20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

73. mál, fræðsla barna

*Pétur Ottesen:

Það virðist nú, að það sé nokkur upplausn í þinghaldi, enda er farið að líða að þinglokum, eftir því sem sagt er. Og vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann vildi prófa, hvort menn eru virkilega á brott viknir úr húsinu, eða hvort þeir væru í hliðarherbergjum, með því að láta þá heyra svolítið í bjöllunni. (Forseti: Sjálfsagt! — Hringir). Það virðist þá vissa fyrir því, að þessir vökumenn þjóðarinnar séu utan húsveggjanna, en ekki innan húss, úr því að aðvaranir forseta hafa ekki meiri áhrif en raun ber vitni um, og þá er að taka því. (PHalld: Það verður bezt að slíta fundi). Ég get frestað minni ræðu, ef vill. (Forseti: Mér virðist fullsómasamlega skipuð deildin, eftir því sem nú standa sakir). Litlar eru nú kröfurnar, sem hæstv. forseti gerir til stundvísi og árvekni þm., og vænti ég, að þetta komist inn í þingtíðindin. Réttast væri að láta nú fara fram nafnakall, til þess að vernda heiður þeirra fáu, sem eftir eru.

En viðvíkjandi því máli, sem nú er til umr. og ekki vekur nú meiri athygli en dæma má eftir fundarsókn hér nú, get ég mjög skírskotað til þess, sem hv. þm. V.-Sk. hefir í alllangri og snjallri ræðu á laugardaginn haldið fram um þetta mál. Hann sýndi það mjög ljóslega, að þeir, sem undirbjuggu þetta frv., hafa tiltölulega lítið hugsað um þá hlið málsins, sem snýr að sveitum þessa lands með þeirra sérstöku kringumstæðum að því er fræðslu barna snertir. Till. hafa miklu meir verið miðaðar við það ástand, sem er í þéttbýlinu, og þá sérstaklega í kaupstöðum landsins. Auk þess sem það er nú ekki neitt smávægilegt atriði í þessu máli, að það fáist sem allra víðtækast starfssvið fyrir þann mjög svo hraða vöxt, sem er í kennarastétt þessa lands, og búa í haginn fyrir hana svo sem bezt væru föng á. Er það í sjálfu sér ekkert undarlegt, fyrst og fremst þegar á það er litið, að það eru eingöngu kennarar, sem hafa fjallað um þetta mál og hefir starfssvið þessara kennara einmitt legið í kauptúnum og kaupstöðum þessa lands.

Hinsvegar virðast ekki hafa verið gerðar miklar né víðtækar athuganir um það, hvað mundi eiga bezt við úti um sveitir landsins. Þess vegna er það, eins og hv. þm. V.-Sk. benti svo greinilega, á, að þetta frv. ber alveg eindregin og ég vil segja nokkuð einhliða merki þess, að einmitt þessir menn hafa farið höndum um málin. En ég vil taka undir það með hv. þm. V.-Sk., að það má ekki bera kringumstæður sveitanna fyrir borð, þegar málið er til meðferðar og á að fá afgreiðslu á þingi, þó að svo hafi skipazt um val þeirra manna, sem undirbjuggu málið, og frv. hafi verið byggt á þeim grundvelli, sem þeir lögðu. Enda felst fullkomin viðurkenning á því, að þetta frv. hafi verið þannig úr garði gert, þegar í þeim till., sem menntmn. hefir borið fram í þessari d., sem ýmist eru teknar úr þeim brtt., sem hv. þm. V.-Sk. hefir áður flutt í hv. d., eða þá byggðar á svipuðum grundvelli. Þessar till. fela í sér fulla viðurkenningu á þeirri vöntun í undirbúningi þessa máls með tilliti til hinna sérstöku kringumstæðna í sveitum landsins. Nefni ég þar til brtt. n. um skólaskyldu, þar sem sveitirnar eiga alls ekki samleið með kaupstöðunum. Sveitirnar skulu í þessu efni hafa heimild til undanþágu, en vera þó undir vald fræðslumálastjórnar gefnar og mega ekki fara að sínum högum um það, hvernig skólaskylda sé.

