06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

120. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Ég hafði búizt við, að minni hl. landbn. tæki til máls á undan mér, en hann hefir skroppið út úr d., líklega verið kallaður í síma, og hefir því láðst að biðja um orðið. Mér er og einkar ljúft að taka strax til máls. Hæstv. forsrh. tók nokkuð undir þá líkingu, sem ég tók af járnbrautarlagningu Rússakeisara. Hann kannaðist vel við þessa gömlu sögu um það, þegar Rússakeisari lagði reglustriku á kortið, strikaði eftir henni með penna og sagði: „Svona á járnbrautin að liggja.“ Hann vildi ónýta þessa samlíkingu með því að segja, að verkfræðingarnir hefðu lagt alla alúð við að leggja þessa járnbraut, þótt svona fyrirskipun kæmi frá einvaldanum, og að hún hefði verið lögð eftir fyllstu teknik. Ég skal ekki bera á móti því. Það hefði vafalaust ekki verið hægt að leggja járnbraut þessa þráðbeina leið án þess að nota teknik. Hæstv. ráðh. vildi halda fram, að þetta væri einmitt aðferðin, sem ætti að hafa. Hvernig var um lagafrv. það, sem hæstv. samgmrh. var að gangast fyrir hér í þinginu nýlega? Krýsuvíkurvegurinn umtalaði mun eiga að leggjast eftir reglustriku? Ónei, hæstv. ráðh. vék frá reglustrikuaðferð sinni þar og bar það fyrir, að það væri rétt að taka ofurlítið tillit til staðhátta, snjóalaga og annars slíks. Hann vill gera töluverða lykkju á leið sína og gera veginn helmingi lengri heldur en reglustrikuleiðin mundi hafa orðið. Það virðist því svo, að hæstv. ráðh. noti ekki reglustrikuaðferðina ávallt, þótt hann sé að halda henni fram.

Hæstv. ráðh. var að reyna að bera í bætifláka fyrir ýms vansmíði þessa frv. Hann gerði það ekki með því að afsanna vansmíðin, síður en svo. Hann gerði mjög lítilfjörlegar tilraunir til þess, og þær tilraunir fórust honum óhönduglega, sem von var, ekki af hæfileikaskorti, heldur af því, að það er jafnan erfitt að verja vont mál. Og það eina, sem hann gat fært sér til málsbötunar, var það að flýja á bak við þá menn, sem höfðu veitt honum aðstoð sína til þess að koma þessum lagavef upp í þetta illa ofna og óþæfða vaðmál, sem hér er til sýnis í þessu frv. Ég hafði ekki íað með einu orði í þá átt, að þeir menn, sem kunna að hafa hjálpað hæstv. ráðh. við undirbúning frv., væru neitt slæmir menn. Þeir geta verið góðir bændur og því um líkt. Ég veit um einn, sem er mesti myndarbóndi og mun hafa lagt til allt nýtilegt, sem í þessu frv. er. Vil ég sízt draga heiðurinn af honum.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessir menn, sem hefðu haft aðalundirbúning málsins með höndum — sem mér skilst, að hafi átt að heita einhver n., þótt sú n. hafi starfað með mikilli leynd og lítið verið um hana talað, eins og fleiri n., sem hæstv. stj. hefir skipað, það er ekki alltaf verið að auglýsa þær eða kostnaðinn við þær —, hefðu notið aðstoðar enn annara manna. Ég skal ekki bera á móti, að þeir hafi stuðzt við upplýsingar frá öðrum mönnum, og það jafnvel sér færari. Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið leitað upplýsinga hjá starfsmönnum búnaðarfélagsins. Ég veit, að þær upplýsingar hafa verið vel af hendi látnar, svo þess vegna hefði mátt búa til gott frv. En fengu þessir starfsmenn miklu að ráða um frágang frv.? Ég hefi fyrir satt, að sumir þeirra starfsmanna búnaðarfélagsins, sem hafa jafnvel veitt mikilsverða aðstoð við samningu þessa frv. í sumum atriðum að því er snertir nauðsynlegar upplýsingar, þeir hafi ekki fengið að sjá eða að neinu leyti frétta um suma kafla frv. Það er a. m. k. vitað um 1. kafla frv., að hann munu ekki nema einstakir útvaldir menn hafa fengið að sjá, nema þá undir ströngum þagmælskueiði.

