02.04.1936
Efri deild: 40. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

32. mál, landssmiðja

*Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 1. þm. Eyf. segir, að hér sé ekki um ríkisrekstur að ræða, en mér sýnist annað. Ég sé ekki annað en hér sé að ræða um einokun um bygging á mótorum. Ég skil ekki, að aðrir fari að setja á stofn slík fyrirtæki, þegar landssmiðjan fær slíkt leyfi sem farið er fram á í frv., og má það teljast sama og að veita einkarétt, þegar þannig er veitt leyfi til að verja fé til að byggja mótora og ríkisábyrgð er gefin fyrir fénu.

Nú mætti ef til vill segja, að þetta væri ekki mjög athugavert, ef ekki kæmu hér fleiri ástæður til greina á móti þessu. En ég er þess fullviss, að í kjölfar þessara ákvæða siglir það, að bannaður verður innflutningur á mótorum og landssmiðjan verður látin fúska við að smíða dýra og ónýta mótora, og sjómönnum verður sú leið ein opin að kaupa þá.

Þetta er reynslan hér á landi, að fjöldi manna hleypur til að stofna iðnaðarfyrirtæki án þess að hafa nauðsynlega þekkingu og vit á iðngreininni. Þetta verður svo þjóðinni til stórskaða, vegna þess að framleiðsla þessara iðnfyrirtækja verður bæði dýr og léleg, og svo er gripið til þeirra ráða að vernda þennan iðnað með háum tollum eða með því að banna innflutning.

Mér hefir sjálfum verið boðið að taka þátt í að koma á fót slíkum iðnfyrirtækjum, og mér hefir verið sagt, að þetta væru upplögð gróðafyrirtæki, af því að innflutningur á vörunni yrði bannaður eða hún yrði vernduð með háum tollum. En mig hefir vantað sannanir fyrir því, að framleiðsla þessara iðnfyrirtækja yrði nothæf, hvað þá heldur að hún þyldi samanburð við erlenda framleiðslu.

Það er sennilega ætlunin, að smíða megi mótora til þess að selja út úr landinu. En hvernig eru möguleikar til þess að standast samkeppni við aðrar þjóðir í þessari iðngrein? Ef svo á að fara að byggja mótora fyrir okkur sjálfa, mótora, sem eru allt frá 6 hö. og upp í 150 hö., þá þarf ekki að smíða marga af hverri tegund til þess að fullnægja þörfinni innanlands, en því dýr- ari verður framleiðsla þeirra og ómögulegri samkeppni með þá, sem fleiri tegundir eru smíðaðar og færri af hverri tegund, og ég er viss um, að í höndum þeirra, sem nú stjórna, verður þannig á þessu haldið, að keppzt verður við að fúska við framleiðslu á mótorum, sem eiga að koma í stað þeirra, sem fluttir hafa verið frá útlöndum, og að selja þá háu verði, og gæðin verða þannig að þeir verða lítt nothæfir.

Hér mun sú raun verða á, ef að þessu verður horfið, að tekið verður fé úr ríkissjóði til að fúska við smíði á mótorum og að það verður til stórskaða og bölvunar fyrir útveginn.

Það var ekki þetta, sem Jón heitinn Þorláksson hafði í huga, þegar hann vildi, að landssmiðjan væri stofnuð í fyrstu. Hann stofnaði landssmiðjuna til þess, að hún skyldi vinna að brúargerð, og til þess var full ástæða, og til þess þurfti heldur ekki margbreytilegar vélar, eins og til þess t. d. að smíða mótora, og ekkert nema gott um það að segja, þótt í það væri ráðizt.

