02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

120. mál, jarðræktarlög

*Jón Sigurðsson:

Ég ætla aðeins að drepa á nokkur atriði, sem lítið hefir gætt í þessum umr. Það er nú komið í ljós, sem ég og aðrir bjuggumst við, að meiri hl. n. er farinn að renna frá till. sínum, sem haldið var fram við 1. umr. Er það gleðilegt í sjálfu sér, og er leitt, að umr. skuli ekki geta teygzt nokkru lengur, svo að þeir fengju tíma til að renna frá fleira. Ef þeir fengju að bíða til búnaðarþings, myndu þeir að líkindum renna frá öllu saman. Ef framsóknarbændur fengju að fjalla um málið, er ég ekki í vafa um, að það yrði öðruvísi afgr. En málið er flutt af þvílíku ofurkappi, að bændum er ekkert tækifæri gefið til að segja sitt álit. Ég hefi áður sýnt fram á, hve árás sú, sem felst í frv., er gersamlega tilefnislaus. Við 1. umr. spurði ég hv. frsm. 1. minni hl., hvort Búnaðarfélag Íslands hefði vanrækt það, sem það hefði átt að gera, eða orðið brotlegt, svo að því væri ekki treystandi til að vinna þau verk, sem það hafði áður haft með höndum. Hann neitaði því. Hvorki búnaðarfélagið, framkvæmdarstjórar þess eða stj. þess hafa brotið nokkuð af sér eða sýnt ríkisstj. þvermóðsku í samvinnunni við hana. Þessi árás á búnaðarfélagsskapinn í heild sinni er því tilhæfulaus. Er því ekki nema eðlilegt, að menn spyrji, hví félagið sé beitt þessum þrælatökum.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að í grg. frv. er því haldið fram, að hið nýja kosningafyrirkomulag til búnaðarþings sé í samræmi við vilja meiri hl. bænda í landinu. En þegar svo búið er að kjósa þessa fulltrúa, þá hefir ríkisstj. ekki slíkt traust á þeim, að hún treysti þeim til að velja sér framkvæmdarstjóra. Þessum fulltrúum, sem búið er að kjósa eftir hinum nýju reglum. treystir hún verr en þeim gömlu. Af þessu sést, að þetta er ekki annað en yfirskinsröksemd. Á bak við eru pólitískar ástæður, en ekki umhyggja fyrir velferð bænda.

Þá vil ég spyrja hv. frsm. l. minni hl., sem er líka í stj. búnaðarfélagsins, hvernig hann hugsi sér að koma því í kring, að kosningar til búnaðarþings fari fram fyrir áramót l. samkvæmt. (BÁ: Það má halda aukaþing). Í 1. félagsins eru engin ákvæði, sem leyfa aukaþing. (BÁ: Það er ekki bannað). Það var einu sinni haldið aukaþing, og var þá litið svo á, að það hefði ekki vald til að taka slíkar ákvarðanir. Kemur það úr hörðustu átt, er maður, sem ég og aðrir hafa kosið okkur sem trúnaðarmann til að halda uppi okkar málstað, gerist brautryðjandi í því að knýja félagið til að fremja lagabrot.