Hæstv. forsrh. vildi slá því föstu sem algildri reglu, að lagafrv. bötnuðu yfirleitt ekki á því, þó hv. þm. gæfist kostur á að athuga þau á Alþingi. Ég veit nú ekki, hvort hæstv. ráðh. fær marga þm. með sér á þetta mál, og ég efast meira að segja um, að hann fái nokkurn heilskyggnan mann til þess að fallast á þessa skoðun. Hinsvegar lætur honum það vafalaust miklu betur að tala við þá menn, sem trúa blint á hans flokkssjónarmið, hans málstað og málsvörn.

Hann minntist á frv. það til breyt. á jarðræktarlögunum, sem ég hefði borið fram á undanfarandi þingum, og vildi í því sambandi færa það sem afsökun fyrir því, að þetta frv. væri ekki borið undir Bf. Ísl., eða beðið eftir umsögn búnaðarþings um það, að Bf. Ísl. hefði ekki fengið að segja sitt álit um mitt frv. Ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að frv. það, sem ég hefi flutt um breyt. á jarðræktarlögunum, var samkv. till. minni í landbn., sem ég átti þá sæti í, þegar frv. var fyrst borið fram, sent Bf. Ísl. til umsagnar, og búnaðarfélagið veitti því frv. eindregin meðmæli sín. Og það var ekki aðeins, að búnaðarfélagið eða stjórn þess fengi málið til umsagnar og rækilegrar athugunar, heldur fékk búnaðarþingið það líka til meðferðar, og var það þar athugað í sérnefnd. Búnaðarþingið gerði sínar till. um breyt. á frv., sem að vísu voru aðeins um eitt atriði, en töluvert mikilssvert, og ég tók þær till. algerlega til greina, er ég bar málið fram á Alþingi næst, og einnig í þriðja sinn, er ég flutti það.

Það er háttur hæstv. forsrh., þegar hann kemst í rökþrot, að hann flýr burtu frá því, sem um er að ræða, og fer út í aðra sálma. Ég hafði talað um, að þegar væri búið, eftir alllanga baráttu af búnaðarfélagsins hálfu, að veita því fyllri sjálfstjórn heldur en það hefði áður haft, þá skyti nú skökku við að fara að skerða þessi réttindi aftur, að taka aftur með hægri hendi stj. nú það, sem hin vinstri gaf á síðasta þingi. Þá hleypur hæstv. ráðh. aftur í liðinn tíma, meðan búnaðarfélagið var að berjast fyrir rétti sínum, og segir, að frelsi búnaðarfélagsins hafi þó einu sinni áður verið skert. Það mælir því ekki bót, að nú sé skertur réttur búnaðarfélagsins, þótt það hafi verið gert einhverntíma áður, og því síður, að réttur þess sé meira skertur heldur en áður var, eins og hér er um að ræða. Í sambandi við það, að hæstv. ráðh. var að brigzla mér og þeim flokki, sem ég til heyri, fyrir það, að hann hefði ekki verið því fylgjandi, að búnaðarfélagið fengi sjálfstæði í sínum málum, get ég minnt hann á það, að Bændafl. setti strax á sína fyrstu stefnuskrá, að hann vildi vinna að því, að búnaðarfélagið fengi full umráð yfir sinni stjórnarkosningu. Ætla ég, að ég hafi með því fyllilega hrakið þau brigzlyrði, sem hann reyndi að bera fram á hendur mér og mínum flokki.

