02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

120. mál, jarðræktarlög

*Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki að deila miklu meir um það við hv. þm. G.-K., hvor okkar mæti hér betur. Hann hefir látið sig vanta dag eftir dag, en ég veit ekki til, að neinn dagur hafi liðið svo, að ég hafi ekki setið hér, og úr þessu húsi hefi ég ekki farið án leyfis forseta, þegar fundur hefir verið.

Hv. þm. sagði, að Alþfl. hefði vantað allan einhverntíma. Þetta er rétt. Það stóð nefnilega þannig á, að það var búið að gera fullkomna grein fyrir afstöðu flokksins, og svo var viðstaddur maður til þess að taka svari hans, ef á þyrfti að halda, en á meðan vorum við að ljúka við mikilsvarðandi mál á flokksfundi hér í húsinu og vorum til taks við atkvgr. En þegar umr. var lokið, þá voru allir sjálfstæðismennirnir á bak og burt, nema 2 eða 3, og þegar átti að fara að ganga til atkvgr., þá gengu þeir út til þess að láta hana ekki eiga sér stað.