirnar séu í háu verði, því að þá veit maður, að annaðhvort er prýðileg afurðasala eða góðæri eða hvorttveggja.

Ég vil ennfremur benda á eitt í þessu frv. Í 4. gr. þess stendur, að aldrei megi kaupa jarðirnar hærra verði en fasteignamat þeirra er. Ef þetta yrði að l., þá geri ég ráð fyrir, að reynt yrði af öllum, sem hafa í hyggju að selja jarðir sínar, að spenna þær sem mest upp við fasteignamat og koma þannig til leiðar tildursverði á jarðeignum, en svo verða allar lægra virtar. Annars virðist yfirleitt þetta frv. vera í áttina til þess að laða þá jafnaðarmenn, sem urðu svo óánægðir, þegar framsóknarmenn urðu svo stórvirkir að veru með óðalsréttarfrv., en þegar búið er að rétta fram litla fingurinn, þá er hætt við, að fljótt verði búið að hrifsa alla höndina.