Það mátti segja, að hæstv. ráðh. breytti ekki heldur út af venju sinni, þegar hann er í vandræðum að svara þeim mönnum, sem hann á orðastað við, þegar hann kom að þeim ýmsu ákvæðum 1. kafla frv., er lúta að því að skerða frelsi búnaðarfélagsins. Þá reyndi hann ekki að svara þeirri ræðu, er ég hafði flutt, heldur tók sér fyrir hendur það, sem honum mun hafa þótt auðveldara, að reyna að svara aðsendri grein, sem birzt hefir í bændablaðinu Framsókn, Vitanlega færði hann orð þeirrar greinar úr lagi, sem ekki er tiltökumál um þennan hæstv. ráðh., með því að það er það eina, sem hann hefir yfirburði í, í sínum málaflutningi, að snúa út úr og færa til annars vegar. Samt sem áður sýnir þetta frv., er hér liggur fyrir, að þessi aðsenda grein hefir ekki að ófyrirsynju fram komið, því að sá maður, sem eiginlega ber mest skylda til af þeim, er Alþingi sitja, til þess að sporna á móti því, að gengið sé á rétt búnaðarfélagsins, tók þó það atriði til greina, sem bent var á í þessari grein í bænda- og samvinnublaðinu Framsókn, og flutti í Nd. brtt. við 3. gr., sem fól í sér nokkra lagfæringu í þá átt, sem bent hafði verið á í umræddri blaðagrein. Ég vil spyrja: Hvers vegna þurfti að lagfæra gr. frá því, sem hún upphaflega var í frv.? Var það ekki einmitt af því, að sá maður í Framsfl., sem kunnugastur er þessum málum, sá, að höfundur hinnar aðsendu greinar hafði rétt fyrir sér í því, að þetta atriði þurfti lagfæringar við? Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um það, hvernig hæstv. ráðh. flýr af hólmi. — Hann réðst ekki mikið í að fara út í orð mín um þá lagabreyt., sem nú á að þvinga búnaðarfélagið til þess að gera. Hann var að reyna að bera af sér, að hann væri hér að sýna einræðishuga sinn gagnvart búnaðarfélaginu. En það er nú svona um hann, að það gægist bæði snoppan og jafnvel fleiri hlutar líkamans út undan gærunni. Ein snoppan hefir nú komið fram í dagsljósið í dag í sambandi við þá klásúlu við fjárlögin, sem kom fram af hálfu meiri hl. fjvn., við 2. lið 16. gr., þar sem ræðir um Bf. Ísl., og er lagt til, að öll starfsmannaráðning þess eigi að vera háð samþykki landbrh. Þarna kemur einræðishyggjan í ljós, sem minnir á það fyrirkomulag, sem tíðkaðist á einveldistímum Rússlands og á kommúnistastjórnartímabili hins nýja Sovjets og í öðrum harðstjórnarlöndum gagnvart hinum einstöku félagsmyndunum í ríkinu. Það er ekki aðeins, að Bf. Ísl. sé með ákvæðum frv. svipt ákvörðunarrétti um sín eigin 1., heldur er það þvingað til þess að nær því tvöfalda ýmsan kostnað, sem fylgir, svo sem búnaðarþingskostnaðinn, sem fullyrða má, að eykst um nær helming. Auk þess er búnaðarfélagið þvingað til að haga kosningafyrirkomulagi sínu í sumum atriðum mesta einkennilega, þar sem sú skylda er lögð á búnaðarsamböndin að hafa m. a. það verk með höndum að mæla kosningarrétt einstaklinganna, félaganna, í fermetrum.