Þá vík ég nokkrum orðum að II. kafla frv. Hér er, eins og minnzt hefir verið á, tekin upp ný stefna. Er ætlazt til, að þessi framlög verði hér eftir ekki jarðræktarstyrkur, heldur lán. Ég veit ekki til, að fordæmi séu til um þessa stefnu, en þetta hlýtur aftur að skapa fordæmi, t. d. að því er snertir búfjárræktarl. Gæti ríkið farið að eigna sér nokkurn hluta af búfé bænda fyrir þann styrk, sem það hefir látið o. s. frv. Þetta verður að teljast óheillastefna. Jarðræktarstyrkur hefir verið nokkurskonar stofnfjárframlag, er ríkið hefir lagt til kvaðalaust. Var litið svo á, að bændur væru að skapa verðmæti, sem hefði mikla þýðingu fyrir komandi ættliði, og að því væri eðlilegt, að ríkið styrkti brautryðjendur á þessu sviði, ekki sízt á erfiðum tímum. Þetta hafði ég í huga, þegar ég á sínum tíma greiddi atkv. með jarðræktarl. Og ég get nú ekki annað séð en að verðmæti þau, sem bændur skapa, séu jallnmikils virði fyrir land og lýð, hvort sem þeir hafa þegar fengið í styrk 5000 kr. eða minna, ef þeir hafa unnið drengilega fyrir því, sem þeir hafa fengið frá ríkinu. Er ekkert á móti því að hvetja menn til að leggja fé sitt í jarðrækt frekar en margt annað, t. d. þá menn, sem grætt hafa fé á sjósókn. Ef þeir leggja fé sitt í ræktun, þá hafa þeir þar með skapað verðmæti, sem bundið er um alla framtíð handa niðjunum. Það er ekki ástæða til annars en að sýna þessum mönnum viðurkenningu þjóðfélagsins. Auk þess má geta þess, að það hámark, sem hér er sett, hlýtur að skapa þeim, sem vinna að ræktun landsins, mikla örðugleika, og það einmitt sérstaklega þeim, sem skemmst eru komnir. Þar, sem ég þekki til, er víða svo háttað, að þessi vinna er unnin í félagsvinnu og með dráttarvélum. Hingað til hefir það verið svo, að þessari félagsvinnu hefir verið haldið uppi af nokkrum athafnamönnum, sem hafa gert þeim, sem minni máttar eru, kleift að fljóta með og fá þessar dýru vinnuvélar, sem örðugt er að koma á milli sín. Ef þessir athafnamenn ganga úr leik, þá verða mestmegnis eftir þeir menn, sem hingað til hafa litið getað lagt af mörkum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi 20% hækkun hafi sérstaklega mikla þýðingu. Það er misskilningur, að þessir menn hafi ekki tekið þátt í jarðabótunum, af því að styrkurinn hafi verið of lágur. Ég tel mjög tvísýnt, að það borgi sig að rækta það land, sem ekki hefir borgað sig að rækta með þeim styrk, sem veittur hefir verið að undanförnu. Nei, ástæðan til þess, að þessir menn hafa ekki verið með, er ekki sú, að styrkurinn hafi verið of lítill; það er áhugaleysi, getuleysi og ýmsar aðrar ástæður, sem þar liggja fyrst og fremst til grundvallar. Ég hygg, að ef þessari löggjöf er ætlað að styðja þessa menn, þá sé það að skjóta yfir markið. Ég hygg, að breyt. verði einmitt til þess að draga úr þeim mönnum, sem skemmst eru komnir. Þá vil ég einnig benda á það, að mér finnst, að með þessu hámarki sé verið að leggja þungan stein í götu þess, að nýbýli séu reist, og þá einkum á þann hátt, sem eðlilegast væri, að þau mynduðust, en það er þannig, að börnin haldi áfram að vera á jörðinni og skipti henni á milli sín og auki ræktunina á þann hátt. Að því ætti að styðja. En þá væru börnin búin að skapa sér þá aðstöðu að geta haft stórt og vel ræktað tún, og yrði þá eðlilega sérstaklega að ræða um byggingar, sem eftir væru. Með þessu frv. er því verið að spyrna á móti því, að börnin hjálpi foreldrum sínum til að rækta jörðina sem bezt og hafi von um að geta sjálf notið þeirrar auknu ræktunar. Og auk þess getur þetta í sumum tilfellum orðið hlægileg fjarstæða. En það dugir ekki að deila við dómarann, eins og sagt er. Ég býst við, að þetta sé ákveðið og engin rök dugi til þess að hagga því. Mér er ekki grunlaust um, að það hafi vakað fyrir sumum þeirra, sem að þessu frv. standa, að ná höggi á þeim bændum, sem fremst hafa staðið í ræktun landsins. Þeir hafa verið titlaðir með nafninu stórbændur. Því miður eru hér engir stórbændur til, en þeir hafa verið kallaðir þetta, og þetta nafn hefir nánast verið notað sem skammaryrði í blöðum stjórnarflokkanna. Ég býst við, að nú eigi að vega að þessum voðamönnum, og ég verð að játa, að ræða hv. 2. þm. N.-M. styrkti mig í þessum grun. Ég hefi nú yfirfarið þetta frv., sem hér liggur fyrir, og ég verð að segja, að ég hefi ekki rekið mig á neitt teljandi, sem er nokkurs virði umfram það, sem er í jarðræktarlögunum. — Ég get játað, að hér er eitt atriði, sem hefði átt að vera komið í jarðræktarlögin, og það er um, að skerpt væri eftirlit með því, hvernig jarðabætur eru framkvæmdar. Það hefir verið nokkur misbrestur á því, hvernig jarðabæturnar hafa verið af hendi leystar, og hefði þurft að skerpa eftirlit með því. Annars sé ég ekki annað en flest í frv. sé til hins lakara, og í stað þess að örva framkvæmdir, muni það skapa kyrrstöðu.

