24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

122. mál, skattfrelsi mjólkursamsölu og fisksölusambands

Magnús Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá kærði ég mig ekkert um að vera meðflm. að þessu frv. Enda finnst mér það satt að segja í meira lagi undarlegt að flytja frv. á Alþingi til þess að staðfesta hæstaréttardóm. Í öðru lagi finnst mér það líka undarlegt, af því að ég heyri sagt, að það standi til endurskoðun á útsvarslögunum, og mundi þetta þá koma til greina í því sambandi. Í þriðja lagi er þess að gæta, sem hæstv. atvmrh. benti á, að það er engin vissa fyrir því, hvernig fisksölusambandið verður starfrækt á hverjum tíma. Það er ekki víst, að það verði rekið eins og nú er gert, en hæstaréttardómurinn er vitanlega miðaður við það skipulag, sem nú er á fisksölusamlaginu, og eins og það er nú rekið. Ég vil leggja það til, að n. taki þetta frv. aftur til athugunar. Að því er mjólkursamsöluna snertir, þá tel ég hana hliðstæða fisksölusamlaginu, þannig að hún sé ekki frekar útsvarsskyld. Frv. er því algerlega óþarft. — Það er sagt í grg. frv., að skattayfirvöldin hafi þrátt fyrir dóminn haldið áfram að leggja útsvar á sölusambandið; það hlýtur að stafa af því, að dómurinn hafi þá ekki verið fallinn, þegar slík álagning var gerð. Ef bæjarstjórnin í Rvík hefir gaman af því að standa í málaþrasi við fisksölusamlagið út af útsvarsskyldu þess til bæjarsjóðs, þá getur hún það eins, þó að þessi lög verði sett, því að hæstaréttardómur gildir sem lög. Þó að útsvar verði lagt á fisksölusamlagið, þá neitar það auðvitað að greiða, og svo verður ekki meira í því gert.