11.03.1936
Neðri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og nál. á þskj. 119 og 123 sýna, hefir fjhn. klofnað í þessu máli. Leggur meiri hl. til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl., að það verði fellt.

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir hönd meiri hl. fjhn. Mál þetta lá fyrir síðasta þingi og komst þá til 2. umr. hér, og urðu um það allmiklar umr. Meiri hl. fjhn. gerði þá á því nokkrar breyt., og nú er frv. borið fram í þeirri mynd.

Við höfum talið rétt, að sett yrði löggjöf um landssmiðjuna, sem hingað til hefir verið rekin án þess að nokkrar sérstakar reglur væru til um rekstur hennar. Við höfum líka talið rétt að efla hana og styrkja með auknu starfi, fyrst og fremst til þess að hún geti beitt sér fyrir nýjungum í iðnaði til þjóðþrifa.

Þótt ég ætli ekki að fjölyrða um málið, get ég þó ekki látið hjá líða að víkja nokkuð að nál. minni hl., og þá fyrst og fremst hinu dæmalausa plaggi frá Helga Eiríkssyni skólastjóra, sem þar er lagt fram sem fylgiskjal.

Í nál. minni hl. stendur, að frv. sé sýnilega einn liðurinn í því gálausa verki stjórnarflokkanna, að koma sem flestum stofnunum á ríkið. — Það er nú út af fyrir sig dálítið einkennilegt að vera að tala um, að koma eigi ríkisstofnun á ríkið. Með frv. er aðeins stefnt að því að setja reglur um rekstur smiðjunnar og gefa fyrirtækinu möguleika til víðara starfs og tilraunastarfsemi í þágu þjóðnýts iðnrekstrar.

Þá er einnig að því fundið í nál. minni hl., að við höfum ekki komið fram með breyt. við frv. né viljað leita umsagnar um það. Þetta kemur úr hörðustu átt, þar sem minni hl. hreyfði engum breyt. sjálfur. Hv. þm. V.-Sk. lýsti yfir því þegar í upphafi, að hann væri málinu andvígur, en kvaðst þó vilja leita umsagnar um það, en hvernig sem sú umsögn yrði, myndi hann og flokksmaður hans vera á móti málinu.

Við sáum enga sérstaka ástæðu til þess að leita umsagnar um þetta mál hjá iðnráði Íslands. Í iðnráðinu eiga sæti tugir manna, og margir þeirra hafa engin sérstök skilyrði til þess að dæma um þetta mál, svo sem prentarar og bakarar. Þá vildi minni hl. og leita álits vegamálastjóra, vitamálastjóra og símamálastjóra. Um vegamálastjóra var það vitað áður, að hann var málinu andvígur, og að leita álits hans hefði aðeins verið til að tefja málið.

Minni hl. fjhn. hefir sent frv. þetta einum manni til umsagnar. Í nál. minni hl. er sagt, að hann sé trúnaðarmaður þeirrar stéttar, iðnaðarmannanna, sent þetta mál einkum varði. En þessi maður hefir ekkert umboð frá þeirri stétt, né nokkra heimild til þess að telja sig fulltrúa hennar. Og ég veit ekki til þess, að hann hafi fengið nokkurt umboð til þessara ummæla, sem hann hefir fram haldið í þessu álitsskjali sínu. Hann talar því hér sem einstaklingur, en vissulega ekki sem verkfræðingur eða iðnaðarmaður, heldur sem harðvítugur flokksmaður. Álitsskjal hans ber þess greinileg merki, að hér er pólitískur maður, sem talar út frá sjónarmiði ákveðins flokks, en ekki fræðimaður í ákveðinni mennt, sem talar um hlutina af fagþekkingu.

Um þetta frv. hefir verið fjallað meðal annars af þeim mönnum, sem hafa forystu í iðnmálum hér á landi. Ég veit, að um það hafa farið höndum a. m. k. 2 menn af þeim, sem eru í stjórn landssambands iðnaðarmanna. Og það er vissulega nær að álíta, að þeir út frá sínu sjónarmiði sem frömuðir iðnaðarmannastéttarinnar hafi fylgt málinu og flutt hér inn í þingið heldur en að Helgi H. Eiríksson skólastjóri tali í sínu álitsskjali sem umboðsmaður iðnaðarmanna. — Í umsögn þessari frá Helga H. Eiríkssyni segir m. a., að með frv. þessu sé af hálfu ríkisins farið inn á harðvítuga og ójafna samkeppni við eina grein íslenzks iðnaðar. Og yfirleitt er það haft á móti þessu frv. af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, að óeðlilegt sé, að ríkið hafi með höndum rekstur slíks fyrirtækis sem þessa. En það má undarlegt heita, et ríkinu ætti að vera það óheimilt að stofna til fyrirtækis, sem stendur í beinu sambandi við annan rekstur ríkisins. Þvert á móti virðist miklu eðlilegra, að ríkið hafi með höndum slíkt fyrirtæki sem landssmiðjuna, alveg á sama hátt og Reykjavíkurbær hefir um mörg ár rekið trésmíðavinnustofu hér í bænum til þess að hafa með höndum aðgerðir á þeim tækjum, sem bærinn þarf að láta vinna með á hverjum tíma. Á sama hátt held ég, að engum þyki óeðlilegt, að ríkisútvarpið hefir viðgerðarstofu á viðtækjum. Að vísu gætu þessar viðgerðir verið framkvæmdar af einstaklingum, en það er ekki fjarri lagi, heldur þvert á móti liggur það mjög nærri verksviði útvarpsins að hafa með höndum slíka aðgerðarstofu sem það hefir rekið, án þess að nokkur hafi sérstaklega haft við það að athuga. Landssmiðjan er að þessu leyti til sambærileg við viðgerðarstofur ríkisútvarpsins og trésmíðavinnustofu þá, sem Reykjavíkurbær hefir rekið um langt skeið. Og hvað Reykjavíkurbæ snertir, þá eru það sjálfstæðismenn, sem þar hafa ráðið lögum og lofum og haldið uppi þessu fyrirtæki, og enginn haft við það að athuga. Þessi röksemd í álitsskjalinu — ef álitsskjal skyldi kalla — er því léttvæg og lítils verði. Það er og fjarri öllum sanni, að með þessu frv. sé gengið inn á þá leið, að önnur iðnfyrirtæki í þessari grein verði að leggjast niður, ef þau eru samkeppnisfær á annað borð. Það eru fyrirtæki, sem standa á gömlum merg, og munu sum þeirra a. m. k. vera allvel fjárhagslega stæð. Þau hafa því skilyrði til þess að reka sína starfsemi eftir sem áður, þó landssmiðjan verði rekin áfram eftir þeim reglum, sem lagt er til í þessu frv. Það er alveg sama með landssmiðjuna og ríkisprentsmiðjuna. Það hefir ekki orðið vart við, að prentsmiðjur einstaklinga færi um koll, þó ríkið reki sína prentsmiðju, sem sérstaklega hefir prentað það, sem frá ríkisstj. og ríkisstofnunum hefir komið. Þrátt fyrir það þrífast í þessum bæ allar þær prentsmiðjur, sem áður voru, á meðan engin ríkisprentsmiðja var til. Ég veit jafnvel til þess, að nýjar prentsmiðjur hafa risið upp, og ég ætla, að þær geti dafnað, þó ríkið reki sína prentsmiðju. — Hér er því um fádæma falsrök að ræða, sem ekki eiga sér neina stoð í veruleikanum.