Þá hefir verið talað um, að þessi breyt. á lögum Búnaðarfél. Íslands væri einskonar heildarlöggjöf fyrir búnaðarfélagið, og því var líkt vil samvinnufélagsslöggjöfina. Ég skaut þá fram þeirri spurningu, hvernig sú löggjöf hefði verið sett. Sú löggjöf var upphafleg. samin af n., sem S. Í. S. kaus til þess, og síðan lögð fyrir Alþingi. Ég kannast ekki við, að búnaðarþingið hafi kosið neina slíka n. til að undirbúa þessa heildarlöggjöf. Ég kannast ekki við, að frá búnaðarþingi hafi heyrzt raddir um, að þörf væri á slíkri heildarlöggjöf. Ef þessi samanburður hv. ræðumanns hefði átt að geta staðizt, þá hefði þetta frv. átt að vera samið að ósk Búnaðarfélags Íslands og af n., sem búnaðarþingið hefði kosið til þess. Aðeins þannig hefði þetta verið sambærilegt við samvinnulöggjöfina. En það er svo fjarri því, að þannig hafi verið, að það má ekki einu sinni bíða eftir svari frá búnaðarfélaginu, hvað þá eftir því, að búnaðarþingið komi saman.

Það var hv. 2. þm. N.-M., sem talaði mest um það, hve áríðandi það væri og höfuðatriði, að koma öllum jörðum sem fyrst í hámark, og virtist helzt eiga að skilja þetta svo, að með þeirri tilhögun, sem nú er, mundi verða fyrirstaða á því, að þær jarðir, sem nú eru lágar, kæmust í hámark. En það er ekki neitt í þessu frv., sem er líklegt að flýta fyrir því, heldur er þvert á móti með frv., ef að lögum verður, lagður svo þungur steinn í götu þeirra, sem skemmst eru komnir, að þeir geta með engu móti velt honum.

Þá kann ég því illa, að hv. 2. þm. N.-M. ber þá brigzlum, sem eru í andstöðu við frv. Hann beindi þeim orðum til hv. þm. Borgf. — og ég býst við, að fleiri hafi þar átt að taka af sinn hluta —, að hér væri um eiginhagsmuni að ræða. Hann talaði um það með gleðihreim í röddinni, að þeim, sem mest hefðu gert að ræktun landsins og staðið hefðu í fylkingarbrjósti á því sviði, ætti nú að synja um allan styrk framvegis, ef þeir væru komnir upp í 5000 kr. Ég gat ekki varizt því að hugsa til þess, að sjálfan hefir þennan hv. þm. ekki klígjað við að taka margar 5000 kr. fyrir lítið starf, sem verður fyrir löngu gleymt, þegar tún þau, sem skapazt hafa fyrir framsækni og atorku þessara manna, sem nú á að svipta öllum styrk, standa sem órækur vottur um dugnað þeirra og dáðríkt starf.