03.04.1936
Efri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Mér þótti hæstv. forsrh. snarast nokkuð fljótt út, þegar hann var búinn með ræðu sína. Ég hafði hugsað mér að svara með fáeinum orðum því, sem hann sagði, sérstaklega í gær, því að hann beindi litlu til mín nú.

Hann sagði, að andstaðan gegn þessu frv. væri sér óskiljanleg, vegna þess að með þessum l. er ekki gerð önnur breyt. en að takmarka vald stj. og það hlyti stjórnarandstæðingum þó a. m. k. að þykja aðgengilegra heldur en ef ríkisstj. þyrfti ekki að fara eftir neinum lögum. Ég sé sannast að segja ekki, hvernig valdi ríkisstj. eru takmörk sett með þessum l. Það er bersýnilegt, að hvar sem um það er að ræða í l. að binda hendur ríkisstj. um það, að hún ekki misbeiti þessari stofnun til þess að skapa óeðlilegan gróða og til þess að ríða niður samkeppni, þá eru veittar óteljandi smugur. Það hefði t. d. mátt segja, að það væri að binda hendur stj., ef staðið hefði í 2. gr., eins og ég held, að brtt. hafi komið um í Nd., að jafnan skyldi prófa með útboði, hvort tilboð landssmiðjunnar væri raunverulega það hentugasta, sem hægt er að komast að. Náttúrlega fékkst þessi brtt. ekki samþ., heldur stendur í 2. gr., að ráðh. geti látið sanna með útboði, að tilboð landssmiðjunnar sé aðgengilegt. Þetta eru nú engar smáræðis hömlur! Ríkisstj. getur sem sagt látið landssmiðjuna fá eitthvert verk, hvernig svo sem hún býður, og þó að hún bjóði líkt og það fyrirtæki, sem hæstv. ráðh. var að dylgja um, að tekið hafi óeðlilegan gróða. Ég sé ekki, að hendur ríkisstj. séu í raun og veru á neinn hátt bundnar. Ef til vill má segja, að votti fyrir einhverri takmörkun, þar sem um getur í 15. gr., að forstjóri landssmiðjunnar skuli vera maður vel að sér um vélfræði og smíði. En ef ríkisstj. er ein að dæma um það, þá býst ég við, að fara muni líkt og í mörgum embættaveitingum þessarar hæstv. stj., að hún bara segi: „Þessi maður er vel að sér og þar við situr.“ Ég hefi hvað eftir annað hváð eftir svörum um það, hvers vegna útvarpsstjórinn okkar væri svo sérstaklega fær um að stjórna því fyrirtæki. Ég hefi aldrei fengið önnur svör en þau, að hann væri „ágætlega fær“ um það, en ekki hefir verið hægt að benda á neitt starf, sem hann geti unnið frekar en aðrir. Alveg eins má búast við um forstjóra fyrir þessu fyrirtæki, að það þyki mestu varða, að hann sé gæðingur stj., og segðu menn svo blákalt. „Hann er óskaplega vel fær“. Mér skildist líka á hæstv. ráðh., að maður, sem var kaupsýslumaður og síðar blaðamaður, hafi þess vegna alveg sérstaka „kvalifikation“ til að stjórna þessu fyrirtæki.

Samkv. þessu frv. er stj. bundin við að starfrækja landssmiðjuna, meðan þessi l. eru í gildi, hversu óhentugt sem það kynni að reynast. Það er líka skylt að leggja í ýmiskonar kostnað í fyrirtækinu, t. d. ef ríkisstj. dettur í hug að láta gera tilraunir um uppfinningar einhverra „snillinga“ í stjórnarherbúðunum, þá er landssmiðjan skyld til að smíða, svo framarlega sem ríkisstj. getur fengið meðmæli einhverra svokallaðra kunnáttumanna, sem ríkisstj. náttúrlega sjálf útnefnir.

Nei, það er þess vegna náttúrlega hreinn hégómi að tala um nein bönd á ríkisstj. í sambandi við þetta frv. Ekkert bindur það, að þeir, sem skipta skulu við landssmiðjuna, fái hin hentugustu kjör.