Þá er ennfremur eitt af meginákvæðum þessa frv., að í stað þess að frjálst sé, hvort hreppar séu út af fyrir sig um skólahald, eins og er samkv. núgildandi l., þá skal nú í venjulegum kringumstæðum skólahéraðið ná yfir sýslufélagið, þegar um sveit er að ræða. Og þar sem yfir þessar stærri heildir verður sett sérstök yfirstjórn, skólanefnd og fræðsluráð, þá eru náttúrlega horfin úr sögunni þau einkayfirráð, sem hver heild út af fyrir sig, það er að segja hreppurinn, hefir til þess að skipa þessum málum eftir því, sem þeir hafa hentugast álitið miðað við þær kringumstæður, sem fyrir hendi eru á hverjum stað. Hér er þess vegna þrengt mjög að umráðarétti hinna einstöku aðilja, hreppanna.

Samkv. frv. á nú barnafræðsla sveitanna að færast í það horf að fara fram aðallega í heimavistarskólum. Frv. er byggt upp á þessu, og er að vísu veitt nokkur undanþága, sem óhjákvæmilegt er, þó að ekki sé litið á annað en þann mikla kostnað við að koma upp slíkum heimavistarskólum. Mér er sagt, að það kosti 2 millj. að minnsta kosti, eins og það er hugsað. Enn inn á þessa braut er stefnt með frv. til þess að þoka málinu áleiðis, meðal annars með því að veita meiri styrk til slíkra bygginga, helming kostnaðar, í stað þess að veita 1/3 kostnaðar við að byggja heimangönguskóla. Þetta fyrirkomulag hefir ýmsa kosti, — því ber ekki að neita. En það má ekki heldur loka augunum fyrir því, að það hefir líka ókosti, þó að hv. 9. landsk. gerði ekki mikið úr kostnaðaraukanum fyrir menn með slíku skólafyrirkomulagi.

Það ætti nú ekki að vera torskilið neinum þeim, sem nokkur kynni hafa af sveitunum, hve miklu þyngra kemur niður á fólki að greiða bein útgjöld fyrir kennslu barna sinna heldur en að geta miðlað þeim af heimilisforða sínum. Þessi breyt. hefir því ærinn kostnað í för með sér. Auk þess fara börnin ýmislegs á mis á þennan hátt, a. m. k. móðurumhyggjunnar, sem veitir þeim mest öryggi og gefur þeim allajafna bezt veganesti. Að börnin verði í einu og öllu að hlíta forsjá vandalausra manna um námstímunn, getur brugðizt til beggja vona, eins og dæmin sýna um heimavistarskólana. Þannig veit ég dæmi um tvo heimavistarskóla í Árnessýslu, þar sem ástandið er þannig, að foreldrarnir álíta skólana ekki hollari en svo, að þeir hafa tekið þá ákvörðun að taka börn sín burtu úr skólanum, ef sömu kennarar verði þar áfram. Þetta hafa hv. þm. Árn. viðurkennt, a. m. k. sá þeirra, sem sæti á í fjvn. Svona getur farið, og áhættan er því sannarlega ekki lítil, þegar dæmi eru fyrir því, að foreldrar neyðast til að gera uppreisn gegn sínum eigin stofnunum, eftir að búið er að koma þeim á fót með geysilegum kostnaði. Hin dæmin eru þó mörg, og sjálfsagt miklu fleiri, að börnum sé hvorki misþyrmt andlega eða líkamlega í slíkum skólum, heldur séu undir handleiðslu kennara, sem vilja ganga þeim í föður- og móðurstað.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af kennurum eingöngu, og aðallega eða eingöngu af kennurum úr Rvík. Aðrir hafa ekki farið um það höndum þangað til nú. Menn úti um sveitir landsins hafa því alls ekki gert það upp við sig enn, hvort rétt sé að fara inn á þessa braut. Hér á að vera um endanlegt skipulag að ræða, og því er engin furða, þótt sá mikli hluti þjóðarinnar, sem í sveitunum býr og á að búa við þetta skipulag, vilji fá að átta sig á því, hver á að vera framtíð þessara mála.