Þá er talað um það í álitsskjalinu, að hér sé um aukinn kostnað að ræða fyrir þjóðina, ef smiðjan verði sett í fullkomnara og betra horf, og ég býst við, að þar sé átt við það, að smiðjan fái ný tæki til þess að smíða með mótora. Ég er ekki í neinum vafa um, að mikil nauðsyn sé á því, að einhver smiðja grípi til þess að reyna að smíða mótora fyrir íslenzk skip, og þeim peningum, sem til þess væri varið, væri sannarlega ekki á glæ kastað. Og úr því einkafyrirtækin hafa ekki lagt út á þessa braut, þá er ekkert eðlilegra en að ríkisfyrirtæki sé styrkt til þess á þann hátt, sem til er ætlazt í frv. — Einnig er það óskiljanlegt, sem stendur í álitsskjalinu, að sennilegt sé, að nokkurt atvinnuleysi meðal járniðnaðarmanna mundi koma upp, ef þessi löggjöf yrði samþ. Ég skil ekki, að það geti aukizt atvinnuleysi í járniðnaðinum, þó að lagt sé inn á nýjar brautir. Maður skyldi einmitt halda hið gagnstæða. — Ein röksemdin í þessari álitsgerð er því annari lík, svo að allt er þar fullt af öfugmælum.

Í þessari álitsgerð segir ennfremur, að það sé ákveðið, að landssmiðjan skuli ekki greiða útsvar. En þetta er rangt. Í frv. er gert ráð fyrir því, að landssmiðjan greiði útsvar á sama hátt og önnur ríkisfyrirtæki, en að vísu eftir ákveðnum lögum og reglum. Það virðist því sem þessi athugunarmaður hafi ekki lesið í gegn frv., eða ekki talið ástæðu til að fara nákvæmlega með í þessum aths. sínum. Í frv. er einnig gert ráð fyrir því, að landssmiðjan greiði tekjuskatt til ríkisins, eins og hér væri um einkafyrirtæki að ræða, og útsvar, eins og mælt er fyrir í 7. gr. l. nr. 47 4. júní 1924, um aukaútsvör ríkisstofnana.

Þá er ekki síður furðulegt hjá þeim manni, sem telur sig frömuð í iðnmálum, að hann skuli telja öll tormerki á því, að landssmiðjan leggi í það að koma á einni nýrri iðngrein. Ég segi, að það sé furðulegt, að maður, sem telur sig hafa áhuga fyrir auknum iðnaði, skuli leggja stein í götu þess, að gerðar séu tilraunir til þess að koma á nýjum auknum iðnaði í landinu.

Þá hefir þessum umsegjanda fundizt óheppilegt, að ríkisstj. ein tilnefni kunnáttumenn, sem eigi að meta nýsmíði hugvitsmanna, vegna þess að „ráðh. hafa sjaldan iðnræna þekkingu og eru sterkpólitískir menn.“ En mér datt í hug, að ef nokkurt verk bæri með sér, að sterkpólitískur maður hefði fjallað um það, þá væri það þessi álitsgerð, því þar verður pólitíkusinn ofar fræðimanninum og áhugamanninum.

Minni hl. n. endar svo sitt nál. á því, að hann telji það ljóst, að ummæli þessa manns séu fullkomlega á rökum byggð. Já, það eru þessi dæmalausu rök, sem ég hefi nú vikið að. Ég hafði í sjálfu sér ekkert á móti því, að hv. þm. V.-Sk. fengi vilja sínum framgengt með því að fá umsögn þessa manns. Umsögnin er nú komin og liggur fyrir þessari hv. d. Ég hefi minnzt á hana nokkrum orðum, og ég ætla, að hún sýni betur en nokkuð annað, að hér er um pólitískan áróður að ræða, en ekki, að menn vilji tala um málið út frá nytsömu sjónarmiði iðnaðarins í landinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en ég vænti þess, að d. ljái því liðsyrði sitt til greiðrar áframhaldandi göngu.