07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1937

*Eiríkur Einarsson:

Ég vil aðeins segja nokkur orð til þess að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. frsm. viðvíkjandi styrkbeiðni til Snepilrásar og lendingarbóta á Stokkseyri. Hv. frsm. sagði, að Stokkseyri mundi eiga fullt í fangi með að leggja fram á móti því fé, sem fjvn. leggur til, að veitt verði, þó ekki væri farið að veita meira til þessa hreppsfélags. Ég vil taka það fram, að þó að Stokkseyrarhreppur eigi örðugt, þá kemur það þessu máli ekkert við, vegna þess, að það er ekki Stokkseyrarhreppur, sem stendur að þessum hafnarbótum á Stokkseyri, heldur sérstök félagsdeild manna — deild úr Fiskifélagi Íslands. Þessir menn hafa látið annast alla þessa aðgerð og alltaf lagt fram það fé, sem áskilið hefir verið. Fékk ég um það vottorð hjá vitamálastjóra, að þeir hefðu greitt öll sín tilskildu gjöld og stæði því ekkert upp á þá í þessu tilliti.

Ég veit það, að frá Stokkseyringum sjálfum liggur fyrir beiðni um þetta. Það er að vísu dálítið til þess litið með till. fjvn., en miklu minna en nauðsynlegt er, því að afkoma manna á þessum stað er svo mikið undir því komin, að þeir geti stundað sjóinn. Það, sem er því mest áríðandi, er að bæta innsiglinguna. Þeir menn, sem að þessu mannvirki standa, hafa ekki látið sitt eftir liggja, svo að sú ástæða, sem hv. frsm. tilfærði, er ekki rétt. Þess vegna vænti ég að hv. frsm. og aðrir hv. þm. ljái þessu máli lið.