Hér segir, að það eigi að leggja til hliðar til endurgreiðslu á láni, sem landssmiðjunni er veitt. Það er byrjað með þessum orðum: „Nú verður ágóði af landssmiðjunni“. Það má skapa þennan ágóða á pappírnum, en það hefir sýnt sig, að þessu fyrirtæki hefir veitt erfitt að ná í raunverulegan ágóða. Það var halli 1933, eins og LR sýnir, lítilsháttar gróði 1932, þ. e. a. s. 6 þúsund og eitthvað, skapað með óeðlilegu móti. Þeir, sem höfðu eftirlit með rekstrinum, áttu að afskrifa meira af skuldum en gert var 1934; í þeim reikningi, sem ekki er enn birtur, er nokkur gróði, mig minnir um 30 þús. kr.

En eftir þessum l. hefir ríkisstj. óteljandi ráð til þess að láta þetta fyrirtæki bera sig á pappírnum. Og það er sú langhættulegasta aðstaða, sem hægt er að skapa opinberu fyrirtæki, að gefa því óeðlilega aðstöðu til að græða á yfirborðinu með því að taka peninga frá ríkissjóði í viðskiptum við fyrirtæki, sem eru lögþvinguð til að skipta við það.

Annars var ræða hæstv. ráðh. með svo miklum skekkjum og svo undarlegum barnaskap, að ótrúlegt var, t. d. út af því, sem ég sagði um hina frjálsu samkeppni og hvernig hún hefði takmarkazt yfirleitt, að atvinnurekendur hefðu yfirleitt í ýmsum löndum og líka hjá okkur reynt að takmarka hana. Þetta er vitanlegt, því að hin frjálsa samkeppni er fyrst og fremst til hagnaðar þeim, sem skipta við fyrirtækið, en ekki fyrir atvinnurekendur sjálfa. En þó tók út yfir, þegar hann var að vitna í það, að sum ríki, t. d. Bandaríkin, hefðu átt í stórkostlegri baráttu við auðvaldshringana, sem vildu gera samkeppnina að hégóma. Hann sagði, að núverandi Bandaríkjaforseti hefði staðið gegn íhaldinu öndverður í þeirri baráttu. En sannleikurinn er sá, að þessi „antitrust“-lög eru frá öldinni sem leið. Og sá, sem hóf bardagann við auðfélögin og kom þessum „antitrust“-lögum í kring og lagði líf sitt í hættu, var hinn voðalegi íhaldsmaður Theodor Roosevelt — því að mér skildist hann telja replublikana íhaldsmenn. Hann lagði sína krafta í þessa baráttu og líf sitt í hættu oft og einatt. Ráðh. hefir villzt á Rooseveltunum, en hér er um tvo menn að ræða með mjög ólíkum skoðunum. Hitt er annað mál, að núv. Roosevelt hefir einnig barizt á móti auðvaldshringum og slíku, en hinar nýju ráðstafanir hins nýja Roosevelts, sem hefir fengið nokkurskonar einræðisvald í Bandaríkjunum, eru miklu flóknari en svo að við ræðum þar hér.

Nei, það er vitaskuld mikil tilhneiging í þá átt hjá atvinnurekendum og kaupsýslumönnum að draga úr þeirri samkeppni, sem neyðir þá á neðstu takmörk með verð, en á efstu takmörk með gæði. Þeir vilja gjarnan geta hirt eitthvað meiri ágóða, og þess vegna gera þeir samtök. En úr þessu á að bæta með því að setja upp lögverndað fyrirtæki við hliðina. Og það á að gera meira en þetta. Þetta fyrirtæki getur haft alla samkeppni gersamlega að engu. Það getur eyðilagt algerlega kosti hinnar frjálsu samkeppni með því að láta öll útboð undir höfuð leggjast. Ég verð að segja, að ég skil ekki röksemdafærslu þeirra, sem mæla með þessu frv. En það er sú blinda löngun til ríkisrekstrar, sem hefir komið mönnum til að skapa sér hin fávíslegustu falsrök.