Mér er kunnugt um, að í sveitum landsins eru margir þeirrar skoðunar, að athugandi sé, hvort ekki sé rétt að byrja á þeirri aðferð meira en verið hefir að halda uppi eftirlitfræðslu á þann hátt, að einn kennari hafi á hendi kennslu miklu fleiri barna en nú tíðkast, svo að hægt verði að sameina 3–4 hreppa eftir stærð í eitt fræðsluhérað. Kennarinn kenni vissan tíma á hverjum stað, en hefði jafnframt eftirlit með þeim börnum, sem þann tíma væru ekki undir beinni handleiðslu hans. Mér er kunnugt um það, að margir sem hafa forystuna í skólanefndum í sveitum landsins, hallast að þessu fyrirkomulagi. Ég vil í þessu sambandi benda á till. meiri hl. fjvn. í fyrra um þessi mál, þar sem einn af forystumönnunum í skólamálum landsins var fremstur í flokki. Nú hefir sami hv. þm. flutt frv. í Ed., sem gengur í svipaða átt og þær till. Þetta frv. gengur út á það, að búið sé við bráðabirgðafyrirkomulag í þessum efnum næstu þrjú ár, meðan verið sé að fullbúa framtíðarskipulag. Að vísu er ætlazt til, að þegar sé breytt nokkuð frá, þeirri tilhögun, sem nú er, en ég álít, að frv. gangi þó í rétta átt og gangstæða við frv. það, sem hér liggur fyrir. Flm. þess vill fremur draga úr innisetum barna á hörðum skólabekkjum, en láta þau njóta meiri fræðslu í hinni frjálsu náttúru til andlegrar og líkamlegrar hollustu.

Þar sem nú kemur fram hér í Nd. í þessu frv. harðdrægur vilji barnakennaranna, en í Ed. kemur fram skoðun, sem á mikinn stuðning úti um sveitirnar, þykir mér það viðurhlutamikið að knýja fram svo einhliða skipulag sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Og ef það verður gert, er það gert á móti vilja alls þorra sveitafólks, sem vill fá tíma til að átta sig á því, hversu þessum málum verði bezt fyrir komið.

Eins og hv. þm. V.-Sk. sagði, eru mjög ólík viðhorf gagnvart þessum málum til sjávar og sveita. Þar sem það frv., sem hér liggur fyrir, er algerlega byggt á viðhorfi kaupstaðanna, er það ekki ósanngjörn krafa, að sveitirnar fái einnig að láta vilja sinn í ljós um það, hvernig þessi mál verði bezt leyst.

Ég skal geta þess í þessu sambandi, að hv. þm. S.-Þ. flytur till. um að setja við þeim leka, sem m. a. hefir borið á í Árnessýslu, eins og ég gat um áðan, með því að gefa foreldrum og forráðamönnum barna meira svigrúm til þess að ráða því, hverjir eru kennarar barna þeirra. Hann leggur til, að kennarar við heimavistarskóla séu ekki ráðnir nema til eins árs í senn, en ekki í raun réttri æfilangt, eins og nú er, nema stórfelld afbrot komi fyrir, en vitanlega getur oft lent í stappi við stjórnarvöldin um það, hvort brotið sé svo stórt, að kennarinn sé látinn fara, jafnvel þótt almenn óánægja sé orðin með kennarann í héraðinu. Það virðist vera réttara og heppilegra á allan hátt, að foreldrar og ráðamenn sveitanna hafi meiri ráð í þessu efni en verið hefir.

Mín skoðun er því sú, að ekki eigi að afgreiða þetta mál nú, heldur eigi að fara inn á þær brautir að koma á bráðabirgðaskipulagi, eins og hv. þm. S.-Þ. leggur til. Þótt e. t. v. væri ástæða til þess að breyta frv. hans eitthvað í einstökum atriðum. þá er heildarstefna þess alveg rétt að mínum dómi. Ég mun því leyfa mér að bera fram svo hljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár:

Með því að skoðanir manna eru allmjög skiptar um það, hvernig náð verði beztum árangri í barnafræðslunni með kleifum kostnaði, eins og dæmin sýna nú á Alþingi, þar sem fyrir þessu þingi liggja tvö gerólík og sundurleit frv. um þetta efni, annað fyrir þessari deild, um framtíðarskipulag fræðslumálanna, en hitt fyrir Ed., um bráðabirgðaskipulag þeirra, hvorttveggja frá forystumönnum í kennarastétt, þykir deildinni ekki tímabært að setja nú framtíðarlög í þessu efni og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.