20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

73. mál, fræðsla barna

*Bjarni Bjarnason:

Ég skal ekki tala langt mál að þessu sinni.

Ég hefi haft tækifæri og ástæður til þess að vinna töluvert að þessu frv., og ég hefi gert það í þeirri trú og með það fyrir augum, að ég væri að vinna barnafræðslunni og kennarastéttinni í landinu frekar gagn en ógagn. Hug minn til kennarastéttarinnar hefi ég fengið tækifæri til þess að fá skjalfestan hér á Alþingi, og þá sérstaklega á síðasta þingi. Gerist því ekki þörf að fjölyrða um hann nú. — Frv. þetta er þrauthugsað. Það er samið af leiðandi mönnum í kennarastétt og yfirfarið af menntmn. þessarar hv. d., sem jafnframt hefir borið sig saman við ýmsa helztu menn kennarastéttarinnar. Um það mun og heldur vart verða deilt, að hér sé um að ræða gott mál, bæði fyrir kennarastéttina og barnafræðsluna í landinu. Þetta vænti ég og, að hv. þm. sjái og skilji og leyfi málinu því að ná fram að ganga á þessu þingi.

Það mun nú almennt viðurkennt, að fræðslumál eins lands séu svo erfið, að ekki sé hægt að koma þeim á svipstundu í það horf, að báðir aðiljar séu ánægðir með þau, bæði þeir, sem líta á fjárhagslegu hliðina, og eins hinir, sem líta fyrst og fremst á málið frá sjónarmiði menntunarinnar. Það er erfitt að samrýma það, að kennararnir hafi t. d. nóg að starfa, en að kennslan verði þó ekki of dýr fyrir þá, sem hennar eiga að njóta.

Kröfurnar, sem fram hafa komið um aukna fræðslu barna, eru réttmætar, og þeim verður ekki með rökum á móti mælt. Mér þykir því undarlegt að heyra hv. þm. V.-Sk. vera að tala um þvingun í þessu efni, að það sé verið að þvinga inn á fólkið aukinni skólaskyldu. Þetta er vitanleg, fjarstæða ein, og ég vil biðja hv. þm. að athuga vel, hvort gildandi lög um fræðslu séu í raun og veru nokkuð frjálslyndari í þessu efni en ákvæði frv. Sá andi er einmitt mjög skýr í frv., að það eigi að hafa kennsluna meira en verið hefir úti í sjálfri náttúrunni. Og er það gert m. a. með því að færa kennslutímann fram á vorið og láta hann einnig byrja fyrr á haustin, svo að kennslan fari fram á þeim tímamótum, þegar náttúran er að klæðast í sumarskrúðann, en svipta af sér vetrarkuflinum, og þegar hún fer aftur úr sumarskrúðanum á haustin. Þessi þáttur í framburði hv. þm. V.-Sk. er því gersamlega rangur, svo sem mest má vera. (GSv: Hvar stendur það í frv., að kennslan eigi að fara fram úti í náttúrunni?). Það stendur í grg. frv., og hefir einnig komið fram hér í umr. Og vil ég beinlínis taka það fram, að breyt. á kennslutímunum er gerð til þess að koma þessari útikennslu í framkvæmd. Það er hugmyndin.

Þá vil ég geta þess, að mér er ekki kunnugt um, að við þm. Árn. höfum sagt neitt um það hér í þd., að það væri ríkjandi óánægja með barnakennara við heimavistarskóla í Árnessýslu. Það hefir verið borið hér fram eftir okkur í þingræðu, og talið, að við höfum átt að segja frá þessu hér í þd. Ég vil mótmæla þessu sem tilhæfulausum framburði. Við höfum aldrei minnzt á þessa barnakennara í umr. hér á Alþingi. Hitt veit ég náttúrlega. og það er sjálfsagt flestum þdm. kunnugt, að það mun víða veru til einhver óánægja með barnakennara; það eru auðvitað misjafnir menn í öllum stéttum. En þegar þetta er dregið hér inn í umr. sem mótbára gegn heimavistarskólunum, þá er það ekkert annað en ósæmileg tilraun frá hendi hv. þm. V.-Sk. til þess að láta málið líta sem verst út. Ég get upplýst, að þar sem ég þekki til rekstrar heimavistarskóla í sveitum, þá hafa þeir reynzt mjög vel, m. a. af því, að það hefir yfirleitt tekizt heppilega um kennaraval til þeirra. Og þó að á einstöku stað kunni að hafa bólað á nokkurri óánægju með einstaka kennara, þá er það ekki skólafyrirkomulaginu að kenna, og getur því á engan hátt gengið út yfir heimavistarskólana. Það er alltaf hægt að bæta úr óánægju með, einstaka starfsmenn við skólana, enda verður það gert. Mótstöðumenn heimavistarskólanna klifa sífellt á því, að bændur geti ekki kostað börn sín á skólunum. Þetta mega þeir ekki berja fram bálkalt, án þess að leita upplýsinga hjá þeim bændum, sem hafa reynslu fyrir heimavistarskólunum. Þeir ættu að kynna sér vitnisburði þeirra bænda, sem ekki geta haft kennara út af fyrir sig, og hvað talað er um þetta mál í sveitunum; ég hefi fulla vitneskju um það.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að í framtíðinni verði það svo, að hver kennari hafi ekki færri en 20 börn til kennslu. En vitanlega verður það nokkuð ákveðið eftir staðháttum og viðhorfi í hinum einstöku fræðsluhéruðum á hverjum tíma.

Ég ætla ekki í þetta sinn að ræða neitt um frv. hv. þm. S.-Þ., sem hann hefir flutt í Ed., til breyt. á fræðslulögunum. Með þeirri atkvgr., sem hér fer fram um dagskrártill. hv. þm. Borgf., verður skorið úr því, hvort þessi hv. þd. vill taka það frv. til greina eða ekki, því að dagskrártill. er einmitt borin fram í tilefni af þessu frv. og með skírskotun til þess.