Þá hafði ég ákaflega gaman að heyra hæstv. forsrh. segja, sérstaklega í gær, að Jón Þorláksson hefði komið landssmiðjunni á fót einmitt til þess að brjóta svona hringmyndanir meðal þeirra, sem höfðu starfrækt hinar stóru járn- og stálsmiðjur um þær mundir. Ég var nú ekki í Reykjavík um þær mundir, en ég held þetta hafi gerzt stuttu eftir aldamótin, þegar Jón Þorláksson var landverkfræðingur. (SÁÓ: 1910). Ég efast um, að nokkur stór smiðja hafi verið þá hér, hygg það hafi verið venjulegar eldsmiðjur, og þó heldur hæstv. forsrh., að verið hafi hér einhver voðalegur vélsmiðjuhringur, sem Jón hafi þurft að brjóta á bak aftur. Þetta er svo einstakur barnaskapur, að ég er alveg hissa, að nokkur þm. sleppi slíku út úr sér og endurtaki dag eftir dag. Jón Þorláksson setti upp smiðjuna af því, að enginn gat tekið að sér að smíða þær brýr, sem hann vildi fá smíðaðar hér á landi. En eftir að einstaklingar settu hér upp vélsmiðjur, veit ég ekki til, að Jón Þorláksson fengi neina tilhneigingu til þess að drepa þessi fyrirtæki með landssmiðjunni.

Hæstv. forsrh. brýndi hv. 10. landsk. á, að hann hefði ekki lagt niður landssmiðjuna, þegar hann var ráðh., frekar en Jón Þorláksson. Ég veit ekki til, að hann þyrfti að leggja niður landssmiðjuna, því að hún var ekki starfandi þegar hann var við völd. Ég hygg, að lagt hafi verið að honum af vinum hans og kunningjum um að setja þetta fyrirtæki upp, en hann vildi ekki, því að hann taldi óheilbrigt að setja upp landsfyrirtæki. þegar einstaklingar í landinu gátu leyst viðkomandi verk vel af hendi. Og hann hafði enga tilhneigingu til þess að ríða þessi fyrirtæki niður. Ég býst því varla við, að hæstv. ráðh. þurfi að brýna neinn á því. Annars þykir mér leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera hér inni til þess að hlusta á þessa leiðréttingu, svo að hann fari ekki að endurtaka það enn á ný að Jón Þorláksson hafi sett á stofn landssmiðjuna til þess að kveða niður einhvern samkeppnishring. Allt slíkt hjal er hin mesta fjarstæða, þar sem engin vélsmiðja var þá til í þessu landi.