Ráðherrann þurfti að leita langt að sínum röksemdum, enda er honum það vorkunnarmál, þar sem rök voru ekki nærtæk fyrir málstað hans. Hann vildi m. a. reyna að sanna, að búnaðarfélagið hefði ekki gegnt vel sínu hlutverki, með því að komið hefðu fram tilraunir meðal bændastéttarinnar um að stofna landssamband bænda. Já, það er einmitt þess að geta, að frumhugmyndin að landssambandi bænda var ekki borin fram til andstöðu við búnaðarfélagið, heldur einmitt með stuðningi búnaðurfélaganna. Og það, sem fyrir þeim mönnum vakti, sem hófu fyrst máls á því, var síður en svo nokkur tilþekkni við búnaðarfélagið. Þvert á móti. Það vakti heldur mjög svipað fyrir þeim eins og fyrir þeim bændum í Noregi, sem stofnuðu til þess félagsskapar, sem er nefndur „Norsk Bondelag“. Þar var áður mjög mikilsvirtur félagsskapur, „Selskap for Norges Vel“, og þó að einmæli væri meðal norskra bænda um þennan félagsskap síðarnefnda, fannst þeim ástæða til að stofna til landssambandsins, til þess að vinna að fleiri málum en allsherjarbúnaðarfélagið hafði með höndum, og til þess með sínu starfi að styðja einnig störf þess. Svo að þetta hálmstrá, sem hæstv. forsrh. grípur til í sínum átakanlegu rökþrotum, er svo langt frá því að sanna neitt hans mál. Þetta sannar heldur mitt mál svo sem bezt má verða. Ég hafði áður sýnt fram á, að kosningafyrirkomulagið, sem gilt hefir um nokkur ár í búnaðarfélaginu, er með samskonar hætti og hjá S. Í. S., þannig að félagsmenn heima í hverjum hreppi eða hverri deild kjósa fulltrúa á aðalfund félags síns, og aðalfundur kýs svo fulltrúa á aðalfund Sambandsins. Alveg á sama hátt er þessu kosningafyrirkomulagi varið hjá búnaðarfélaginu, að bændur í hverri sveit kjósa sér fulltrúa á aðalfund búnaðarsambandanna, og aðalfundir sambandanna kjósa fulltrúa á búnaðarþingið, sem má algerlega líkja við aðalfund S. Í. S. Ef hæstv. forsrh. vill enn reyna að halda því fram, sem höfundar þessa frv. halda svo sterklega fram í grg. fyrir frv., að þetta fyrirkomulag geti ekki samrýmzt lýðstjórnarfyrirkomulagi, vill hann þá um leið fella þann dóm, að skipulag Sambands íslenzkra samvinnufélaga samrýmist alls ekki almennu lýðstjórnarfyrirkomulagi? Eða ætlast hann til þess, að Alþingi Íslendinga leyfi sér að setja löggjöf til þess að breyta fyrirkomulagi Sambandsins í eitthvert annað horf, sem að hans dómi ætti að frelsa Sambandið frá þessu þvingunarfyrirkomulagi, yfir í eitthvert lýðstjórnarfyrirkomulag? — Nei, ég vil halda því fram, að bændur og búnaðarsambönd þeirra og búnaðarfélagið eigi að halda sínum rétti til þess að ákveða sitt skipulag. og þar á meðal sitt kosningafyrirkomulag, án íhlutunar og valdboðs af hálfu Alþingis.

Ég hafði varið aðalmáli mínu til að gera ýmsar aths. við ákvæðin í 9. gr. þessa frv. Hæstv. forsrh. vildi næsta lítið fara út í þær aths. Það litla, sem hann sagði, voru útúrsnúningar, og þarf raunar varla að taka það fram, með því að hans ræður yfirleitt eru nú sjaldnast annað en útúrsnúningar.

Hann vildi halda fram, að ég hefði aðeins vikið að þeim atriðum í gr., sem miða til lækkunar á styrknum. Ég hafði einmitt lesið upp hvern einasta lið í þessari gr., sem miðar til hækkunar. og byrjað á því. En ég sendi það með tölum, sem ekki verður um villzt, hversu þessar hækkanir eru í flestum tilfellum lítilfjörlegar; fór annars lítið út í það, mér fannst tölurnar sjálfar tala nægilega skýru máli. Og ég benti á það, að þær hækkunartill., sem í þessari gr. fælust, væru teknar upp hér um bil nákvæmlega á sömu línum og í frv. var, sem ég áður flutti hér á þessu þingi. Og ég votta höfundum þessa frv. viðurkenningu fyrir að hafa þá lesið frv. mitt með athygli. Í frv. mínu voru einmitt teknir þeir liðir, sem mest nauðsyn var að styrkja, og þar með er fengin full viðurkenning stj. og þeirrar n., sem hún skipaði, og annara aðstoðarmanna hennar við undirbúning frv. þessa, fyrir því, að frv. mitt hafi í öllum atriðum horft í rétta átt. En hinsvegar er í öllum þessum hækkunarliðum gengið skemmra heldur en var í mínu frv., og er óþarfi að telja alla þá liði. Skal ég aðeins minna á það stórkostlegasta, votheyshlöðurnar; þar er styrkurinn í þessu frv. hækkaður úr 50 aurum í 78 aura á dagsverk. En ég hefi lagt til, vegna brýnnar nauðsynjar, sem bændum er á þessum framkvæmdum, að styrkurinn væri hækkaður upp í 2 kr. á dagsverk.