Auk þessa stefnir þetta frv. til að eyðileggja einstaklingsfyrirtæki þau, sem til eru í landinu og starfa að þessari iðn. Hv. 1. þm. Eyf. segir, að landssmiðjunni sé ekki ætlað að keppa við einkafyrirtæki, en honum er fullkunnugt um, að henni er einmitt ætlað það. Hann veit, að þannig er nú ástatt um vélsmiðjur, að þær hafa orðið að fækka mönnum. Það er auðvelt fyrir ríkisfyrirtæki, sem þurfa ekki að borga skatta eða skyldur, að taka verk frá einstaklingsfyrirtækjum, enda þótt því fylgi raunverulega stórtap; til þess þarf landssmiðjan á engan hátt að vera samkeppnisfær, en á þennan hátt er hægt að eyðileggja einstaklingsfyrirtækin, og ég er viss um, að það er takmarkið. Allur hans harmagrátur um, að hann vilji ekki fylgja ríkisrekstri, er algerlega út í hött; hér er beinlínis verið að vega að einstaklingsfyrirtækjunum, og er fullvíst, að ef að þessu ráði verður horfið, þá verður það þröskuldur í vegi heilbrigðs atvinnulífs og framfara í þessari iðn. Það kemur ekkert því við, hvaða skilning hv. þm. vill leggja í frv.; ég veit, að til þessa er stofnað. Það er vaninn hjá hv. framsóknarmönnum, þegar þeir ganga til samfylkingar með sósíalistum um að koma á fót ríkisfyrirtækjum, að þeir krossa sig og segja: „Ég er ekki með ríkisrekstri.“ Ég held, að þeir ættu að hafa það í huga, þegar jafnaðarmenn nörruðu þá til að fylgja þeim að málum um síldareinkasöluna. Mér finnst, að þeir hefðu haft góða ástæðu til þess að afneita ríkisrekstrarstefnu jafnaðarmanna eftir þá herfilegu útreið, sem þeir fengu þar, enda vita þeir það ofurvel, að meginþorri kjósenda þeirra er algerlega andstæður þessu ríkisrekstrarbrölti. Það kom greinilega fram í mínu kjördæmi, og framsóknarmenn þar lýstu því beinlínis yfir, að þeir væru eindregið andvígir slíku.

Það er svo ákveðið í frv., að ríkisstj. geti mælt svo fyrir, að engin stofnun, sem nýtur styrks frá ríkissjóði, megi láta fara fram aðgerðir annarsstaðar en í landssmiðjunni. Ég gæti trúað, að það yrði dálítið skrítið að sjá, þegar t. d. verður farið að senda alla koppa og kirnur, sem viðgerðar þurfa, frá sjúkrahúsum úti um land til landssmiðjunnar. Það væri ekki hægt að segja, að þar væri í næsta hús að venda. Þetta er að vísu sagt í gamni, en það, sem í stórum dráttum er meint í frv., er það að draga alla vinnu sem mest úr höndum einstaklinga, svo að landssmiðjan geti eftir fá ár orðið eina starfandi fyrirtækið í þessari iðngrein. Þótt byrjunin á slíku brölti leiði af sér mikið tap fyrir ríkissjóð, þá er hægt að ná því upp aftur, þegar við engan er orðið að keppa og enginn verðsamanburður getur komizt að, því þá er hægt að skrúfa upp verðið og láta landsmenn borga brúsann. Þetta er það, sem gert hefir verið, bæði við ríkisfyrirtæki og einkasölur. Það er kunnugt, að tóbakseinkasalan var sett á, þótt sannanlegt væri, að ef salan var frjáls, þá var hægt að selja tóbakið ódýrara og fá samt meira fé í ríkissjóð af tóbakstollinum einum saman heldur en fékkst hjá einkasölunni bæði af tolli og verzlunarágóða, og síðan ríkið tók þessa sölu í sínar hendur, hefir verð á tóbaki hækkað að mun, þrátt fyrir það, að verð þess á erlendum markaði hefir lækkað. Þetta er að vísu ónauðsynleg vara, og má því segja, að það geri minna til, þótt henni sé haldið í háu verði, en það fer alveg eins með nauðsynlegu vörurnar. og það verður tilfinnanlegt fyrir almenning, þegar jafnaðarmenn hafa fengið Framsfl. með sér til þess að setja ríkiseinkasölu á allar vörur. —

En það væri ef til vill ekki úr vegi fyrir framsóknarmenn að athuga það, að flokkssjóður jafnaðarmanna fitnaði ekki svo, að þeir þyrftu ekki meira með. — Þetta væri ef til vill rétt að athuga, áður en jafnaðarmenn hafa selt allt, sem þeir hafa til að selja.