20.04.1936
Efri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

32. mál, landssmiðja

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla engu að svara hv. 10. landsk., en beina örfáum orðum til hv. þm. N.-Ísf. Hann vildi draga það í efa, að ég hefði farið rétt með, að það hefði verið óeðlileg álagning hjá vélsmiðjunum á þau verk, sem ríkið hefði látið vinna þar, og að gróði þeirra hefði stafað af því. Hann dró það í efa, að nokkur hluthafi hefði haft þau orð við mig, sem ég sagði áðan. enda þótt „Hamar“ hefði ekki gengið með eins glæsilegum árangri síðan ríkið hætti að láta vinna þar.

Ég hygg það efalaust, að bændur og búalið græði á því, að landssmiðjan geti tekið að sér fjölþætt smíði, og ríkið og aðrir þeir, sem slík verk þurfa að láta vinna, séu þannig losaðir undan því, að einstaklingsfyrirtækin geti lagt á þessi verk eftir eigin vild, eins og þau gátu, meðan enginn var til að bjóða á móti þeim. Ég hygg, að flestir muni sammála um, að ríkinu sé það skaðlegt að vera ofurselt geðþótta einstakra fyrirtækja um verðlag á því, sem það þarf að láta vinna, og ólíku sé það heppilegra fyrir ríkið að hafa sjálft smiðju og losast þannig við, að okrað sé á því af einkafyrirfækjum, eins og áður var gert.