Nú eftir að ég hafði lesið upp öll þessi atriði, sem fela í sér hækkun á styrknum, þá leyfir hæstv. forsrh. sér að segja í næstu ræðu, rétt þegar ég hafði lokið máli mínu, að ég hafi hlaupið yfir allar hækkunartill., sem í frv. felast. Ég veit ekki, hvað er ósvífin málafærsla, ef þetta er það ekki.

Hæstv. ráðh. hafði þann hátt um ýms atriði þessa frv. viðvíkjandi styrknum að flýja á bak við aðra menn, líkt eins og í símanjósnarmálinu og fleiri málum. Já, það er náttúrlega gott fyrir hann að hafa aðra sér betri menn að skildi; sannarlega veitir honum ekki af að hafa einhvern skjöld, því að engin hefir hann vopnin sjálfur að grípa til.

Hann þóttist vera eitthvað að andmæla mér með því að segja, að gallar gætu verið á steinhlöðum. Skrítið er nú annað eins og þetta, að eftir að ég hefi á þremur þingum flutt frv. um það, að styrkur sé veittur til fleiri hlöðubygginga en þeirra, sem úr steinsteypu eru gerðar, og fært þær ástæður fyrir mínu máli, að hlöður, sérstaklega úr járni og timbri, geyma hey betur en steinhlöður, og eftir að ég hefi bent á í grg. fyrir frv. og jafnan í framsöguræðum, að víða hagar svo til, að ekki er hægt að byggja hlöður úr steinsteypu, vegna þess að efnið vantar, — þá þykist hann eitthvað andmæla mér með því að telja gallað að byggja úr steini! En af því að ég tel steinhlöður góða og varanlega eign, þó að þær hafi einn galla, þá hafði ég í frv. mínu lagt til, að styrkur til steinhlöðubygginga værri verulega hækkaður. En ég lagði og til í till. minni, að styrkur til annara hlöðubygginga úr vönduðu efni með vönduðum frágangi væri veittur ríflega, sem sé króna á dagsverk. Ég get viðurkennt, að hæstv. forsrh. og þeir, sem hjálpað hafa honum með undirbúning þessa frv., hafa fallizt á mitt mál að nokkru leyti, þar sem þeir nú leggja til, að þurrheyshlöður úr öðru efni en steypu fái nú nokkurn styrk, þótt aðeins sé helmingur þess styrks, sem ég hefi lagt til í mínu frv.

Þá kom hann að því, sem ég hefi sagt um 20% hækkunina. Ég hafði ekki með einu orði minnzt á, að ég væri mótfallinn því, að fátækir bændur, sem ekki hafa getað komið á jarðræktarframkvæmdum á sínum býlum, fengju þessa 20% hækkun. — síður en svo. En, ég benti aðeins á það, að jafnvel þó að þeir fengju þessa 20% hækkun. þá væru þeir um sumar áríðandi framkvæmdir settir skör lægra en eftir núgildandi l. Þessu reyndi hann að snúa á þann veg, að ég hefði snúið við blaðinu. Ég hefi ekki talað um þetta frv. fyrr en hér, svo að þetta er eins og annað í útúrsnúningum hans. Hann ætlar mönnum orð, áður en þeir segja nokkurt orð, en heyrir svo ekki það, sem þeir segja. Þar sem ég benti á vansmíð á frv. í sambandi við þessa 20% hækkun, sem ég síður en svo andmælti, þá sagði ég, að þessi hækkun kæmi ekki alstaðar niður á þeim, sem mesta hafa þörf; þurfti hann ekki að öfugsnúa þessu þannig, að ég hefði ekki viljað veita þeim bændum neinn jarðræktarstyrk, sem hyggja á góðum jörðum. Ég veit ekki, hvernig hægt er að rangfæra orð manna herfilegar. Fyrr má nú vera að misskilja, óviljandi eða viljandi, heldur en svo. En þetta sýnir aðeins rökþrotin. Og ég vil segja, að mikið má vera, ef ráðh. hefir skilið sjálfan sig, og enginn annar mun hafa skilið hann. Ég talaði ekki eitt orð á móti 20% hækkun til smábænda og hefi aldrei gert. Ég sýndi aðeins fram á, hversu ýmsar staðreyndir í sambandi við þetta ákvæði væru lítið athugaðar, og hversu mörg atriði hefði þurft að rannsaka betur til þess að ná þeim tilgangi, sem bar að keppa að.