Langsterkasta röksemdin, sem hann kom með, sú röksemd, sem hann æstist svo yfir, að hann rauk á dyr, þegar hann hafði hvæst henni fram úr sér, var sú, að vélsmiðjurnar gætu myndað með sér hring gagnvart ríkinu, ef t. d. boðið væri út smíði brúar, sem kostaði raunverulega 15 þús., en hún fengist ekki smíðuð fyrir minna en 25 þús., af því að smiðjurnar hefðu komið sér saman um að bjóða ekki lægra í byggingu hennar. Hæstv. ráðh. spurði, hvað ríkið ætti að gera í slíku tilfelli. Hæstv. ráðh. til hugarhægðar verð ég að segja honum, að ég held, að það sé óþarfi fyrir hann að óttast nokkuð slíkt. Það myndi varla koma fyrir, að slík samtök yrðu mynduð gegn ríkinu frekar en t. d., að allir embættismenn landsins fari að mynda með sér samtök og segja, að þeir taki ekki við embættum, nema fyrir hærri laun en ríkið býður. Nei, það eru alltaf nógu margir til þess að bjóðast til að taka að sér verk, sem sómasamlega er greitt fyrir. Annars virðist mér, eins og nú er komið háttum hjá okkur, að það væri ekki neinn voði fyrir þjóðfélagið, þó að eitthvert einkafyrirtæki græddi eitthvað lítilsháttar, því að það er nú búið að búa svo um hnútana, að allur obbinn af gróða einstaklinganna fer annaðhvort til ríkissjóðsins eða sveitarfélaganna í gjöldum og hverskonar álögum. En kæmi það hinsvegar fyrir, að stj. teldi, að einkafyrirtækin færu að gera samtök sín á milli, eins og hæstv. ráðh. benti á, að komið gæti fyrir, þá væri innan handar fyrir hana að fá vinnuna framkvæmda erlendis fyrir rýmilegra verð, eða þá að öðrum kosti að hrófla upp landssmiðju, eins og Jón sál. Þorláksson gerði. Auk þessa gæti stj. haft ótal önnur ráð til þess að fá hin innlendu fyrirtæki til þess að vinna fyrir sanngjarnt verð. Annars get ég sagt hv. þdm. það, að ég hefi fengið upplýsingar um, að smíði hefir verið framkvæmd hér í hinum innlendu vélsmiðjum, sem teiknuð hefir verið erlendis og boðin út þar, fyrir nær alveg sama verð og hið erlenda tilboð var.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri enginn, sem andmælti því, að landssmiðjan væri starfrækt, en þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., því að ég segi t. d. í nál. mínu, að ég sé á móti frv., af því fyrst og fremst, að ég væri á móti því, að smiðjan væri starfrækt. Að ég ekki flyt brtt. í samræmi við þá skoðun mína, er sökum þess, að ég vil ekki tefja þingið með því. Þá sagði þessi hæstv. ráðh., að það væri sjálfsagt fyrir ríkið að hafa smiðju til þess að láta vinna þau verk, sem það þyrfti að láta framkvæma í smiðju. Þetta getur að sjálfsögðu hljómað vel í eyrum þeirra manna, sem telja einstaklingana fjandmenn ríkisins og jafnframt líta svo á, að þeir megi á engan hátt græða pening. En frá mínu sjónarmiði eru dálitlir gallar á þessu, sem geta leitt til þess, að það geti orðið nokkuð dýrt fyrir ríkið að binda alla þá smíði, sem það þarf að láta framkvæma, við sína eigin smiðju. Nú stendur t. d. svo á, að öll aðalviðgerð ríkisskipanna fellur á sama tíma, en til þess að framkvæma hana alla þarf stór hús og miklar vélar, auk margra verkamanna. Af því leiðir aftur, að ríkið verður að sjá öllum þeim mönnum, sem það þarf á að halda við aðgerðir skipanna, fyrir vinnu hinn tíma ársins, og það m. a. vegna þess, að það er dýrt fyrir ríkið að láta dýrar vélar og stórt húsrúm standa autt og ónotað mikinn tíma ársins. Mér skilst því, að þetta geti komið til með að hlaða á sig alveg eins og snjóbolti, sem velt er og alltaf þarf meira og meira átak til þess að velta áfram. En átakið til að velta smiðjunni áfram og halda henni gangandi allan tíma ársins á að gera með óeðlilegri löggjöf. Það á að grípa til þess að skipa fyrir með lögum, að landssmiðjan skuli hafa alla þá vinnu, sem hún getur innt af hendi og ríkið þarf að láta framkvæma, og ekki nóg með það, heldur á stj. einnig að vera heimilt að skylda öll þau fyrirtæki, sem styrks njóta úr ríkissjóði, að skipta við hana. Þannig getur stj. t. d. fyrirskipað, að Eimskipafélag Íslands skuli láta landssmiðjuna sitja fyrir allri þeirri smíði, sem það þarf að láta framkvæma hér á landi. Þannig getur stj. alltaf velt meira og meira yfir á þetta fyrirtæki, sem að sjálfsögðu útheimtir alltaf meira og meira fé, ef það á að verða samkeppnisfært um vinnugæði og vinnuhraða á móts við einkafyrirtæki.

Ég hefi nú þegar talað tvisvar við þessa umr. og mun mér því ekki gefast kostur á að ræða málið öllu frekar nú, en ég vil því geta þess nú, að ég mun við 3. umr. bera fram brtt., sem gengur í þá átt að færa málið í það horf, sem stj. segir, að fyrir sér vaki með frv., sem sé að tryggja það, að fyrirtækið verði rekið áfram sem svipaðast því, sem það er nú. Vænti ég því, að hv. þdm. taki vel í brtt. mína.