Hæstv. ráðh. vildi færa það til málsbóta þeim, sem flytja þetta frv., að ég hefði ekki getað fundið nema tvær vitleysur í orðalaginu. Ég hélt nú kannske, að það væri nóg að benda á tvær vitleysur, og nennti ekki að fara í neinn sparðatíning. Frv. ber sýnilega með sér, að það hefir verið gefið út í mörgum útgáfum, sennilega bæði áður en það kom í prentun og jafnvel eftir að það var fyrst prentað og gekk hér eins og leyniskjal með bekkjum meðal útvalinna manna. Og við breyt. hefir þess ekki verið gætt að samræma eitt öðru í ákvæðum þessa frv.

Hann vildi snúa orðum mínum um 17. gr. á þá lund, að ég væri mótfallinn því, að styrkur til jarðræktar yrði til þess að hækka jarðir ótilhlýðilega í verði. En ég benti aðeins á það, að þessi styrkur ætti í öðru formi að vera eign jarðanna áfram og varðveitast sem þeirra eign. Hann færði það sínu máli til framdráttar, að þetta ætti að renna í sveitarsjóði, og mér skildist varðveitast þar um aldur og æfi. En það er ekki eitt einasta orð í 17. gr., sem ég man eftir, eða annarsstaðar í frv., sem tekur þetta fram, að sveitarsjóðir eigi nú að varðveita þetta fé undir sérstöku nafni, eða fara öðruvísi með það en venjulegan eyðslueyri, og þá er nú fljótsögð sagan af sjómönnunum þeim.

En í sambandi við þetta mál má og geta þess, að bóndi, sem leggur í að byggja á jörð sinni eða leggur í jarðræktarframkvæmdir, getur ekki að jafnaði vænzt þess að fá endurgoldna fyrirhöfn sína og framlagt fé; síður en svo. Hversu mikið verða þeir ekki að afskrifa af byggingarkostnaði og ræktunarkostnaði? Og þá hygg ég, að mætti og taka til athugunar, hvort ekki mætti einnig afskrifa styrki að einhverju leyti, sem lagðir hafa verið fram af hendi hins opinbera. Því að ég ætla, að margir bændur verði að afskrifa af sínum framkvæmdum margfaldlega meira en það, sem nemur styrknum.

Viðvíkjandi fyrirspurn minni um ákvæði 19. gr. þakka ég hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf. Það var full nauðsyn á yfirlýsingu þessari, með því að orðalag gr. gefur alls ekki nægilega til kynna, hvernig þetta atriði á að skilja.

Um 4. kafla átti ég við þau ákvæði, sem voru í upphaflega frv. En hæstv. ráðh. hefir leitt hjá sér að svara svo mörgum aths. mínum, en gerði það eitt að snúa út úr og rugla saman greinum. Engu svaraði hann aths. mínum viðvíkjandi þeim refsiákvæðum, sem sett eru með þessum l. á starfsmenn búnaðarfélagsins og búnaðarsambanda út af hverskonar brotum gegn ákvæðum í erindisbréfum þeirra, þó að vitanlegt sé, að í erindisbréfum þeirra séu mörg ákvæði, sem taka ekkert til framkvæmda þessara laga. Hann svaraði ekki heldur þeirri aths., sem ég gerði við bráðabirgðaákvæðin og þau lögbrot, sem á að þvinga búnaðarfélagið til að gera á sínum eigin l. og samþykktum.

Hann var enn að reyna að klifa á því, að frv. mitt hefði ekki verið sent Bf. Ísl. Ég er búinn að upplýsa, að það var einmitt að minni tilhlutun í landbn. sent Bf. Ísl. til umsagnar. Og sú umsögn kom, — meðmæli eindregin. Það var fengið búnaðarþingi til meðferðar, sem veitti því einnig eindregin meðmæli sín.

Þegar hæstv. ráðh. var að ljúka máli sínu, mun honum sjálfum hafa verið ljóst orðið, að hann hafði ekki of mikil rök, og reyndi að flýja bak við starfsmenn Bf. Ísl., að þeir hefðu komið eitthvað nærri undirbúningi þessa máls. En hvernig á að ýta yfir á þá ábyrgð af meðferð máls, sem þeir hafa ekki einu sinni séð?